19.03.1927
Neðri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í C-deild Alþingistíðinda. (3064)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Árni Jónsson:

Það er aðeins stutt athugasemd, þó ekki til þess að bera sakir af mjer, heldur af öðrum mönnum. Jeg vildi með nokkrum orðum skýra ummæli mín við fyrri meðferð þessa máls. Jeg talaði um það, að eins og framkvæmdarstjórn búnaðarfjelagsins væri nú skipuð, væri ekki hægt að treysta henni sem heild. Tveir aðilar hefðu ást þar við, annarsvegar stjórn Búnaðarfjelags Íslands, en hinsvegar Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri. Þar hefðu svo þungar sakir verið bornar á hvorn aðilann um sig af hinum aðilanum, að sá, sem öðrum treysti, gæti ekki treyst hinum.

Jeg ætla ekkert að draga úr þessum ummælum. En það er einn maður í stjórn Búnaðarfjelags Íslands, sem kosinn var á síðasta búnaðarþingi, og jeg tel mjer skylt að geta þess, að þessi ummæli snerta hann alls ekki, heldur aðeins þá tvo fulltrúa, sem áfram eru í stjórn fjelagsins, hv. þm. Str. og Magnús Þorláksson. Það er ennfremur óþarfi að geta þess, að þessi ummæli mín snerta hvorki búnaðarmálastjórann nýja, hr. Metúsalem Stefánsson, nje fráfarandi stjórnarnefndarmann, Vigfús Einarsson, heldur lúta ummælin að sambúð höfuðandstæðinganna í málinu í fyrra. Þar stendur fast það, sem jeg sagði, að sá, sem öðrum aðilanum treysti, gæti ekki treyst hinum.

Jeg veit ekki, hvort jeg má tala lengur, en jeg vil nú mega bæta nokkrum orðum við. Hv. þm. Str. segir, að sjer beri ekki að standa reikningsskil gerða sinna í búnaðarfjelaginu öðrum en flokksmönnum. Jeg vil leyfa mjer að benda hv. þm. á það, að hann var ekki kosinn í stjórn búnaðarfjelagsins aðeins af flokksmönnum sínum, heldur kusu hann einnig 2 menn úr Íhaldsflokknum. Og þegar hann segir, að hann hafi engar ákúrur fengið úr flokki sínum, þá má þó geta þess, að hann hefir fengið þungar ákúrur frá hv. þm. Barð., sem var annar Íhaldsmanna, sem kusu hann.

Hv. þm. gat þess, að hjer í þinginu væri ekki rjettur vettvangur þessa máls, en hann mundi gefa landbn. skýrslu um það, ef hún óskaði þess, en þess hefði ennþá ekki verið óskað. Hv. þm. leit þó svo á, er stjórn búnaðarfjelagsins samdi greinargerð sína síðastl. sumar, að það væri skylda hennar að bera hana undir landbn. þingsins, en gengur nú fram hjá nefndunum með þetta mál. Hv. þm. hjelt því fram í seinni ræðu sinni, að þeir, sem mótmælum hreyfðu í máli þessu, gerðu það ekki af góðum hvötum. Jeg minnist þess, að hv. þm. ljet í ljós um mig í umr. um daginn um þetta mál, að andstaða mín væri ekki sprottin af illum hvötum, heldur af umhyggju fyrir Búnaðarfjelagi Íslands, eða starfsemi þess. Jeg get því ekki tekið þessi síðari ummæli hans um hvatir andstæðinganna til mín, og óska, að hann taki þau aftur, hvað mig snertir. Jeg hefi lagt margar spurningar fyrir hv. þm. máli þessu viðvíkjandi, en hann hefir ekki svarað þeim. Jeg ætla mjer ekki að endurtaka þær spurningar, þar eð jeg hygg, að hann muni ekki frekar svara þeim nú. En jeg mun hafa mína skoðun á því, af hvaða hvötum hann vill ekki svara þeim. Þar sem hv. þm. talaði um það, af hverra hálfu vjer andmælendur töluðum, þá er ekki úr vegi að beina þeirri spurningu til hv. þm., af hverra hálfu hann telur sig hafa haft umboð til þess að jarða þetta mál. Hvort hann telur sig hafa haft umboð bænda til þess. Bændunum er skylt og rjett að fylgjast með í starfsemi Búnaðarfjelags Íslands; hv. þm. telur sig fulltrúa bænda og er því ekki nema eðlilegt að spyrja hann, hvort hann álíti betra frá sjónarmiði bænda, að fá málið rækilega skýrt, eða þaggað með slíkri sáttagerð sem þessari.

Að endingu vil jeg minna hv. þm. (TrÞ) á hið gamla og góða orðtæki, að það ríki, sem er sjálfu sjer sundurþykt, fær ekki staðist.