23.02.1927
Efri deild: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í C-deild Alþingistíðinda. (3122)

35. mál, einkasala á saltfisk

Jóhann Jósefsson:

Sú sannfæring, sem hv. þm. (JBald) mintist á í lok ræðu sinnar, er eflaust til, og væri ljótt að efast um hana, þar sem þetta mun vera í 6. eða 7. sinn, sem hann flytur þetta frv. (JBald: Kvenrjettindamálið var flutt í 20 ár!). Enginn efast um hans sannfæringu. Þrátt fyrir það leiðir ekki nauðsynlega þar af, að þetta sje hin eina rjetta leið. Og jeg vil taka það fram, að það er ekki þetta fyrirkomulag eitt, sem gæti haft þá kosti, sem hv. þm. talar svo mikið um. Hv. þm. heldur því fram, að við, sem könnumst við, að ekki sje alt í lagi, viljum þó hvergi breyta til. En það er ekki sama og að vilja hvergi breyta til, að gera ekki þetta stóra stökk, sem hann vill gera og sem jeg álit stórhættulegt, bæði fyrir ríkissjóð og þjóðina í heild sinni. Um hitt eru allir sammála, að þessi grein atvinnurekstrarins þarf á ýmsum sviðum umbóta við.

Þá var það ekki ófyrirsynju, að jeg mintist á framleiðslukostnaðinn, enda veit hv. þm. sjálfur, að hann er ekki lítilsvert atriði. Sje hann of mikill, verður ríkið, eins og hver annar, að selja vöruna undir sannvirði.

Jeg held nú, að það hafi ekki mikla þýðingu fyrir fiskverslun í heild sinni, að vera að elta lengur ólar við þetta. Það er furðulegt, eftir að hv. þm. er í mörg ár búinn að tala um þetta, að hann skuli geta talað eins ljettúðlega og hann hefir nú gert og látið meiri hluta orða sinna snúast um það, sem andstæðingar hans hafa ekki sagt.

Þá vil jeg beina því til hv. 2. þm. S.-M., að það, sem hjer liggur fyrir, nefnilega einkasala á saltfiski, útilokar ekki, að rætt sje um saltfisksölu í heild sinni. En jeg býst ekki við, að þetta frv. beri árangur. Reynslan hefir ekki sýnt það, og jeg sje ekki, að þingið sje svo breytt frá því í fyrra, að þetta mál fái öðruvísi undirtektir en það hefir fengið hingað til.