23.02.1927
Efri deild: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í C-deild Alþingistíðinda. (3121)

35. mál, einkasala á saltfisk

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg get verið þakklátur hv. þm. Vestm. fyrir það, að tónninn í ræðu hans var alt annar nú en áður. Mjer þykir vænt um að hafa fengið hann til að ræða þetta mál á sómasamlegan hátt. Það er alveg rjett, að við getum ekki lögboðið Spánverjum, hvað þeir eigi að jeta, en við getum skipulagt, hvernig við högum versluninni og reynt að selja öðrum einhvern hluta af þessu, sem við sendum til Spánar. Það geta verið mörg lönd enn, þar sem við gætum fengið markað fyrir fiskinn. En það hefir komið í ljós, að útgerðarmenn okkar reyna ekkert til þess. Það, sem verst er, er það, að eitt land getur sett okkur stólinn fyrir dyrnar, og hefir þegar sett okkur skilyrði fyrir því, hvaða lög við mættum hafa hjer í landi.

Þá blandaði hv. þm. ófyrirsynju inn í þetta framleiðslukostnaðinum. Frv. tekur ekki til þess, heldur aðeins til fyrirkomulags sölunnar. Það er rjett, að kostnaðurinn breytist ekki, þó að einkasalan komist á. En það er einmitt skoðun hv. þm. (JJós), að það sje nóg að hafa samtök milli helstu manna í hverri stjett, milli hinna stærri atvinnurekenda (JJós: Vill ekki hv. þm. hafa rjett eftir. Jeg mintist ekki á hina ,,stærri“.) Meiningin er sú, að hafa ekki alla með (JJós: Það er ekki rjett.) Jú, það er rjett. Því er hv. þm. og samherjar hans þá ekki með mínu frv.? Þeir gætu þá að minsta kosti verið með frv. til nefndar. En það er ekki til neins að vera að ræða þetta, ef hv. þm. dregur altaf til baka, það sem hann hefir sagt. Hann sagði, að það væri torvelt að finna þann mann, sem áliti fisksölufyrirkomulagið viðunandi. Er þá forsvaranlegt að leggjast á móti þessari tilraun til þess að bæta það? Eða talaði hv. þm. hjer fyrir munn Íhaldsflokksins? Hefir þetta mál verið gert að flokksmáli? Það þætti mjer vænt um, ef hv. þm. vildi upplýsa. En jeg vona, að þetta sje bara persónuleg skoðun hv. þm. sjálfs. (JJós: Alveg rjett!). Það þykir mjer vænt um að heyra. Mjer þætti það hart, ef sjálfur stjórnarflokkurinn vildi hindra framgang máls, sem miðar að því að leiðrjetta galla á sölufyrirkomulagi afurða okkar, og sem allir játa, að sje ábótavant og þurfi nauðsynlega að ráða fram úr.

Enda þótt tónn hv. þm. væri vingjarnlegri nú en áður, gat hann ekki stilt sig um að bregða mjer um þekkingarskort. Jeg verð að segja, og jeg vænti, að hv. þdm. verði mjer sammála um það, að hv. þm. Vestm. hafi ekki kafnað í vitinu í sínum umræðum um þetta mál. Hann sagði, að Spánverjar mundu frekar setja sig upp á móti ríkiseinkasölu en samtökum einstakra manna, og tók hann þar til dæmis, að þeir ljetu afskiftalausa bindindsstarfsemi í landinu. Það er nú kanske ekki komið til enn. En hitt er ákaflega ólíklegt, að Spánverjar settu sig frekar á móti ríkiseinkasölu, heldur en á móti „hring“ einstakra manna.

Hv. þm. mega vera vissir um, að þó að þeir geti nú hindrað það, að einkasala á saltfiski verði rædd í nefnd, geta þeir ekki komist hjá að ræða málið. Útgerðarmennirnir viðurkenna veilurnar. Þeir eru að mynda samtök sín á milli ár eftir ár, en það er óhætt að segja, að þeir sviki þau samtök jafnóðum. Samt sem áður trássast menn við að taka þetta til athugunar og fara þá leið, sem langsterkastar líkur eru til að verði leið út úr vandræðunum. Hv. þm. sagði, að jeg hefði sagt, að líkur væru fyrir því, að fyrirkomulagið yrði skárra. Það má vera, að jeg hafi tekið svo til orða, og af hæversku ekki notað sterkari orð. En jeg er sannfærður um, að það mundi verða stórkostleg bót, ef einkasala kæmist á, enda getur hv. þm. ekki hrakið ástæður mínar fyrir kostum einkasölunnar.