28.02.1927
Neðri deild: 17. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

48. mál, notkun bifreiða

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það sýnist sjálfsagt, að skoðunarmaður hafi vald til þess að banna að nota þær bifreiðar, sem ekki fullnægja ákvæðum laga eða reglugerða, sem sett eru í þessu efni. Ef bifreið bilar, þá á þegar í stað að banna að nota hana, þar til úr er bætt. Það virðast t. d. lítil hyggindi í því að viðhafa það fyrirkomulag, að ætíð þurfi fyrst að tilkynna sýslumanninum í Árnessýslu, ef bifreið þaðan er biluð hjer í Reykjavík, og bíða svo eftir því, að hann banni, að hún sje notuð, í stað þess að fela það umsjónarmanni hjer.

Jeg get ekkert um það dæmt, hvort mikil brögð sjeu að því, að ekið sje hjer biluðum bifreiðum. Jeg hefi aldrei ekið í biluðum bifreiðum, að því er jeg best veit. En hvað það atriði snertir, að hraðamælarnir sjeu í ólagi, þá mun ástæðan vera sú, að vegirnir, eins og þeir eru upp og ofan, ósljettir og sumstaðar lítt færir, ónýta hraðamælana á skömmum tíma. Mælarnir þola sem sje ekki lengi mikinn hristing.