23.02.1927
Efri deild: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í C-deild Alþingistíðinda. (3117)

35. mál, einkasala á saltfisk

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg hjelt sannast að segja ekki, að hv. þm. Vestm. mundi standa upp og þruma af svona miklum móð á móti þessu frv., eins og hann hefir gert. Hann var talsvert harðorður í sinni ræðu, og að óþörfu, fanst mjer; því að jeg hafði ekki gefið ástæðu til þess með neinum af mínum ummælum, að hv. þm. þyrfti að bregða á þennan tón. En hann vill sýnilega ræða þetta mál meira með hálfgerðu karpi og köpuryrðum, heldur en ræða rökin með og móti. Hv. þm. reyndi tvisvar eða þrisvar að koma með útúrsnúninga úr mínum orðum, alveg að óþörfu. Og slíka hluti gera menn ekki í umræðum, nema því aðeins, að þeir hafi það á tilfinningunni, að þeirra málstaður sje veill. Sannast að segja hefi jeg sjaldan heyrt slíkt til þessa hv. þm.; svo að jeg dreg þá ályktun af hans ummælum, að rök mín fyrir þessu frv. hafi verið talsvert mikilvæg. Hv. þm. byrjaði með játningu um það, að miklum erfiðleikum væri rutt úr vegi, ef þessar staðhæfingar mínar væru á rökum bygðar. Jeg var nú, að jeg hjelt, ekki með neinar staðhæfingar; jeg var með mitt álit — og með líkurnar og rökin fyrir því, hvernig mundi takast, ef leið sú yrði farin, sem frv. bendir til.

Hv. þm. sneri út úr, þegar hann sagði, að jeg þættist tala hjer fyrir munn smærri útgerðarmanna. Þetta sagði jeg aldrei. Jeg lýsti að vísu í minni framsöguræðu afstöðu útgerðarinnar til einkasölumálsins og sagði, að stærri útgerðarmenn hefðu lagst á móti, en margir þeir smærri lýst sig því máli fylgjandi. En þetta er ekki það sama og að jeg sje samkvæmt áskorun frá fjelagsskap smærri útgerðarmanna að bera þetta frv. fram. Því aðeins væri hægt að segja, að jeg talaði fyrir munn þeirra, ef jeg ræki þannig þeirra erindi. En það vita allir hv. þm., að þó nokkuð af smærri útgerðarmönnum álíta einkasöluna heppilega fyrir ríkið.

Hv. þm. mótmælti, að það sje þjóðarvilji, sem liggur hjer á bak við. Það má lengi um það deila og verður kanske ekki sannað á hvorugan veginn, fyr en gengið er til þjóðaratkvæðis um málið.

Hv. þm. var líka að tala um gönuskeið. Finst mjer óþarfi af honum að vera að nota slík stóryrði upp úr þurru. Var það þá ekki gönuskeið hjá hv. þm. í fyrra, þegar hann var að „trompa“ í gegn síldinni og snerist í málinu einu sinni eða tvisvar á tveim til þrem dögum, áður en hann lagði með frv. í deildinni. (JJós: Hvar eru sannanirnar fyrir því?). Jeg leyfi mjer að koma með staðhæfingar og fylgi fordæmi hv. þm. sjálfs í því efni. Svo ætla jeg aðeins að vitna til samvisku hv. þm.; jeg veit hún talar í þessu máli.

Við og við játaði hv. þm., gegnum sína ræðu, mistökin á sölu saltfisksins undanfarið. Hann játaði tapið — hið stórkostlega tap, á sölu saltfisksins undanfarin ár. En ef á einhverjum atvinnuvegi eru stórfeldar misfellur, þá sje jeg ekki annað en að það sje skylda löggjafarvaldsins að leitast við að laga þær misfellur, ef það stendur í valdi þess, — og því meiri skylda sem atvinnuvegurinn er stærri.

Þá sagði hv. þm., að hringur útgerðarmanna mætti mótþróa erlendis, og hann gerði ráð fyrir, að einkasalan mætti meiri mótþróa. Þetta er sá höfuðmisskilningur, sem kom fram í síldarmálinu og víðar. Hringur einstakra manna mætir eðlilega meiri mótspyrnu en samtök heillar þjóðar. Spánverjar gætu frekar þolað, að allir landsmenn væru í einu samtaka um fiskverslunina, en gætu illa þolað, að örfáir stórir fiskútflyjendur væru að „spekúlera“ í að reyna að fá miklu hærra verð fyrir fiskinn heldur en smærri útgerðarmennirnir, sem þó afla meiri hluta fiskjarins. En þetta er það, sem hlýtur að verða með hringmyndun útgerðarmanna, því að þeir losa sig við þá smærri.

Ennfremur talaði hv. þm. um, að jeg hefði borið útgerðarmönnum svik á brýn. Þetta er ekki rjett. (JJós: Útflytjendum, en ekki útgerðarmönnum). Mjer datt heldur ekki á neinn hátt í hug að bera útflytjendum nein svik á brýn. En jeg sagði, að útgerðarmenn og útflytjendur, hinir smærri, hefðu tapað á þessu, hvernig „spekúlerað“ væri með framleiðsluna. En úr því að þessi hugsun er svona ofarlega í hv. þm., þá lítur út fyrir, að hann viti, að svik hafi átt sjer stað.

Setjum nú svo, að smærri útgerðarmenn sjeu að selja hv. þm. Vestm. eða 2. þm. G.-K., sem báðir eru stórir fiskverslunarmenn, og fái sína borgun, en svo treysti þessir herrar á bankana og sitji á fiskframleiðslunni. Þeir ætla að bíða svo sem þrjá mánuði, í því trausti, að skippundið hækki um 10–20 krónur. Þá kemur það fyrir, að útreikningurinn bregst og fiskurinn fellur. Að vísu tapa þeir sjálfir. En sjá ekki allir, að þessi „spekulation“ hefir bitnað á smærri útgerðarmönnum, þannig, að á næsta framleiðslutímabili fá þeir skellinn, í lækkuðu fiskverði, vegna „spekulationa“ útflytjendanna. Það er þetta, sem jeg átti við, þegar jeg talaði um það, sem bitnaði á smærri fiskframleiðendum. Þetta er svo augljóst, að hvert barn skilur það; hv. þm. Vestm. skilur það líka, ef hann vill skilja á annað borð.

Hv. þm. vildi fara þá leið að læra af reynslu þeirri, sem menn vænta af þeim samtökum útgerðarmanna, sem nú er stofnað til. Sannleikurinn er sá, að það er ekki nema nokkur hluti útgerðarmanna í þessum samtökum. Og það er sagt, að þeim, sem eru í samtökunum, hafi gengið miklu ver að selja, af því að nokkrir eru fyrir utan, og þeir ekki láir. Þetta bendir einmitt til þess, að nauðsyn sje að lögþvinga menn til þess að vera í einum fjelagsskap um söluna.

Hv. þm. gat náttúrlega djarft úr flokki talað um þekkingu á sjávarútvegi og fiskverslun, því að mikið hefir hann við það fengist. Og vitanlega getur hann í trausti þessarar visku sinnar borið mjer á brýn, að mig vanti öll skilyrði til að sanna, að þetta fyrirkomulag, sem jeg sting upp á, sje gott — sem á að þýða það, að jeg hafi ekki vit á fiskverslun, og hafi því ekki leyfi til að tala í þessu máli. Það vill nú svo til, að hv. þm. Vestm. hefir ekki vald til þess að fyrirskipa, hvað menn megi flytja á þingi. (JJós: Hv. þm. er að tala um eitthvað, sem jeg hefi aldrei sagt!). Mjer þykir vant um, ef hv. þm. vill taka þetta aftur. (JJós: Jeg þarf ekkert að taka aftur). Hv. þm. sagði, að flutningsmann vantaði skilyrði til að sanna, að þetta fyrirkomulag væri gott. Þetta er ekki hægt að skilja nema á einn veg, sem sje, að þm. álíti, að jeg hafi enga þekkingu til þess að dæma um þessa hluti, af því að jeg hefi ekki fengist við saltfiskssölu. En jafnvel þótt leikmenn sjeu, geta þeir sagt sitt álit og bent á galla á einu og öðru fyrirkomulagi — og gallarnir á fisksölufyrirkomulaginu leyna sjer ekki. — Jeg gæti náttúrlega svarað í sama tón, þegar hann segir, að jeg hafi ekki sannað kosti einkasölunnar, og sagt, að hann hafi heldur ekki sannað kosti frjálsrar verslunar.

Hann játaði sjálfur, að alt væri í vandræðum hjá þeim með fiskverslunina. Hann gat líka heyrt það, sem jeg sagði í fyrstu, og er mikill kostur á einkasölunni, að það er hægt að miðla framboðinu, ef alt er á einni hendi. Það er hægt að láta hæfilega mikið af fiski til markaðslandanna, svo að ekki safnist fyrir og komi sveiflum á verðlagið, sem altaf eru til bölvunar. Það er hægt að koma í veg fyrir það, sem sagt er að spilli mest fyrir sölunni á Ítalíu og Spáni, að fiskurinn sje seldur í umboðssölu, þar sem umbjóðandi getur í raun og veru látið hann fyrir hvaða verð sem honum sýnist. Og með einkasölunni er lagt fram fje, sem nota á til þess að efla markað fyrir fisk.

Þetta eru alt saman kostir, sem jeg álít vert að taka til athugunar og sjeu fullkomin rök í málinu.

Þá er að víkja að samtökum útgerðarmanna og reynslunni af þeim. Hv. þm. veit vel, að þótt reynd væru samtök 1923, þá fór alt í hundana. Hann veit líka, að útgerðarmenn fengu — meðal annars fyrir hans tilstilli — lögvernd á síldarsölufjelagsskap; og hann veit, að útgerðarmenn og stjórnin gugnuðu við að koma því í framkvæmd.

Jeg hefi fært fram margvísleg rök fyrir því, að ríkiseinkasalan muni hafa marga kosti og verða betri en það fyrirkomulag, seni við nú búum við og öllum kemur saman um, að sje vont.

Svo fór hv. þm. að verða drýldinn í lok ræðu sinnar, og ætlaði að höggva stórt. Hann spurði: Hvaða tryggingu ætlar þingmaðurinn að setja fyrir því, að fyrirkomulagið reynist vel? Mig langar þá til að spyrja hann sem útvegsmann: Hvaða tryggingu setur hann fyrir því, að hann fari vel með fisksöluumboð sitt? Þegar hv. þm. leggur fram þessa tryggingu sína og sinna stjettarbræðra, þá skal jeg koma með þær tryggingar, sem jeg hefi upp á að bjóða. Jeg skil ekki, hvað hv. þm. meinar með þessu; hygg það sje helst sagt út í loftið, vegna rökþrota. Nei, þeir háttvirtu fiskútflytjendur geta ekki heimtað tryggingu af þeim, sem stinga upp á nýju fyrirkomulagi. Miklu fremur ætti að draga þá til reikningsskapar fyrir meðferðina á fisksölunni á undanförnum árum. Það er ekkert leyndarmál, að margir fisksölumenn hafa hagað sjer þannig, að þeir hafa skaðað landsmenn um margar miljónir króna. Jeg hefi ekki minst á þessa útlendu fisksölumenn; en þeir hafa hagað sjer svipað og þeir innlendu. Mistök hafa orðið hjá báðum, hjá báðum „spekulation“ og miljónatöp, og afleiðingarnar hafa orðið svipaðar af verkum þeirra beggja.

Hv. 1. landsk. vill ekki fallast á það fyrirkomulag, sem í frv. er stungið upp á. Hann er með sína samvinnu í svipaða átt og síldarsamlagið og samvinna bænda um sölu á kjöti. En jeg er hræddur um, að þessi samvinna mundi nú ekki blessast, mundi ekki verða gerð af frjálsum vilja. Og ef einhver samtök yrðu, þá mundu það verða örfáir menn, sem gætu mestu ráðið, en hinir smærri yrðu svo útundan.

Jeg er ekki eins hræddur eins og hv. 1. landsk. um það, að stjórnin, sem fengi slíkt fyrirkomulag til framkvæmda, mundi gera sitt til að eyðileggja það, með því að skipa þá menn til að stjórna því, sem vildu það feigt. Jeg trúi því ekki, að nokkur stjórn mundi haga sjer þannig, því það væri hreint og beint glæpsamlegt, ef slíkt væri gert vísvitandi. Reynslan hefir sýnt, að hæfir menn hafa fengist til að stjórna verslunarfyrirtækjum landsins. og því er engin ástæða til að vantreysta því, að enn geti fengist hæfir menn til slíkra starfa.