23.02.1927
Efri deild: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í C-deild Alþingistíðinda. (3118)

35. mál, einkasala á saltfisk

Jóhann Jósefsson:

Jeg vil ekki hræða hv. 5. landsk. með því að vera of hávær. Skal jeg því reyna að tala í eins mildum tón og mjer þykir líklegt að hv. þm. geti felt sig við. En það verð jeg að segja honum, að jeg reyndi alls ekki að snúa út úr orðum hans. Ef um væri að ræða einhverja samkepni okkar á milli í útúrsnúningum, yrði jeg að játa, að þar lægi jeg undir. Þeir, sem eyru hafa og heyra vilja í hv. deild, hafa getað heyrt, hvernig hann sneri út úr orðum mínum. (JB: Þú ert það sjálfur! segja strákarnir). Jeg tek þetta svo, að hann hafi ekki kært sig um að fara lengra út í málið.

Það er einkennilegt um þá báða, hv. 1. landsk. og hv. 5. landsk., að við hvorugan er hægt að tala um mál, nema draga ýmsa menn inn í umræðurnar. Þeir drógu mig báðir inn í þetta fisksölunál, en það er sannast að segja, að jeg stend þar ekki svo framarlega, að til þess væri nokkur ástæða. Það bendir á andlegan skyldleika með þessum tveim hv. þm., að báðum skuli vera þetta jafntamt.

Jeg skal fyrst koma að síldar-einkasölufrv. frá í fyrra. Jeg leiði hjá mjer að eyða orðum að hringsnúningsstaðhæfingu hv. 5. landsk. Jeg var með því, að stjórninni væri veitt heimild til að gefa ákveðnum mönnum einkaleyfi á síldarsölu. Rök mín fyrir þeirri skoðun eru skráð í þingtíðindunum frá í fyrra, og jeg sje ekki ástæðu til að endurtaka þau. En þar lá til grundvallar alt annað ástand en hjer er um að ræða. Þá var verið að útiloka leppmensku fyrir útlendinga, sem hafði skaðleg áhrif á síldarsöluna. Hjer er engu slíku til að dreifa.

Þá þótti hv. þm. (JBald) hlaupa á snærið hjá sjer, að jeg skyldi játa, að tap hefði stundum orðið á fisksölunni. Þvílík frjett! Jeg held það sje nú svo um flestar atvinnugreinir, að á þeim verði tap við og við. En það er sitthvað, að vilja lögleiða ríkiseinkasölu á fiski eða segja, að alt sje gott eins og nú er. Jeg hefi verið fús á að viðurkenna ýmsa galla á fyrikomulaginu. En jeg er ekki svo ósanngjarn í garð þeirra manna, sem með söluna fara, að gera þær kröfur, að þeim skjátlist aldrei. Það gerir enginn sanngjarn maður. Það getur sá einn gert, sem ekki hefir þekkingu á málinu. Hv. þm. (JBald) þótti jeg bregða sjer um þekkingarleysi. Það gerði jeg ekki. Hann hefir greinilegast sýnt það sjálfur, með ræðum sínum. Það getur verið, að í stöku tilfellum megi kenna þeim um mistök, sem með söluna fara. En oft valda þeim óviðráðanlegar ástæður, sem ekki eru útilokaðar með slíku frv. sem þessu. Við getum ekki sett lög um, hvað Spánverjar skuli neyta mikils fiskjar, nje af hvaða þjóðum þeir skuli kaupa. Atriðið, sem mestum örðugleikum veldur á fisksölunni, er það, að framboðið á markaðinum er meira en neyslan. En neyslan er minni en verið gæti, vegna þess að kostnaðurinn við framleiðsluna er of mikill til þess að varan geti verið svo ódýr sem skyldi. Þetta eru ástæður, sem ekki mundu lagast með ríkiseinkasölu. Framleiðslukostnaður mundi ekki breytast, neysla fiskjar ekki vaxa og samkepni frá Noregi, Englandi og Nýfundnalandi mundi haga sjer eins, hvort sem hjer væri lögleidd einkasala eða ekki. Jeg hjelt því fram, að þar sem vitanlegt væri, að samtök fiskeiganda hjer hefðu valdið óánægju á Spáni, væri líklegt, að ríkiseinkasala mundi verða orsök til enn sterkari mótstöðu. Hv. 5. landsk. andmælti þessu; hjelt, að Spánverjar mundu kyssa á vöndinn og sætta sig við þetta fyrirkomulag, ef það væri aðeins lög. Við höfum nú dæmin fyrir okkur um slík lagaboð, t. d. þegar hjer var lögleitt að flytja ekki inn vín. Öllum er kunnugt, að Spánverjar neyddu okkur til að leyfa innflutning ýmissa víntegunda. Þetta bendir á, að þeir mundu ekki taka lögum um ríkiseinkasölu á fiski með þögn og þolinmæði. Við vitum, að hjer voru gömul samtök um bindindi áður en bannlögin voru sett, og Spánverjar skiftu sjer ekki af því. Það var ekki fyr en lög voru sett um þetta efni, að þeir ljetu til sín taka. Þetta sannar mitt mál um það, að ríkiseinkasala mundi mæta meiri mótspyrnu en samtök einstakra manna. Um það er annars það að segja, að jeg er þeirrar skoðunar, að sú tilraun, sem gerð hefir verið, muni leiða í ljós, að slík samtök geti tekist. Hitt er vafamál, að rjett sje að hafa þau svo víðtæk, að sömu samtökin nái um alt land. Því hefir verið haldið fram í einu blaði, að betur mundi henta, að samtökin væru fleiri, og jeg stend nærri því að fallast á, að öll hjeruð eigi ekki samleið í þessu máli. Tegundir fiskjar eru talsvert mismunandi eftir landshlutum.

Hv. þm. (JBald) mintist á, að jeg hefði sagt, að hann færði engin rök fyrir því, að þetta fyrirkomulag mundi reynast betur og vildi láta mig sanna, að hið gamla væri betra. En honum sjest yfir það, að við núverandi fyrirkomulag erum við uppaldir, og jeg get ekki sjeð, að það sje okkar hlutverk að sanna, að það sje hið besta; a. m. k. tek jeg það ekki að mjer, fyr en jeg hefi játað, að ekki megi bæta fiskverslunina. Það verður víst örðugt, að fá nokkurn til að segja, að það fyrirkomulag útgerðarinnar og fiskverslunarinnar, sem við búum við, sje hið ákjósanlegasta. En það þarf áreiðanlega meira til að bæta úr göllunum en að skrifa nokkrar línur á blað og leggja fram sem frv. til laga. Jeg lít svo á, að þetta mál sje of alvarlegt til þess að hrapa að breytingum, að undangengnum röklausum staðhæfingum stefnuskrármanna, rannsóknarlaust og fordæmislaust Hið eina fordæmi, sem til er, er frá Nýfundnalandi, og það bendir í gagnstæða átt. Jeg bað hv. þm. að leggja fram líkur fyrir því, af reynslu annara þjóða, að þetta fyrirkomulag mundi reynast haldgott. Hann leiddi það alveg hjá sjer. Meðan hann færir ekki fram sterkari rök en þau, að segja, að líkur sjeu til, að einkasalan reynist skár en núverandi fyrirkomulag, finst mjer harla óforsvaranlegt að leggja út á einkasölubraut með aðalafurðir landsmanna.