19.03.1927
Neðri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í C-deild Alþingistíðinda. (3060)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Björn Líndal:

Hjer hafa orðið alllangar umr., en þó ekki vonum fremur, því að málið er þannig í pottinn búið, að þeirra er hin fylsta þörf. En jeg játa þó, að jeg hefi minna grætt á þessum umr. en jeg hefði óskað.

Jeg ætla ekki að bæta við þær ákúrur, sem háttv. þm. Str. hefir orðið fyrir. Jeg er nú ekki grimmari maður en það, að jeg kenni í brjósti um hv. þm. (TrÞ). Því að þó ilt sje að vera borinn röngum sökum, þá er hitt samt enn verra, að vera borinn sönnum sökum. En svo er með háttv. þm. Str. í þessu máli. — En í sambandi við þetta vil jeg leyfa mjer að benda háttv. þm. á það, að hann getur ýmislegt gott og gagnlegt af þessum umræðum lært, ef hann ekki lokar augum sínum og eyrum fyrir sannleikanum. Hirtingin, sem hann hefir fengið, ætti að kenna honum, að takmörk eru þó fyrir því, hve djúpt má sökkva sjer í pólitísk óheilindi og undirhyggju, til þess að nokkur von geti verið um það, að úr því foraði verði aftur komist nokkurnveginn vansæmdarlaust. Líka eru takmörk fyrir því, hve langt megi hætta sjer út á þá óheillabraut, að blása pólitískum eldi inn í allskonar fjelagsskap, svo að ekki komi sjálfum þeim í koll, er að eldinum blæs. Það er alkunna, að hv. þm. (TrÞ) hefir í broddi öflugs stjórnmálaflokks reynt með miklum, áhuga að gera stór og merkileg fjelög að pólitískum leiksoppum, og þó er það auðsætt öllum meðalgreindum mönnum, að þessum fjelögum hlýtur að vera þetta stórskaðlegt. Á jeg þar við Sambandið og Búnaðarfjelag Íslands, sem bæði eru í eðli sínu algerlega ópólitísk og geta alls ekki verið traustur grundvöllur undir heilbrigðu pólitísku lífi. Jeg vona, að hv. þm. (TrÞ) hafi nú lært af þessu máli, sem hjer um ræðir, að hættulegt er að ganga langt út á þessa braut. Þannig fór það nú í búnaðarfjelaginu, og má mikið vera, ef ekki fer svipað fyrir Sambandinu, áður en langt um líður, ef ekki er gætt hófs í tíma, þótt jeg voni hið gagnstæða í lengstu lög og óski þess af heilum hug, að því verði í tíma bjargað frá því að lenda í svipuðu fargani og búnaðarfjelagið er nú sokkið í.

Það, sem kom mjer sjerstaklega til að standa upp, var eitt atriði í frv., sem hjer liggur fyrir. Er það áþreifanlegt dæmi þess, hve óheillega er í pottinn búið. Jeg á hjer við eitt orð í 2. gr. Greinin öll hljóðar svo — með leyfi forseta: „Heimild þessa skal ekki nota, ef Búnaðarfjelag Íslands hefir 1. jan. 1928 fengið aftur í sínar hendur einkaumboð hjer á landi fyrir sölu á Noregssaltpjetri eða öðrum jafngóðum kalksaltpjeturstegundum.“

Eins og kunnugt er, hefir einmitt staðið hörð og hatramleg deila um það, hvort búnaðarfjelagið hafi nokkurntíma haft þetta umboð eða ekki. Með þessu orðalagi er því verið að gera tilraun til þess að ginna þingið til þess að fella dóm um mál, án þess að nokkur skjöl eða skilríki liggi fyrir, sem bygður verði á sæmilega rjettlátur dómur. Hv. þm. hefir sjálfur manna mest og best unnið að því, að stinga öllum upplýsingum um þetta mál undir stól og rugla um það fram og aftur í blaði sínu, svo að enginn getur af þeim skrifum sjeð, hvað satt er eða logið. Og nú fyrir skömmu hefir hann lokað munni rannsóknarnefndarinnar, sem skipuð var á búnaðarþinginu, einmitt til þess að rannsaka þetta áburðarmál, og þó einkum, hvort búnaðarfjelagið hafi haft þetta einkasöluumboð eða ekki. Jeg krefst þess, að hann geri grein fyrir því, hvað fyrir honum vakir með orðinu „aftur“ í frvgr., ef það er eitthvað annað en jeg hefi bent á. Að öðrum kosti verð jeg að halda fast við það, að þinginu sje gerð ófyrirgefanleg vansæmd með þessu athæfi. Tel jeg ekki forsvaranlegt að bjóða þinginu þetta.

Alt frv. er nú í rauninni endileysa. Það hefir verið bent á, að 3. gr. er sjálfri sjer sundurþykk. Hún er, vægast sagt, bull frá upphafi til enda. Fyrst er þar talað um, að skip ríkissjóðs skuli flytja áburðinn ókeypis. Því næst er stjórninni gefin heimild til þess að semja við Eimskipafjelagið um ókeypis flutning. Af þessu er fyrst og fremst ljóst, að hv. þm. (TrÞ) er ekki betur að sjer en það, að hann heldur, að stjórnin geti ekki gert samninga um ódýran eða ókeypis flutning fyrir ríkissjóð, nema sjerstök lagaheimild sje fyrir þessu. Og í lok gr. stendur: „Kostnaðurinn greiðist úr ríkissjóði.“ Hvaða kostnaður er þetta, ef áburðurinn á að flytjast ókeypis? Eða er stjórninni ekki leyfilegt að semja við Eimskipafjelagið, nema hún taki borgun fyrir það? Þetta er í meira lagi einkennileg endileysa og hlálegur hugsanagrautur.

Í 1. gr. segir, að búnaðarfjelagið geti framselt einkasölurjett sinn í hendur öðrum, annaðhvort fjelagi eða einstaklingi, ef atvrh. samþykkir. Jeg býst nú við því, ef Framsóknarflokkurinn verður ofan á við næstu kosningar, að þá verði hv. þm. Str. atvrh. í hinni nýju stjórn. En jeg segi fyrir mig, að jeg ber ekkert traust til hans til þess að beita þessu ákvæði laganna rjettilega og á þann hátt, er þjóðinni mætti að mestu gagni verða.

Frv. er alt samtvinnaðar hugsanavillur og óheilindi, og er reynt með því að ginna þingið til þess, að dæma um mál, sem það getur ekki dæmt um, vegna ófullnægjandi upplýsinga. Loks vil jeg ennþá einu sinni leyfa mjer að benda á þann óheillaanda, sem þetta frv. er innblásið af, þann anda, sem þessir háu herrar, „bændaleiðtogarnir“ eru alstaðar að stritast við að smeygja inn í hugskot íslenskra bænda. Þeir eru látlaust að stritast við að gera þá að auðvirðilegum ölmusuræflum, með því að telja þeim trú um, að þeir komist ekki af án ívilnana og gjafa á öllum sviðum, og reyna þannig að drepa úr þeim alla dáð og sjálfsbjargarviðleitni. Nýlega var hjer frv. á ferðinni um breytingar á vörutollslögunum, afnám vörutolls á innfluttum kraftfóðurtegundum, sem eftir athugun fjhn. mun koma til að nema um 200 kr. á ári. Um þetta var mikið rætt á búnaðarþinginu og færðar margar ástæður fyrir því, hve nauðsynlegt það væri að fá þessa stóru upphæð, 200 kr., afnumda. En vitanlegt er, að þetta verður aðeins hagur fyrir þá bændur, sem búa í nánd við kaupstaðina, helst Reykjavík, og sem þar af leiðandi hafa langbesta aðstöðu til þess að reka búskap sinn með hagnaði, sakir þess, hve góðan markað þeir hafa við hendina fyrir afurðir sínar. Þetta mun aftur yfirleitt lítið snerta bændur út um sveitir, enda er hjer um hlægilega litla upphæð að ræða. En hitt er vitanlega annað mál, að bændaleiðtogarnir telja sjer það kanske vænlegt til kosningafylgis að flagga með þessari miklu umhyggjsemi fyrir hag bændastjettarinnar. Hjer kemur svo frv. um ókeypis flutning á áburðinum, sem sennilega þykir enn veiðnari kosningabeita.

Það hefir rjettilega verið spurt að því, hvaða fjelag eða einstaklingar mundi standa því næst, að fá einkasöluna hjá Búnaðarfjelagi Íslands, ef frv. þetta verður að lögum. Því hefir enn ekki verið svarað. En þetta er mikilsvert atriði, og vil jeg því endurtaka spurninguna. Ef nú búnaðarfjelagið hefir sjálft söluna á hendi, hvorum búnaðarmálastjóranum verður hún þá falin? Er það satt, að sá sami maður eigi nú að hafa sökum framvegis, er áður á að hafa reynst algerlega óhæfur til þess, að dómi fjelagsstjórnarinnar, og var fyrir þær sakir rekinn frá fjelaginu í fyrra? Ef svo er, þá vil jeg leyfa mjer að spyrja: Hefir hann breyst svona mjög til batnaðar á þessu eina ári? Er honum betur trúandi nú en í fyrra? Það er skylda hv. þm. Str. að gera grein fyrir þessu.

Eins og jeg hefi sagt, er frv. alt ein endileysa. Það hefði aldrei átt að koma fram, og er þinginu algerlega ósamboðið, bæði að formi, efni og anda. Jeg neita, sem bóndi, fyrir hönd bændastjettarinnar, að taka við nokkrum ölmusugjöfum. Og jeg veit, að mikill hluti bænda mun fylgja mjer í því. Frv. á ekki skilið að fara til 2. umr., því að það tefur aðeins með því störf þingsins. Þess vegna legg jeg eindregið til, að frv. verði styttur aldur þegar í stað.