19.03.1927
Neðri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í C-deild Alþingistíðinda. (3062)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Björn Líndal:

Það er ekki í fyrsta skifti, sem háttv. þm. Str. ver sig með því, að hafa tekið þetta eða hitt upp eftir öðrum. En slík afsökun er altaf lítils virði og oftast einkis virði. Hann ætti þá að minsta kosti að hafa vit á því, að athuga, hvað það er, sem hann er að taka upp eftir öðrum. En þó að það kunni að hafa verið afsakanlegt í fyrra, þá er það alveg óafsakanlegt í ár, að flytja þetta frv. eins og það er úr garði gert. í fyrra var það alment ekki talið jafnmikið efamál og nú, að búnaðarfjelagið hafi haft einkasölu á Noregssaltpjetri. Þá var heldur ekki búið að víkja búnaðarmálastjóra frá, og þingið vissi ekkert, hvað var að gerast bak við tjöldin í búnaðarfjelaginu. Þáverandi búnaðarmálastjóri hafði og engu svarað og ekki gert neina grein fyrir aðstöðu sinni. En nú hefir hann gert það, og hann þvertekur fyrir, að búnaðarfjelagið hafi haft þetta einkasölumboð. Í fyrra mátti það vel takast að telja Alþingi trú um, að enginn verulegur ágreiningur væri um þetta, þar eð deilurnar höfðu þá ekki komið opinberlega í ljós. Þegar jeg greiddi atkv. gegn frv. á síðasta þingi, var það ekki af þeirri ástæðu, að jeg væri að væna háttv. landbn. þess, að hún færi með rangt mál. Hún gat þá tæplega nokkuð ákveðið um þetta vitað. Hún hefir nú heldur ekki leyft sjer að taka frv. upp aftur, eftir að henni varð kunnara, hvernig í því lá.

Þá sagði háttv. þm. Str., að 200 kr. frv. hefi verið samþ. á búnaðarþinginu. Það er ljeleg málsbót fyrir því, að gerast talsmaður einhverrar fjarstæðu, þótt einhver annar hafi orðið fyrri til þess að bera hana opinberlega fram. Það er altaf órækur vottur um fljótfærni og framhleypni að gera slíkt, án þess að athuga nokkuð, hvert verið er að fara. Það er engin málsbót, þótt smásálunum takist að fá menn á sitt mál eða þótt þm. gerist talsmaður einhvers, án þess að athuga nokkuð, hvað það er.

Háttv. þm. Str. spurði, af hvaða manna hálfu við töluðum. Þetta eru eftirtektarverð orð í munni þessa háttv. þm. Þau sýna það glögglega, að hann talar aldrei eða segir álit sitt á neinu máli, nema af hálfu eða fyrir munn annara manna, eða eftir því, sem þeim kemur best í það og það skiftið. Jeg vil vekja athygli þingsins á þessum orðum, því að þau eru afar eftirtektarverð. En jeg skal segja háttv. þm. (TrÞ) það, að jeg tala hjer, eins og endranær, af sjálfs mín sannfæringu, án þess að láta mig þar nokkru skifta, hvort öðrum líkar betur eða ver. Og jeg lýsi því yfir hjer í heyranda hljóði, að jeg tel þetta áburðarmál frá upphafi til enda eitt stórhneyksli. Jeg er ekki einn um þetta, heldur veit jeg, að jeg tala hjer jafnframt fyrir munn þúsunda bænda. Mál þetta og meðferð þess á búnaðarþinginu hefir vakið slíka athygli um land alt. Það er sárt, þegar annað eins hneyksli á sjer stað í jafngóðu fjelagi og Búnaðarfjelag Íslands ætti að vera, ef það væri í höndum góðra manna. Þetta fjelag fær stórfje úr ríkissjóði, sem það ráðstafar og ræður yfir að öllu leyti. Þm. eiga því að gæta betur að, hvað gerist í því fjelagi, heldur en í nokkru öðru fjelagi hjer á landi. Jeg tala hjer einungis af umhyggju fyrir búnaðarfjelaginu og hinum íslenska landbúnaði. Það bætir lítið úr þessu hneykslismáli, þótt látið sje heita svo, að sættir hafi komist á, enda virðast þær sættir einkum vera í því fólgnar að breiða sem vendilegast yfir hneykslið, og dylja það fyrir þingi og þjóð, hverjir eigi hjer mesta sök á. Hjer er í raun og veru um opinbera starfsmenn að ræða, sem einráðir mega heita yfir stórfje, sem ríkið leggur til og víðtækust áhrif getur haft á öll landbúnaðarmál. Leynisættir slíkra manna um mál, er jafnmikið varðar almenning og þetta mál, ganga hneyksli næst, því að þær geta verið sameiginlegt skálkaskjól, og enda oftast líklegast, að þær sjeu það og annað ekki.

Háttv. þm. gat um það í lok ræðu sinnar, að einkasöluumboðið mundi afhent bændafjelögunum. Hvaða fjelög eru það? Er ekki Búnaðarfjelag Íslands fyrst og fremst bændafjelag. Eða er hjer átt við Sambandið? Það hefir þó ekki hingað til verið neitt ákaflega sólgið í að fá einkasölu á þessum margumrædda áburði. Eða meinar háttv. þm. Mjólkurfjelag Reykjavíkur? Er því ætluð einkasalan? Þá kastaði nú fyrst tólfunum. Annars væri fróðlegt að fá að vita, hvað hv. þm. á við með orðinu bændafjelög.