05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í C-deild Alþingistíðinda. (3093)

96. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Pjetur Þórðarson):

Jeg býst við að breyta út af venju í þetta sinn og hafa dálítinn formála fyrir máli mínu. Annars er það orðin nokkuð almenn venja hjá hv. þm., jafnvel þó ekki sje um sjerlega merk mál að ræða.

Jeg tel sjálfsagt, að við sjeum allir sammála um það, að góð löggæsla og löghlýðni sjeu fyrstu og sjálfsögðustu skilyrðin fyrir góðu skipulagi og velferð hvers fjelags og sjerhverrar stofnunar. Þessi skilyrði verða alstaðar að vera fyrir hendi, og beri út af leið í þessu efni, má búast við, að svo fari, hvert heldur sem um eitthvert fjelag eða einhverja stofnun er að ræða, að það, hvort í sínu lagi, missi smámsaman virðingu fyrir sjálfu sjer.

Jeg vil leyfa mjer að telja okkur alla sammála um það, að síst megi þessara skilyrða án vera á löggjafarþingi þjóðarinnar, í þeirri stofnun, sem hefir það háleita hlutverk með höndum að skipa lögum fyrir þjóðfjelagið og fyrir allar hinar smærri fjelagseiningar innan takmarka heildarinnar, stofnun, sem hefir vald til og á að vera ein út af fyrir sig fullnægjandi til þess að sníða löggjafarstakkinn eftir vexti þjóðarinnar, einstaklinganna og hinna smærri fjelagseininga innan sinna takmarka. Með þessum formála vil jeg þá leyfa mjer að drepa á það, hverju fram hefir farið um löghlýði og löggæslu á hinu háa Alþingi á síðari árum, þeim árunum, sem jeg þekki best til.

Jeg tel sönnu næst, að nokkur skortur hafi verið á fullri löghlýðni af hálfu okkar þingmanna, en þó held jeg, að það, sem á hefir skort, megi frekar teljast fyrirgefanlegar breyskleikasyndir en lagabrot. Jeg skal sjerstaklega minnast á það, sem mjer hefir fundist mest bera á og ekki verður talið í samræmi við góðar fundareglur, eða skipulag, sem allir mundu hafa helst kosið. Nokkuð oft kemur fyrir á þingfundum, að fleiri en einn þingmaður tali í senn. Það getur nú verið álitamál, eða um það skiftar skoðanir, hvort hjer er um nokkurt brot á almennu velsæmi að ræða, og ekkert er bannað um það í þingsköpunum, að 4 til 6 eða jafnvel fleiri þm. tali í einu. En hitt er líka vitanlegt, að þegar slíkt kemur fyrir, og af því, hve oft það kemur fyrir, þá hlýtur það að stafa af einhverri innri ómótstæðilegri nauðsyn til að tala. Ósjálfrátt og án þess að aðgæta, hvernig á stendur að öðru leyti, virðast þm. knúðir til að tala, jafnvel hver í kapp við annan. Jeg vil ekki fullyrða, hvort þetta brýtur í bág við almennar fundareglur. Jeg veit ekki, hve mikið aðrir vilja gera úr þessu, enda eru því engin bein takmörk sett í þingsköpunum. Sama er að segja um það, þegar mikil brögð eru að því, að tekið er fram í fyrir þm., sem heldur ræðu og fengið hefir leyfi forseta til að tala. Þetta — sem ekki er sjaldgæft — hlýtur að stafa af einhverri nauðsyn, sem þm. finst ómögulegt að komast hjá að fullnægja þegar í stað, og vera má, að þess vegna sje þetta ekki bannað í þingsköpunum. Mjer dettur líka í hug, að nefna ráp þm. milli deilda, meðan á fundum stendur í báðum deildum. Verið getur, að það sje beinlínis nauðsynlegt fyrir þm. að halda sig í þeirri deild, sem þeir eiga ekki sæti í, og því sje þetta ekki alment talið neitt brot á þinglegu velsæmi. Þótt svo kynni að vera, að einhverjir hv. þm. væru mjer samdóma um, að betur færi á því, að þessu, sem jeg hefi drepið á, væri hagað nokkuð öðruvísi, þá hefi jeg ekki álitið svo mikla nauðsyn að breyta til í þessu efni, að jeg hafi komið fram með brtt. hjer að lútandi. Sama máli er að gegna um það, þegar þm. eru fjarstaddir, er atkvgr. fara fram. Í þingsköpunum eru viðurlög við slíku, þ. e. missir dagpeninga. Þetta hefir þó sjaldan reynst verða bagalegt, því að engum þm. veit jeg til, að hegnt hafi verið á þennan hátt, enda dettur víst engum þm. í hug að vera fjarstaddur atkvgr., nema brýn nauðsyn beri til. Sjálfsagt getur það talist eðlilegt, þótt slíkt hafi samt oft komið fyrir, en líklega verður það aldrei talið sem ólöghlýðni á Alþingi.

Jeg hirði svo ekki að nefna fleiri dæmi um misfellur á góðri þinghegðun, sem koma fyrir, bæði hjá mjer og öðrum þm., og í fljótu bragði virðast stríða á móti anda þingskapanna. Í þessu frv., sem jeg hefi hjer borið fram, er ekki heldur farið fram á neinar breytingar í þessu efni. Því þegar vel er að gáð, þá þykist jeg vita, að einhver nauðsyn liggi á bak við þetta alt saman, og því beri ekki að skoða það sem ólöghlýðni. Hinsvegar má líka minnast þess, að hafi þetta gengið of langt, of nærri velsæmisreglum þingsins í þessu efni, þá hefir löggæsla forsetanna tekið í taumana.

Jeg kem þá að aðalatriðinu. frv. á þskj. 216, sem fer fram á breytingar á þingsköpunum. Þar er farið fram á að breyta takmörkunum, sem þingsköpin setja fyrir því, hve oft þingmenn taki til máls í hverju máli, eða leyfa það oftar en þar er ákveðið. Mjer virðist það mjög oft koma fyrir, að þm. telji sig nauðbeygða til að kveðja sjer hljóðs oftar en þingsköp heimila. Og þótt engin heimild sje til þess í þingsköpunum, að þm. tali oftar en tvisvar og framsögumenn oftar en þrisvar, þá man jeg ekki eftir neinu dæmi um það, að forseti hafi meinað þingmönnum að taka oftar til máls, hafi þeir beðið um það. Vitanlega kemur þetta til af því, að forseti hefir sjeð nauðsyn á að leyfa þetta. Annars segir forseti venjulega, að þingmanninum sje leyfilegt að gera stutta athugasemd, þegar svona stendur á, en það er engin heimild gefin til þess í þingsköpunum, að þingmaður megi gera almenna nje stutta athugasemd um þingmál, aðeins er þar leyft að gera stutta aths. til þess að bera af sjer sakir, um þingsköp eða atkvæðagreiðslu. Jeg held, að óþarft sje að telja fram dæmi um þetta. Það er alkunnugt, að þessar undanþágur eða þessi undanfærsla frá skýlausum ákvæðum þingskapanna er oft veitt og er orðin mjög almenn. Og annað getur ekki legið til grundvallar þessari undanþágu en það, að hennar er þörf og að brýn nauðsyn beri til þess. En þegar þingið hefir sjálft vald til að, sníða lögin eftir þörfinni, jafnt þingsköpin sem önnur lög, þá ætti að losa forsetana við þau óþægindi, að vera að neyðast til að víkja frá ákvæðum þingskapanna, m. ö. o. vegna nauðsynjarinnar á því, að breyta þessu banni þingskapanna. Það hlýtur að vera þægilegt fyrir þá, sem þurfa að tala 3–4 sinnum eða oftar í sama máli, og líka fyrir forsetana, að þessu ákvæði væri breytt; það er ekki langrar stundar verk, en mundi ljetta miklu oki af forsetunum. Hinsvegar get jeg ekki neitað því, að stundum hefir mjer virst, sem hjer væri ekki um beina nauðsyn að ræða. En vegna þeirrar venju, sem á er komin í þessu efni, hefi jeg smámsaman horfið lengra og lengra frá þeirri hugsun og til hins, að hjer sje um brýna nauðsyn að ræða, og að þingsköpunum þurfi að breyta eftir henni.

Að þessu sinni fer jeg þá ekki lengra út í einstök atriði þessa máls. Það væri sjálfsagt hægt að færa miklu skýrari rök fyrir þessu máli, heldur en mjer hefir nú tekist að gera. Jeg skal aðeins bæta því við, að jeg vildi ekki að svo stöddu fara lengra en að bæta aðeins einni aðalræðu við hjá hverjum þingmanni, sem í hlut á í hvert skifti. Jeg geng út frá því, að það sje ekki venja þingmanna að kveðja sjer hljóðs, nema af knýjandi þörf, en þegar þörfin er meiri en svo, að þetta dugi ekki, þá megi grípa til athugasemda, samkv. frv. Jeg tel sjálfsagt, að þeir verði að fá að tala 4–5 sinnum, eða eftir því sem þeir telja sig þurfa á að halda. Það má ætíð búast við, að endurtekning þess, sem þingmaðurinn hefir áður sagt, geti haft sín áhrif.

Sje eitthvað það í frv., sem þarf að lagfæra, þá vona jeg, að hv. þdm. bendi mjer á það. Jeg tek því með þökkum, ef einhver hv. þdm. vildi benda á eitthvað til viðbótar, sem breyta þyrfti eða betur mætti fara. Jeg tel óhjákvæmilegt að breyta þessum ákvæðum þingskapanna, og annaðhvort verði að stöðva aukaræðuhöld eða samþ. frv. Málið er ofur einfalt, og auðvitað mætti útkljá það án þess að það færi í nefnd. En það er fátt of vandlega hugað. Vil jeg því leyfa mjer að leggja til, að því verði vísað til allshn.umr. lokinni.

Það mundi gleðja mig, að heyra álit hv. þm. á máli þessu, jafnvel á hvern veg sem það fjelli, því að þótt jeg hafi verið svo djarfur að koma hjer fram með gott og þarflegt málefni, að minni hyggju. Þá má vera, að öðrum lítist annað. Jeg teldi mjer það mikla sæmd, að heyra góðar undirtektir hv. þm. um þetta mál.