19.02.1927
Efri deild: 9. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (3151)

33. mál, veðurfregnir frá Grænlandi

Jóhann Jósefsson:

Jeg stend ekki upp til þess að kvarta undan undirtektum stjórnarinnar. Jeg vissi það fyrirfram, að hún myndi taka vel í þetta mál. En jeg vildi aðeins bæta nokkrum orðum við það, sem hv. meðflm. minn (JJ) sagði, og þá leggja áherslu á það, að nauðsynlegt er að kippa þessu máli sem fyrst í lag. Mjer skildist á hæstv. atvrh. (MG), að það mundi geta dregist nokkuð á langinn, því að það þyrfti að ganga í gegnum hendur grænlensku nýlendustjórnarinnar. Jeg vænti þess, að framgangi þessa máls verði flýtt svo sem unt er. Þetta er ekki stórt atriði fyrir Dani, að láta að vilja okkar, og álít jeg sjálfsagt að bjóða fulla borgun. Okkur er ekki sæmandi að fara neina betliför til Dana um þetta efni, en kostnaðurinn getur hinsvegar ekki verið mjög mikill. Það, sem mestu máli skiftir, er auðvitað fregnirnar sjálfar. Hv. meðflm. minn sagði, að norðvestan- og vestanveður væru hættuleg. Það er satt, en það eru samt ekki hættulegustu veðrin. Hættulegust eru þau veður, sem eiga upptök sín í suðvestri, svo sem veðurstofan hefir sýnt. Það er þýðingarmesti liðurinn fyrir grundvöll veðurspánna hjerlendis að fá ábyggilegar fregnir úr suðvesturátt. Mjer er kunnugt um, að áhugi sjómanna fyrir veðurfræði fer vaxandi, og ekki síst síðan Alþingi gerði veðurathuganastofuna svo úr garði, að þeir góðu menn, sem þar vinna, fá neytt krafta sinna. Sjómenn vorir kunna að meta starf þeirra og munu færa sjer það í nyt. En eins og jeg tók fram, er það mikil vöntun að fá ekki fregnir úr suðvesturáttinni. Það er undir því komið, hvort skip eru á ferð á þessum svæðum, hvort nokkurt skeyti berst þaðan. Veðurstofan hefir stundum fengið fregnir frá skipum, sem eru stödd á ca. 50. breiddargráðu. Þetta er mjög stopult, þótt það sje gott þegar það tekst. Annars er jeg þakklátur hæstv. atvrh. (MG) fyrir það, hversu vel hann hefir tekið í þetta mál, og vænti jeg þess, að áhersla verði lögð á það, að þetta komist sem fyrst í kring.