28.02.1927
Neðri deild: 17. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

48. mál, notkun bifreiða

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Bifreiðar eru nú orðnar aðalfarartækin hjer í nágrenni Reykjavíkur og um Suðurlandsláglendið. Á þessu svæði munu vera um 200 bifreiðar til mannflutninga og um 250 til vöruflutninga. Er auðsjeð, að í þessum vögnum liggur mikið fje, og er nauðsynlegt að það glatist ekki fyrir vanhirðu. En það hefir sýnt sig á síðari árum, að allmörg bifreiðarslys hafa orðið fyrir slæman frágang á vögnunum, bæði hjer í bæ og annarsstaðar. Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er fram borið með það fyrir augum að bæta úr þessu með betri og tíðari bifreiðaskoðun. Nú er þessi skoðun framkvæmd af lögreglustjóra og aðeins einu sinni á ári. Er hún jafnan auglýst með allmiklum fyrirvara. Það verður auðvitað til þess, að eigandi getur látið gera við bifreiðina áður en hún er skoðuð, en trassað viðgerðir á öllum öðrum tíma. í stað þessa þarf að fyrirskipa óvæntar skoðanir á bifreiðum öðru hverju. Að vísu er heimild til þess í gildandi lögum, en telja má ólíklegt, að því verði komið í framkvæmd, nema sjerstakir fastir menn sjeu skipaðir til þess.

Bifreiðastjórafjelag Íslands (ekki Bifreiðafjelag Íslands, eins og í þskj. stendur) hefir æskt þess, að sú breyting kæmist á, sem þetta frv. talar um. Nú eru víða um land komnar margar bifreiðar, annarsstaðar en hjer á suðvesturlandi, svo sem á Ísafirði, Vestmannaeyjum, Borgarfirði, Eyjafirði og víðar. Er því ráð fyrir gert í frv., að atvrh. megi skipa sjerstaka skoðunarmenn á þessum stöðum, þegar þurfa þykir.

Önnur ástæða fyrir því, að frv. er fram komið, er sú, að hvergi nærri allir menn, sem við bifreiðastjórn fást, eru til þess færir eða hafa til þess lögmælt skírteini. Hjer er ekki gengið nærri nógu hart eftir því, að ökuskírteini bifreiðastjóra sjeu í lagi, enda er það örðugt, meðan bifreiðaskoðun er svo fyrir komið sem nú er. En ef frv. verður samþykt, geta skoðunarmenn aðgætt ökuskírteinin um leið og þeir skoða hemla og stýri o. s. frv. Geta þeir þá gætt þess, að þeir, sem stýra mannflutningabifreiðum, hafi þau viðbótarskírteini, sem til þess þarf. En nú hefir ekki meira en einn fimti hluti þeirra, sem mannflutningabifreiðum stjórna, fengið þessi viðbótarskírteini, og hafa þeir því ekki fult próf.

Þá eru nokkur atriði, sem jeg vil beina til þeirrar hv. nefndar, sem frv. fær til meðferðar, að athuga, enda þótt þau sjeu ekki í frv.

Það væri eðlilegt, að lögleidd væru einhver fyrirmæli um að takmarka fjölda farþega, er bifreiðar mega flytja í einu. Þeir, sem oft hafa farið í bifreiðum utan Reykjavíkur, vita, að oft er í þær hlaðið meiru en góðu hófi gegnir. Hljóta allir að sjá, að fyrir þá sök er miklu hættara við slysum.

Auk þess væri mikil ástæða til að athuga, hvort ekki ætti að hækka ábyrgðartryggingu hverrar bifreiðar, og hvort ekki væri ástæða til þess að skyldutryggja bifreiðarnar sjálfar, því að það er bagalegt fyrir eiganda bifreiðar, ef slys ber að höndum, að þurfa að borga háar skaðabætur og bifreiðin ónýtist ef til vill þar á ofan.

Loks er athugandi, hvort ekki væri rjett að skipa fyrir um ákveðinn hvíldartíma handa bifreiðastjórum á hverjum sólarhring. Eftir gildandi lögum hefir atvrh. heimild til að setja einhverjar takmarkanir um þetta; en hann mun ekki hafa sjeð sjer það fært enn, og verður sjálfsagt eina ráðið að ákveða hvíldartímann í lögum. Nú er ástandið það, að bifreiðastjórar vinna 14 klst. á sólarhring á vetrum en 16 klst. um sumarmánuðina. Er þetta vitanlega alt of langur vinnutími, og það við vinnu, sem er mjög þreytandi og slítur taugunum.

Jeg vil aðeins benda á þessi atriði. Ef til vill getur hæstv. atvrh. (MG) gefið einhverjar upplýsingar um þessi efni, og vildi jeg gjarnan fá að heyra þær.

Vonast jeg til, að háttv. deild vísi þessu máli til 2. umr. og allshn.