19.03.1927
Neðri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í C-deild Alþingistíðinda. (3068)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Halldór Stefánsson:

Það hefir nú verið nokkuð mikið rætt um þetta mál á við og dreif, þó minst hafi verið talað um frv. það, sem hjer liggur fyrir. Þetta hafa aðallega verið nokkurskonar eldhúsdagsumræður yfir stjórn Búnaðarfjelags Íslands annarsvegar, en hinsvegar hnútukast til landbn. Nd. í fyrra. Í umræðunum hefir komið fram óánægja yfir þeirri lausn áburðarmálsins á búnaðarþinginu, sem kunn er. Því hefir verið haldið fram af sumum, þar á meðal hv. 2. þm. N.-M., að þetta mál hafi verið svo stórt, að eðlilega hafi ekki verið hægt að leysa það á annan hátt en þann, að annaðhvort segði stjórn búnaðarfjelagsins af sjer, eða þá að fyrverandi búnaðarmálastjóri yrði að láta af starfa sínum. Gagnvart hv. 2. þm. N.-M. sjerstaklega vil jeg taka það fram, að hann hlýtur að muna, að sumum mönnum í landbn. í fyrra þótti þetta mál ekki svo stórvaxið, að þeim þætti ástæða til þess að breyta til um stjórn Bfj. Ísl. vegna þess, eða gera nokkrar ráðstafanir af löggjafarvaldsins hálfu. Kom þetta meðal annars fram í því, að sumir í landbn. tóku ekki þátt í tilnefningu stjórnarinnar. Þá hlýtur þessi hv. þm. að muna það, að formaður búnaðarfjelagsins hefir frá upphafi haft þá afstöðu í þessu máli, að málamiðlun gæti komið til greina, þótt hann teldi, að þáverandi búnaðarmálastjóri hefði brotið í einu atriði, þá viðurkendi hann altaf kosti hans að ýmsu leyti og taldi búnaðarfjelaginu eftirsjá að starfskröftum hans. Þessi afstaða form. Bfj. Ísl. var frá upphafi kunn — okkur landbn.-mönnum ekki síður en öðrum — og þarf því engum að koma á óvart málamiðlun frá hans hendi, og allra síst okkur, sem vorum í landbn. í fyrra. Enda er það sitt hvað, að verða eitthvað á í starfi sínu, og hitt, hverju það á að varða, hvort það á að varða stöðunni og engu öðru.

Gagnstætt þeim hv. þm., sem töldu þetta mál stórmál, talaði svo hv. 2. þm. Reykv. (MJ). Hann kallaði þetta mál „óvenjulega lítið viðskiftamál“. En óánægja hans lýsti sjer í því, að hann taldi fyrverandi búnaðarmálastjóra hafa orðið fyrir of þungum búsifjum og hann hafa fengið of litla uppreisn. Hann sagði, að þeir ómaklegu dómar, sem hann hefði orðið fyrir, hefðu byrjað með þessu makalausa nál. landbn. í fyrra, þar sem bornar hefðu verið á hann sakir og farið með dylgjur um hann. En það var einmitt af því, að þessar ásakanir á landbn., sem einnig hafa verið bornar fram í blöðum og flugritum, hafa verið endurteknar hjer enn á ný, að jeg fann ástæðu til þess að segja nokkur orð. Reyndar hefir hv. þm. Barð. hnekt þessum áburði í sinni ræðu, svo jeg get verið nokkuð stuttorður.

Jeg vil þá benda á það, að í áliti landbn. í fyrra var aðeins frásögn málavaxta, eins og stjórn búnaðarfjelagsins hafði skýrt nefndinni frá þeim. Nefndin sem slík hefir því engar sakir borið fram; hún hefir aðeins skýrt frá málavöxtum, eftir frásögu annars aðilans, og hún orðaði nál. af ásettu ráði svo, að þar var enginn dómur lagður á málavexti á milli aðila. Að frásögn nefndarinnar hafi verið rjett, staðfestist af opinberri skýrslu, sem stjórn búnaðarfjelagsins hefir gefið síðan. Af hálfu landbn. er því nál. ekki harðort, eins og sumir þm. hafa sagt. Ef það er harðort, þá eru það atvikin sjálf, sem eru harðorð; ef hjer er um dylgjur að ræða, þá eru atvikin sjálf dylgjur, ef hjer er um sakaráburð að ræða, þá eru það atvikin sjálf, sem eru sakaráburður. Hitt, sem hv. 2. þm. Reykv. (MJ) og aðrir hafa haldið fram, er misskilningur, sem stafar af því, að þeir skilja ekki mælt mál.

Þá sagði hv. 2. þm. Reykv., að landbn. hefði gert tillögu um skipun stjórnarinnar með það fyrir augum, að búnaðarmálastjóra yrði vikið frá. Þetta er einber misskilningur. Tilnefningin fór fram með það fyrir augum, að málið yrði leyst eins og málavextir væru til. Nefndin tók sjer ekkert dómsvald yfir aðilum.

Þá hefir verið sagt, að það væri því ólíklegra, að málamiðlun skyldi geta orðið sem þessir tveir aðilar hefðu borið sakir hvor á annan síðan í fyrra. Jeg veit ekki til, að stjórn búnaðarfjelagsins hafi borið hinn frávikna búnaðarmálastjóra neinum nýjum sökum frá því í fyrra. Skýrsla hennar í sumar var aðeins staðfesting þess, sem hún hafði borið fram við landbn. Það kann aftur á móti að vera, að hann hafi borið sakir á stjórn búnaðarfjelagsins í riti sínu um málið; því vil jeg ekki neita. Annars virðist mjer það vera frekar einkamál þessara aðila, hvort þeir geta orðið sáttir, eftir að hafa borið sakir hvor á annan, en það taka minna til annara. Fyrir hinum finst mjer það vera meira forvitnismál, að fá að vita eitthvað um þetta, eða þá óvildarmál til stjórnar búnaðarfjelagsins.

Þá vil jeg að lokum minnast á eitt atriði, sem hv. þm. Str. og hv. 2. þm. N.-M. o. fl. virtust vera sammála um, en það var, að í landbn. væri hinn rjetti vettvangur þessa máls. Jeg veit nú ekki, hvernig þessir háttv. þm. hafa hugsað sjer það, eða hvort þeir byggja það á sömu ástæðum hver um sig. Landbn. er ekki aðili og getur ekki verið aðili, nema með því eina móti, að stjórn búnaðarfjelagsins leggi niður umboð sitt. Það eitt gerir landbn. að rjettum vettvang. Afskifti landbn. af Búnaðarfjelagi Íslands eru ekki önnur en þau, að gera tillögur um tilnefningu tveggja manna í stjórnina. Hún mun neita því, eins og í fyrra, að blanda sjer inn í mál milli aðila í Búnaðarfjelagi Íslands. Annað mál er það, ef til kemur, að landbn. geri tillögur um stjórnarskipun, að þá mun hún gera þær eftir því sem henni þykja ástæður liggja til, eftir málavöxtum, svo að af því, hvernig tillaga hennar verður, mun mega nokkuð ráða dóm hennar á málinu.

Mjer þykir það vafasamt, hversu gott verk það er, að vera að reyna að spilla þeirri málamiðlun, sem orðin er. Það getur vitanlega vel orðið til þess, að leiða til sundrungar að nýju, og af því getur aldrei stafað neitt gott fyrir nokkurn mann. En þó er eins og þetta virðist vaka fyrir sumum mönnum.