11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í C-deild Alþingistíðinda. (3052)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Jörundur Brynjólfsson:

„Erat hlunns vant, kvað refur, dró hörpu at ísi.“ — Jeg hafði ekki búist við, að hv. 2. þm. N.-M., sem átti sæti í landbn. á síðasta þingi og á enn, mundi gera eins ákveðna tilraun til að fá enn að fara höndum um þetta mál, eins og fram kom í ræðu hans í dag. Jeg gæti raunar sagt hið sama um hv. 2. þm. Reykv. Eftir ræðu hans í fyrra, um þetta mál, bjóst jeg við, að hann gæti látið sjer lynda, að ein slík ræða eftir hann geymist í þingtíðindunum. Nú hefir honum þótt sjer gefast tækifæri til að láta aðra sjást áþekka, og það er eðlilegt, að hann notaði það tækifæri, fyrst hann er með þeim ósköpum fæddur að halda, að á miklu riði, að þessi ummæli hans komi í þingtíðindunum.

Jeg verð að segja, að eins og málið var lagt fyrir landbn. í fyrra, hafði jeg enga löngun til að blanda mjer inn í það. Landbn. afgreiddi málið frá sinni hálfu á þann hátt, að hún taldi sjer óviðkomandi að hlutast til um sakir Sigurðar Sigurðssonar gegn stjórn búnaðaðarfjelagsins, og sömuleiðis þóttist hún ekki hafa íhlutunarrjett um það, hvort Sigurði yrði falin búnaðarmálastjórastaðan framvegis. Það áleit hún verkefni búnaðarfjelagsstjórnarinnar, og jeg hygg, að skoðun hennar hafi ekki breyst í því efni. — Öðru máli var að gegna, ef stjórn búnaðarfjelagsins hefði þótt málið þess eðlis, að rjett væri að leita um það álits landbn. Þá hefði nefndin auðvitað tekið á móti málinu og afgreitt það á þann hátt, sem henni þótti rjettast. Nú hefir búnaðarþingið ráðið málinu til lykta á þann hátt, sem kunnugt er orðið. Það hefir talið sjer það frjálst og heimilt, enda verður ekki hjá því komist, að það er hinn rjetti hlutaðeigandi. (HK: Um það eru nú skiftar skoðanir). Það er nú þegar orðið kunnugt, svo að þessi hv. þm. hefði ekki þurft að grípa fram í þess vegna. Ummæli hv. 2. þm. Reykv. í dag hafa fullkomlega sýnt, að um þetta eru skiftar skoðanir. Jeg skil samt ekki, á hvern veg þessir hv. þm. hafa hugsað sjer, að Alþingi hefði ílutun um þessi mál. Úr því að stjórn búnaðarfjelagsins sá ekki þörf á að leita til Alþingis, er ekkert við því að segja, og því síður, þar sem þessir hv. þm. virtust ekki leggja mikið upp úr því á síðasta þingi, sem á milli bar Sigurðar og búnaðarfjelagsstjórnarinnar. Hv. 2. þm. Reykv., sem talaði mjög á annan veg en hv. 2. þm. N.-M., þótti afskifti búnaðarþingsins af þessu máli ákaflega einkennileg, og fann því mest til foráttu, að ekki hefði verið gert kunnugt öllum almenningi, hvernig sakir standa. Jeg hygg, að þeir menn, sem voru í landbn. í fyrra, geti farið nærri um niðurstöðuna, eftir þeim skjölum, sem þá lágu fyrir. Eftir því sem hv. 2. þm. Reykv. segir í ræðu sinni í fyrra, hefir hann sjeð þessi skjöl. En hann telur málið þá mjög smávægilegt og ber landbn. þeim sökum, að hún hafi farið með fleipur. Hv. þm. virðist hafa breytt um skoðun, a. m. k. lítur hann öðrum augum á það nú, hvað málið sje stórvægilegt. Jeg mótmæli því, að landbn. hafi sagt nokkuð í fyrra, sem ekki hafði við rök að styðjast. Hún fór að vísu ekki langt út í málið í nál., því að hún taldi ekki þörf á að fjölyrða um það.

Jeg vil ekki eyða tíma í að fara gegn um öll ummæli hv. 2. þm. Reykv. Mjer virðist þau beint áframhald af þeim blaðadeilum, sem spunnist hafa út af málinu s. l. sumar, og það er mikið mein, ef menn hafa lagt mikið upp úr þeim deilum, og að þessir hv. þm. skyldu ekki í tæka tíð snúa sjer til búnaðarþingsins með ósk um, að það legði dóm á málið og skilaði opinberu áliti. Þeir segja kanske, að þeim hafi ekki dottið í hug, að búnaðarþingið skildist við málið, án þess að kveða upp dóm um ágreiningsefnið. En allur er varinn góður, og það hefði ekki verið úr vegi að heimta skýrslur og upplýsingar.

Mjer hefir annars sýnst skína í gegn um þessa ræður, einkum ræðu hv. 2. þm. Reykv., að honum þætti sjerstaklega áfátt um það, hverjir nú færu með stjórn búnaðarmálanna, að hann treysti öðrum betur. En frá því í fyrra hafa ekki orðið aðrar breytingar en þær, að einn maður gekk úr og annar kom í hans stað. Ef þetta vantraust á við nokkuð að styðjast, ætti það helst að vera fólgið í því, að hann hafi treyst þeim, sem fór, miklu betur en þeim, sem kom. Jeg skal ekki blanda mjer neitt inn í þann ágreining. Sá maður, sem úr gekk í fyrra, var að öllu leyti okkur óviðkomandi, andstæðingum hv. 2. þm. Reykv. Við áttum þar enga hlutdeild í, heldur aðrir, sem stóðu honum nær. En jeg get vel tekið undir með hv. 2. þm. Skagf., að jeg ber ekki minna traust til þess manns, sem nú er í stjórninni, heldur þvert á móti. Jeg veit, að hann er dugandi bóndi, og hann hefir sýnt, að hann ber gott skyn á mál, sem búnaðarfjelagið hefir með höndum.

Nú hefir formaður búnaðarfjelagsstjórnarinnar boðist til þess að gefa landbn. þingsins upplýsingar, þessu máli viðvíkjandi. Hann ræður því auðvitað. Jeg get sagt fyrir mig, að jeg mundi taka á móti þeim upplýsingum. En sje ekki neitt nýtt að upplýsa frá því í fyrra, engin ný málskjöl, sem bregði ljósi yfir málið, óska jeg ekki eftir neinum skýrslum. Jeg tel, að við höfum annað þarfara með tímann að gera, en fara enn á ný yfir sömu skjölin og í fyrra.

Mjer finst það talsvert broslegt, þegar báðir þessir hv. þingmenn (MJ og AJ) standa upp og vitna um, að þeir beri ekki traust til hv. þm. Str. sem formanns búnaðarfjelagsins. Jeg óska ekki eftir slíku trausti frá þeirra hendi. Mjer finst hægt að láta sjer það í ljettu rúmi liggja, hvaða skoðun þeir hafa í því efni. En út af ummælum hv. 2. þm. Reykv. um búnaðarþingið, verð jeg að segja það, að heldur er það óvanalegt í þingræðum, að fjarverandi menn sjeu bornir hálfgerðum meiðyrðum. En hann gaf í skyn, að mönnunum, sem var falið að rannsaka áburðarmálið, hafi verið skipað að þegja um málið og gefa engar upplýsingar. Hann gerir ráð fyrir þeim lítilþægum og auðsveipum. Hann gat ekki um, hver hefði átt að koma með þá skipun — það skiftir reyndar ekki miklu máli — ef til vill hefir það verið formaður fjelagsins eða þá búnaðarmálastjóri. Líka gerði hv. þm. það að umtalsefni, að stungið hefði verið upp á mönnum í nefndina, og þótti það óviðurkvæmilegt. Kosið var samt skriflega. (MJ: Hver stakk upp á mönnunum?). Jeg veit það ekki, enda stendur það á sama. Jeg hugsa, að mennirnir hafi verið atkvæðisbærir. Eða hefir hv. þm. (MJ) sjerstaka ástæðu til að væna þessa menn um, að vinna ekki vel? Ef svo er, hefði ræða hv. þm. verið jafngóð, þó að hann hefði slept þessum þætti úr leikaraskapnum. Hann drap á, máli sínu til sönnunar, að þingmenn greiddu ekki atkvæði í málum, sem snertu þá persónulega. Jeg vil benda hv. þm. á, að þingmenn hafa oft orðið að greiða atkvæði um mál, sem snertu þá persónulega og hafa verið þannig vaxin, að ekki var auðvelt hjá því að komast. Ætli embættismenn, sem sæti hafa átt á Alþingi, hafi látið vera að greiða atkv. í launamálinu? Nei, þeir hafa, eins og eðlilegt er, greitt atkv. í því máli. Enda er þar fleiri hagsmuna að gæta en þeirra, persónulega.

Alt tal hv. þm. (MJ) um margra alda reynslu, er jeg búinn að benda á að hefir við lítið að styðjast.

Þá gerði hv. þm. (MJ) að umtalsefni, að þessar sakir, sem bornar voru á búnaðarmálastjóra, væru þannig vaxnar, að hann hefði átt heimtingu á að fá málið upplýst. Jeg veit ekki, hvað hv. þm. meinar. Á hann við, að honum hafi ekki verið frjálst, ef hann hefði viljað, að fá málið upplýst? Jeg skil ekki tal hv. þm. Hafi hann ekki við meiri rök að styðjast en komið hafa fram hjá honum, álít jeg, að svona ummæli hjer á þingi sjeu með öllu ósæmileg. Jeg þekki ekki til, að hömlur hafi verið lagðar á búnaðarmálastjóra með að fá að verja sig. Ef til vill veit hv. þm. (MJ) eitthvað um þetta; en þá veit hann meira en jeg, og þar sem hann gerir þetta að umtalsefni hjer, er honum skylt að leiða sannleikann í ljós.

Hv. þm. vjek að því, að landbn. í fyrra hefði farið með dylgjur. því vil jeg eindregið mótmæla. Þau ummæli, sem landbn. hafði, áttu við rök að styðjast. Þá var hv. þm. að tala um búnaðarþingið sem hæstarjett í þessu máli, og þótti bág niðurstaðan, þar sem ekkert hefði orðið upplýst. Þetta hjal hv. þm. (MJ) er á þann veg, að ekki sje hægt að sækja málið á öðrum vettvangi en búnaðarþingsins, hefir ekki við nein rök að styðjast. Jeg hugsa ekki, að hv. þm. sje svo fáfróður, að hann viti ekki, að mennirnir geta sótt rjett sinn til annara en búnaðarþingsins. Heldur háttv. þm. (MJ) ekki, að Sigurður Sigurðsson geti skotið máli sínu til dómstólanna, ef hann vill?

Hv. þm. virtist harma það mjög, að Sigurður Sigurðsson skyldi vera settur aftur inn í stöðuna, og þó eiginlega ekki settur inn í hana, sagði hann. Annaðhvort hlýtur að vera rjett. Annaðhvort hefir hann verið settur inn í stöðuna eða ekki. (MJ: Hvort var gert?). Jeg býst við, að hann hafi ekki þá stöðu, sem hann hafði. En engum þarf að þykja undarlegt, þar sem um margþætta starfsemi er að ræða, að menn sjeu misjafnlega til þess fallnir að gegna slíkri starfsemi. Þó að einhverjum sje áfátt að vinna eitthvert víst verk, getur hann verið ágætlega fallinn til þess að leysa af hendi eitthvert annað verk. Þeir, sem kynst hafa áhuga og hæfileikum Sigurðar Sigurðssonar, geta vel unað þeirri niðurstöðu, að hann haldi áfram að starfa innan þess verkahrings, sem hann hefir helgað krafta sína síðan hann varð fulltíða maður. Og hafi ekki borið meira á milli en það, sem við vitum um, finst mjer vel hægt að una úrslitunum frá því sjónarmiði.

Það kann að vera, að menn hafi látið í ljós, að þeir treystu ekki stjórn búnaðarfjelagsins yfirleitt. En það er alt annað mál. Þeirra vantraust er alls ekki bundið við þetta atriði, enda á slíkt vantraust að koma í ljós laust við þetta mál. Jeg get sem sagt ekki betur sjeð, en að öll misklíð geti niður fallið og meira verði hugsað um að sinna þeim alvörumálum, sem fyrir liggja en að skemta skrattanum með því að halda áfram þessu rifrildismáli.

Annars hafa umræðurnar farið allfjarri frv., sem fyrir liggur. Mjer virtist hv. 2. þm. N.-M. gera of lítið úr þýðingu þessa máls í gær, fyrir íslenskan landbúnað. Hitt er jeg honum sammála um, að það, sem mest kallar að út um sveitir landsins, er að áburðurinn sje betur hirtur og meiri nýtni sje nauðsynleg. Það er áreiðanlegt, að eigi jarðrækt að geta tekið framförum, er fyrsta sporið í þá átt að hirða húsdýraáburð betur en gert hefir verið. En þó að þetta sje rjett, má ekki líta svo á, sem þetta frv. hafi ekki líka mikla þýðingu. Jarðrækt í kauptúnum og kaupstöðum getur ekki tekið framförum, nema erlendur áburður sje fluttur inn, enda hefir notkun á erlendum áburði aukist afarmikið á síðustu árum. Eftir því sem jeg hefi komist næst, voru árið 1925 flutt inn 500 tonn af erlendum áburði, en 2–3 árum áður aðeins fáein tonn.

Hv. 2. þm. N.-M. sagði, að nauðsynlegt væri, þar sem Búnaðarfjelag Íslands hefði svo miklisvarðandi vandamál til meðferðar, að treysta mætti stjórn þess. Þetta er alveg rjett. En þó að svo kunni að vera ástatt, að hann treysti ekki stjórn búnaðarfjelagsins, eru til menn, sem líta öðrum augum á það mál. Jeg get fyrir mitt leyti lýst því yfir, að jeg tel, að þeir menn, sem nú ráða mestu í Búnaðarfjelagi Íslands, leggi sig í framkróka með að leysa störf sín sem allrabest af hendi, og form. búnaðarfjelagsins treysti jeg mjög vel. Jeg hygg, að það sje dálítið hæpið, að draga þá ályktun út af ágreiningi um áburðarmálið, að stjórn fjelagsins fari ekki vel með framkvæmdir búnaðarfjelagsins í landbúnaðarmálum, eins og komið hefir fram hjá hv. 2. þm. N.-M., og fleirum.

Það er ekki mitt að svara fyrirspurnum hv. þm. til búnaðarfjelagsstjórnarinnar. Sje fyrverandi búnaðarmálastjóri hafður fyrir rangri sök, er hann vafalaust maður til að reka rjettar síns, og menn geta látið sjer það mál í ljettu rúmi liggja, meðan það grípur ekki inn í starfsemi annara manna.

Hv. 2. þm. N.-M. sagði, að það væri nauðsynlegt, að menn, sem að þessum málum vinna, væru skapfestu- og dugnaðarmenn. Jeg er honum alveg sammála. Það er yfirleitt mín skoðun, að í hverju rúmi þurfi á skapfestumanni að halda, þar sem við erum svo fáir og smáir.