19.03.1927
Neðri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í C-deild Alþingistíðinda. (3066)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Jón Kjartansson:

Jeg leyfi mjer að mótmæla þeirri skoðun formanns Búnaðarfjelags Íslands — eins og málið horfir nú við — að það sje ekki rjettur vettvangur þess hjer á Alþingi. Ennfremur mótmæli jeg þeim getsökum hans, að illar hvatir liggi bak við andstöðu þingmanna gegn honum í þessu máli. Þessi stofnun, búnaðarfjelagið, snertir stærsta velferðarmál íslenskra bænda. Jeg vil minna formann búnaðarfjelagsins á það, að það standa miklu fleiri bændur að kosningu okkar andstæðinga hans í máli þessu en hans. Mikill meiri hluti bænda þessa lands er á okkar máli, og þeir krefjast þess, að málið verði rannsakað í botn. Ef það er ekki hægt, nema með því að ræða það hjer, þá verður það að gerast.

Jeg beindi þeirri spurningu á dögunum til formanns búnaðarfjelagsins og hæstv. atvrh., samkvæmt hvaða heimild ákveðið hefði verið að hafa tvo búnaðarmálastjóra. Það eru allir sammála um það, að lög Búnaðarfjelags Íslands geri ekki ráð fyrir nema einum búnaðarmálastjóra, en lögum fjelagsins verður ekki breytt nema samkvæmt 19. gr., sem hljóðar þannig — með leyfi hæstv. forseta:

„Lögum þessum má breyta á búnaðarþingi, en til þess þarf atkvæði að minsta kosti ¾ allra fulltrúa.“

Hv. þm. Str. viðurkendi, að lögum búnaðarfjelagsins hefði ekki verið breytt á búnaðarþinginu, en sagði, að fyrir breytingu þeirri, sem gerð var, hefði fengist nægur atkvæðafjöldi, eins og krafist er við lagabreytingu. Það má vel vera, að það sje rjett hjá hv. þm. En þó að svo hafi verið, þá er það alt annað en að breyta lögunum. Þetta sjest best á því, að ef næsta búnaðarþing vill breyta þessu atriði aftur, þá þarf ekki til þess atkv., heldur nægir til þess einfaldur meiri hl. Sýnir þetta ljóslega, að breytingin hefir ekki verið gerð samkvæmt lögum fjelagsins.

Jeg held þess vegna fram, að með þessari ráðstöfun hafi lög búnaðarfjelagsins verið brotin, og jeg held því ennfremur fram, að það hafi verið og sje skylda hæstv. ríkisstjórnar að leiðrjetta það.

Mjer kom mjög kynlega fyrir ágreiningur sá, er kom fram milli hæstv. ráðh. (MG) og formanns búnaðarfjelagsins um skilning á eðli búnaðarfjelagsins. En út í þann ágreining skal jeg ekki fara frekar að þessu sinni. Hinu verð jeg hiklaust að halda fram, að samkvæmt jarðræktarlögunum og öðrum lögum, er að búnaðarmálum lúta, þá er æðsta stjórn þessara mála í höndum atvm.- ráðuneytisins. Hæstv. atvrh. (MG) var því ekki einungis rjett, heldur skylt að koma í veg fyrir, að lög búnaðarfjelagsins væru brotin, eins og nú hefir orðið raunin á.

Það virtist einnig kenna nokkurs ósamræmis hjá hæstv. atvrh. og formanns búnaðarfjelagsins um kjör búnaðarmálastjóranna. Mjer skildist það á ákvörðun búnaðarþingsins, að báðir búnaðarmálastjórarnir eigi að búa við samskonar kjör og njóta samskonar rjettinda og þeirra, er búnaðarmálastjóri hafði áður, þ. e. hafa laun búnaðarmálastjóra, en ekki ráðunauta, eins og hæstv. atvrh. vildi halda fram. Tel jeg mikils um vert að leiðrjetta þetta, sem búnaðarþingið hefir rangt gert í máli þessu, því breytingin var ekki gerð til þess að bæta úr ágöllum á stjórnarfyrirkomulagi búnaðarfjelagsins, heldur til þess að dreifa framkvæmdavaldi þess. Hv. þm. (TrÞ) sagði, að ennþá væri ekki búið að skifta verkum með búnaðarmálastjórunum. En, af hverju kemur það? það hafa verið gerðar margar tilraunir til þess, en verkaskiftingin hefir til þessa verið þannig úr garði gerð frá stjórn Bfj. Ísl., að báðir búnaðarmálastjórarnir hafa neitað að hlíta. Þetta máttu menn vita fyrirfram, því að sáttagerðin var ekki gerð málefnisins vegna, heldur vegna mannanna. Verkaskiftingin varð því að fara fram eftir skoðun búnaðarmálastjóranna á áburðarmálinu, en ekki eftir þekkingu þeirra á einstökum búnaðarmálum. En það er augljóst, að slík verkaskifting er ekki holl fyrir viðgang og framtíð búnaðarfjelagsins. Það er því engin ástæða til að róma þessa sáttagerð búnaðarþingsins, því að ef hún verður til þess að sundra kröftum búnaðarfjelagsins, sem alt bendir á að hún muni gera, þá er ver farið en heima setið.

Jeg get vel skilið það, að þeir hv. þm., sem skoða Bfj. Ísl. sem pólitíska stofnun, vilji reyna að breiða yfir það, sem stjórnin hefir rangt gert í máli þessu. En jeg lít svo á, að Búnaðarfjelag Íslands sje stofnun, sem ráða eigi fram úr mestu velferðarmálum íslenskra bænda og því eigi fyrst og fremst að líta á það, hvað starfsemi fjelagsins á þessu sviði er fyrir bestu, en ekki á hitt, hvað einhverjum stjórnmálaflokki kæmi best.

Mjer þótti það alleinkennilegt, er fram kom í ræðu hv. 2. þm. Árn., að hann gaf í skyn, að Sigurður Sigurðsson væri ekki búnaðarmálastjóri áfram. Það er að vísu rjett, að Sigurður Sigurðsson er ekki ennþá orðinn búnaðarmálastjóri. En ef jeg skil rjett ályktun búnaðarþingsins, þá er það tilætlun þess, að hann verði búnaðarmálastjóri út á við og annist störf búnaðarmálastjóra, eins og þau eru ákveðin í lögum búnaðarfjelagsins, en ekki almenn skrifstofustörf. En þar sem búnaðarþingið hefir ákveðið, að Sigurður Sigurðsson skuli aftur gerður að búnaðarmálastjóra, þá hefir það með því viðurkent og sannað, að hann hafi verið hafður fyrir rangri sök, þegar honum var vikið frá stöðu sinni, vegna afskifta af svokölluðu „áburðarmáli“. En því má þá ekki almenningur vita sannleikann í þessu máli? Óttast menn, að hin pólitíska stjarna „fulltrúa flokkanna“ í búnaðarfjelagsstjórninni mundi lækka, ef sannleikurinn kæmi í ljós?

Mál þetta gefur Alþingi gott tækifæri til þess að breyta innan skamms tilhöguninni á búnaðarfjelaginu. Því að eins og þar hagar til nú, þá er alls engin trygging fyrir því, að hæfir menn skipi stjórn þess. Stjórnin getur alveg eins verið skipuð pólitískum loddurum. Þeim eru svo fengin hundruð þúsunda kr. í hendur til ráðstöfunar. Mjer skildist á núverandi form. Bfj. Ísl., hv. þm. Str., að hann skildi svo verksvið sitt í búnaðarfjel., að hann væri þar fulltrúi ákveðins stjórnmálaflokks. Sama skoðun kom einnig fram í ræðu hv. 2. þm. Árn. — Býst jeg nú ekki við, að þetta hafi verið ætlunin í upphafi, þó þessir hv. þm. vilji, að þannig verði það í framtíðinni. Sjá allir, í hvílíkt óefni er komið með þessi mál, þegar svona er ástatt.

Það hefir mikið verið um það rætt í seinni tíð, að stærsta málið, sem nú biði úrlausnar á landi hjer, sje viðreisn landbúnaðarins, og um það hafa allir þingflokkar verið sammála. En sje svo, að þetta sje rjett, þá er það mikilsvert, að ekki sje stigið víxlspor í þessari viðleitni. Jeg tel það ugglaust, að í framtíðinni verði það svo, eins og það hefir verið hingað til, að Búnaðarfjelag Íslands hafi aðalforustuna í þessu viðreisnarstarfi. En ef það á að fara að draga þá stofnun inn í pólitískan flokkadrátt, þá er jeg hræddur um, að minna verði úr viðreisninni en menn hafa gert sjer vonir um til þessa.

Jeg treysti því, að hæstv. atvrh. reyni að jafna mál búnaðarfjelagsins á þann veg, að allir megi vel við una, og þá fyrst og fremst á þann veg, að varna því, að lög fjelagsins verði brotin, og með því að stuðla að því, að komist verði til botns í „áburðarmálinu“, og fá öll gögn fram, er málið snerta, svo að öll kurl komi til grafar. Jeg treysti því, að formaður búnaðarfjelagsins játi, að þetta sje hin eina rjetta leið í málinu og að hjer sje rjettur vettvangur málsins. Jeg mun sætta mig við það, að hann láti landbn. fá gögn málsins í hendur.

En vegna þess, hve stórgallað frv. það er, sem hjer liggur fyrir, get jeg á engan hátt ljeð því mitt atkv. til fylgis, og mun því greiða atkv. á móti því nú þegar.