23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í C-deild Alþingistíðinda. (3082)

95. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Flm. (Ingólfur Bjarnarson):

Eins og greinarg. þessa frv. ber með sjer, hafði sýslunefnd Suður-Þingeyjarsýslu síðastl. ár til athugunar og afgreiðslu, hvar brýnust væri þörf nýrra símalína um hjeraðið. Var það samkvæmt ákveðnum óskum hjeraðsbúa. Og í samræmi við ályktanir þær, sem um málið voru gerðar á sýslufundi, er þetta frv. borið fram.

Það er vitanlegt, að eftir því sem lengra kemst áleiðis að leggja aðalsímalínurnar um landið, líður nær þeim tíma, að hægt verði að leggja meiri áherslu á byggingu hinna smærri lína um hjeruðin. En þá er nauðsynlegt, að búið sje að athuga og ákveða, hvar þær eigi að liggja, svo að þær bæti úr brýnustu þörf hjeraðanna. Þetta er það undirbúningsverk, sem sýslunefnd S.-Þingeyjarsýslu vildi inna af höndum með tillögum sínum um línur innanhjeraðs. Og þó svo kunni að virðast sem þær sjeu nokkuð margar, get jeg fullyrt, að hjer sje gætt mjög hófs í kröfunum um þessar linur. Þó að þær verði lagðar, verður samt erfitt að ná til síma ýmsa tíma árs víðsvegar í hjeraðinu, því að það er mjög víðlent, en hinsvegar strjálbýlt og snjóþungt á vetrum. Gerir það samgöngur oft mjög torveldar. Þar sem svo hagar til, er hvað mest nauðsyn á, að greiða úr erfiðleikunum, sem skapast við þessar aðstæður, og gera mönnum ljettara að ná til síma, er mikið liggur við, svo sem, er ná þarf til læknis í lífsnauðsyn.

Annars vil jeg einnig nefna, að fjöldi skemtiferðamanna leggur oft leið sína um hjeraðið á sumrum og dvelur þar tímum saman. Fyrir þessa menn og einnig þá, er geta átt þeirra von á hverri stundu, er mjög þægilegt og nauðsynlegt að geta haft aðgang að síma.

Jeg veit ekki, hvort nauðsynlegt er við þessa umr. málsins að ræða nánar þörf hverrar þeirrar línu, sem hjer er farið fram á að ákveða. Geri jeg ráð fyrir, að starf og undirbúningur sýslunefndar megi teljast sæmilegur grundvöllur fyrir þessu frv. Og það verður svo verkefni hv. samgmn. — sem jeg vil leyfa mjer að óska, að málinu verði vísað til, að þessari umr. lokinni — að athuga hinar ýmsu símalínur nánar, og er jeg fús til að gefa henni þær upplýsingar í málinu, er hún kann að æskja; og einnig mun nefndin að sjálfsögðu leita umsagnar og álits landsímastjóra um málið. En jeg verð að afsaka, að það liggur ekki fyrir nú. Það stafar meðfram af veikindum og fráfalli hins nýlátna landsímastjóra.

Margar brtt. hafa komið fram við þetta frv., sem allar lúta að því, að bæta við fleiri símalínum. Skal jeg ekki gera þær að umtalsefni. Tel sjálfsagt, að þeirra sje full þörf.

Jeg tel svo ekki þurfa að fara um frv. fleiri orðum, en vænti, að það mæti velvilja deildarinnar og hv. samgmn. En í sambandi við þetta mál langar mig til að minnast þess, að einn hreppur sýslunnar, sem eins og stendur, er alverst settur um símasamband, er ekki nefndur í þessu frv. það er Flateyjarhreppur. En svo stendur á, að í núgildandi fjárlögum er ætlast til að bygðar verði loftskeytastöðvar í Grímsey og Flatey. Og þannig var þá búist við, að bætt væri úr þeim sambandsvandræðum, er eyjarskeggjar hafa átt og eiga við að búa og kreppir svo mjög að þeim, að nærri stappar, að óbyggilegt sje að verða á þessum stöðum. Þar er ekkert símasamband og samgöngur afar strjálar og óhægar. Þó er það víst, að báðar þessar eyjar verða að skoðast sem ágætis verstöðvar, og hvað Flatey að minsta kosti snertir, þá eru þar einnig ágæt ræktunarskilyrði fyrir hendi, aðeins ef möguleikar til framfara á þessum stöðum sköpuðust við bættar samgöngur og að fengnu símasambandi. En af því jeg hefi áður, oftar en einu sinni, haft tækifæri til þess að skýra þessi atriði fyrir hv. deild, vil jeg ekki fara frekar inn á það að þessu sinni. En nú er svo komið, að jeg get talið vafasamt, hvort þessar loftskeytastöðvar verða reistar í sumar, heldur muni það dragast, og máske þangað til suðurlandslínan er lögð. Þessa ályktun dreg jeg af ummælum landsímastjóra í tillögum sínum um bygging símalína 1928. Ef svo færi, eru það harðir kostir. Þessar loftskeytastöðvar hafa tvisvar verið settar í fjárlög, 1921 og 1927. Eyjarskeggjar hafa því beðið í voninni um, að senn mundi rætast úr símavandræðunum. Ef það dregst nú enn, held jeg mjer sje óhætt að segja, að þeim bregði í brún. Það er hart aðgöngu fyrir þá, og ekki allskostar sanngjarnleg meðferð, sem þeir verða að sæta í þessu efni. Hinsvegar hefir mjer heyrst á hæstv. atvrh., að hann telji ekkert fullráðið enn um þetta.

Mjer þætti því vænt um, að hæstv. ráðh. (MG) skýrði þetta mál og gæfi upplýsingar um, hvernig horfir við með bygging loftskeytastöðva þar nyrðra.

Skal jeg svo ekki að þessu sinni fara fleiri orðum um þetta mál, en óska, að því verði vísað til samgmn. og 2. umr., að loknum umr.