23.02.1927
Efri deild: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í C-deild Alþingistíðinda. (3114)

35. mál, einkasala á saltfisk

Flm. (Jón Baldvinsson):

Undanfarin ár hefi jeg borið þetta frv. fram í Nd., en það hefir ekki náð samþykki þeirrar deildar. Samhliða hefir verið flutt frv. um einkasölu á síld, en því hefir verið tekið betur. Atvinnurekendur þeir, sem fastast hafa staðið á móti einkasölu, hafa þar komið á með sjer sölusamlagi, en það er þó langt frá því, að það sje eins trygt og ríkiseinkasala. Fyrirkomulagi saltfisksölunnar hefir að allra dómi verið mjög ábótavant, þótt það sje auðvitað afarmikilsvert fyrir fjárhag landsins, að sala aðalútflutningsvörunnar takist sem best. Það hafa verið hinir stærri atvinnurekendur, sem hafa beitt sjer á móti einkasölu, en hinir smærri verið henni fylgjandi. Enda var sá hluti útvegsmanna ánægður yfir einkasölu ríkisins á stríðsárunum, en hinum stærri líkaði miður, því að þeir þykjast fremur hafa líkurnar fyrir því, að græða, þegar vel gengur, en vilja hinsvegar taka á sig áhættuna, ef illa fer. Því er ekki að leyna, að hingað til hefir saltfisksölunni verið hagað þannig, að mikil áhætta hefir verið henni samfara. Einstök firmu kaupa og selja meginhluta fiskjarins, og þau tefla á fremsta hlunn til þess að fá sem hæst verðs fyrir hann, og geyma hann því oft svo lengi, að hrun verður, ef verðfall kemur. Dæmi þessa eru deginum ljósari. Má í þessu sambandi nefna fiskhringinn gamla, og líkt hefir farið fyrir ýmsum öðrum. En það er ekki nóg með það, að slík mistök bitni á þessum mönnum einum eða fjelagsskap þeirra; þau bitna líka á öðrum framleiðendum, svo og á lánsstofnunum landsins. Þau bitna á atvinnuvegunum yfirleitt og þjóðinni í heild sinni. Bankarnir tapa miljónum, og verða svo að vinna tapið upp með hærri vöxtum.

Ein af mestu misfellunum við söluna er það, að útflytjendurnir hafa kept hver við annan um að koma vörunum út á erlendum markaði. Svo er og hitt, að stundum hefir varan verið sett í umboðssölu til Spánar og Ítalíu og þar lendir menn látnir selja hana. En það hefir þýtt það, að þeir, sem vöruna fengu í umboðssölu, hafa haft töglin og hagldirnar og ráðið verðlaginu. Þetta hefir orðið til þess, að varan hefir oft stórlækkað í verði.

Þó stórútgerðarmenn hafi verið mótfallnir ríkiseinkasölu, hafa þeir þó sjeð, að samtök eru nauðsynleg. Árið 1923 gerðu þeir tilraun til samtaka og vildu fá lögvernd ríkisstjórnarinnar, en þá, reyndist það svo, að samtökin voru ekki svo sterk, að ríkisstjórnin treystist til, þess að styðja þau. Síðastliðið ár hafa aftur verið mynduð samtök, og eru í þeim samtökum flestir stærri fiskútflytjendur, en þó eru nokkrir utan við. Jeg ætla nú, að þessir menn sjái, að ekki verður komið góðu skipulagi á saltfisksöluna, nema með lögum. En þeir vilja bara ekki brjóta „princip“ sitt um svokallaða „frjálsa verslun“ og „frjálsa samkepni“. Kostum einkasölunnar hefir aldrei verið andmælt með rökum af mótstöðumönnum hennar, enda er það skiljanlegt, ef varan er á einni hendi, þá er hægt að haga framboðinu þannig, að verðsveiflur koma ekki fyrir, vegna of mikils framboðs á vörunni; vitanlega má heldur ekki skrúfa verðið upp um of; það hefnir sín æfinlega.

Einn af kostum þessa frv. er sá, að í því er gert ráð fyrir að verja fje til þess að útvega nýja markaði. Við erum nú svo þrælbundnir við eitt land, Spán, að það hefir verið álitið, að við þyrftum að taka tillit til krafna þess lands í lagasetningu vorri. Við erum þá líka bundnir að nokkru við verðlag þess lands á fiskframleiðslunni. Frv. þetta fer fram á, að nokkur hluti af andvirði fiskjarins gangi til þess að útvega nýja markaði. Jeg vil ekki segja, að útgerðarmenn hafi ekkert gert til þess að leita nýrra fiskmarkaða, en það hefir furðu lítið borið á tilraunum þeirra í þá átt. Á góðu árunum, þegar verðið hefir verið hátt, þá hafa þeir verið ánægðir með markaðinn, en á vondu árunum hafa þeir verið „blankir“ og ekki haft fje til markaðsleita. Sú tilraun í þessu efni, sem mest hefir borið á, er för Pjeturs Ólafssonar til Suður-Ameríku, enda var sú för kostuð af ríkinu. Frá þessum manni hafa komið ýmsar bendingar, en mjer er ekki kunnugt, að farið hafi verið eftir þeim, enda slíkt ekki hægt nema með talsverðum kostnaði við fyrstu tilraunir. En sá fjárstuðningur, er með þarf, fengist með fyrirkomulagi því, sem felst í þessu frv.

Þá höfum við umboðsmann í Miðjarðarhafslöndunum, sem kostaður er að 1/3 af ríkinu, en 2/3 af bönkunum. Það eru nú misjafnir dómar um gagnsemi slíks umboðsmanns, en það er þó ríkið, sem kostar þá, en ekki útgerðarmenn.

Þar sem er viðurkent, að þjóðinni í heild er það fyrir miklu, að þessum málum sje skipað á skynsamlegan hátt, svo komist verði hjá tjóni því og hruni, sem dunið hefir yfir á síðastliðnum árum, vegna mistaka á fisksölunni, þá álít jeg ekkert áhorfsmál, að ríkið taki slíka verslun sem þessa að sjer. Það er örugt, að hægt er að fá nóg af hæfum og trúverðugum mönnum til þess að standa fyrir slíku fyrirtæki.

Að þessu sinni skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um málið, en vona, að hv. deild vísi því til 2. umr. og hv. sjútvn.