01.03.1927
Neðri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (3157)

47. mál, lögheimili og byggðarleyfi

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Eins og öllum er kunnugt, hefir atvinnulíf þjóðarinnar breyst allmjög hin síðari ár. Nýjar atvinnugreinar hafa komið upp og sumar þær gömlu gerbreyst, eins og t. d. sjávarútvegurinn. Þess er því ekki að vænta, að sú atvinnulöggjöf, sem sett var áður en þessar miklu breytingar áttu sjer stað, eigi nú við lengur. Þó er það svo, að við búum enn þá við lög um þessi efni, sem sett voru áður. Eru þau því orðin úrelt og eiga ekki við lengur.

Í till. þessari á þskj. 57, sem jeg hefi leyft mjer að flytja ásamt háttv. þm. Dal. (JG), er stungið upp á því að skora á stjórnina að endurskoða úrelta löggjöf um atvinnumál, sem ekki á við lengur.

Fyrsti liður till. er um það, að vinnuhjúatilskipunin frá 20. jan. 1866 verði endurskoðuð. Hún er nú orðin rúmlega 60 ára, og þó að öll ákvæði hennar gildi ekki nú, þá er hún þó enn að mestu leyti gildandi. Þegar tilskipun þessi var sett, þá voru hjer alt aðrir tímar en nú; kaupstaðirnir voru þá varla annað en nafnið, samanborið við það, sem þeir eru nú. Stórútgerðin, sem hefir breytt atvinnuháttum þjóðarinnar meira en nokkuð annað, og ýmsir fleiri atvinnuvegir, sem þá voru óþektir, hafa komið upp síðar. Þá var högum svo háttað hjer á landi, að alþýðumenn, sem ekki gátu tekið jörð til ábúðar, áttu ekki nema um tvo kosti að velja, annaðhvort að gerast vistráðið árshjú, eða þá að verða flækingar. Í samræmi við þetta ástand var svo vinnuhjúatilskipunin sett. Eins og þá stóð á gat vistarbandið verið eðlilegt og jafnvel nauðsynlegt, til þess að koma í veg fyrir flæking og aðra óreglu. En tímarnir eru orðnir alt aðrir nú, og vinnuhjúatilskipunin, sem bygð var á þessu gamla ástandi, getur ekki átt við lengur, enda hygg jeg, að óvíða sje eftir henni farið. Það er svo um öll lög, sem eru á eftir tímanum, að menn hætta að fara eftir þeim.

Í öðrum lið þessarar till. er farið fram á það, að lögin frá 1907, um lausamenn, húsmenn og þurrabúðarmenn, verði endurskoðuð. Þessi lög eru að vísu ekki nema 20 ára, en þó má segja um þau líkt og vinnuhjúatilskipunina, að þau sjeu úrelt orðin og eigi ekki við lengur. Það er ekki heldur lengur farið eftir þeim, enda ekki hægt að framfylgja þeim. Samkv. þeim lögum er svo til ætlast, að lausamenn kaupi leyfisbrjef. Gjaldið er að vísu ekki hátt, en það mun vera hreinasta undantekning, ef nokkur kaupir slíkt brjef. Og þótt sýslumenn spyrji um ólöglega lausamenn á manntalsþingum, þá hygg jeg, að ekki sje verið að rekast í því að ákæra þá, þó til sjeu. Þetta sýnir, að þessi löggjöf er ekki í samræmi við líf þjóðarinnar.

Þótt við flm. þessarar till. teljum þörf á að endurskoða þau lög, sem nefnd eru þar, og þó við teljum rjett að afnema vistarbandið og önnur slík ákvæði löngu horfins tíma, vegna þess að þau eru bæði órjettlát og óframkvæmanleg, þá er samt ekki svo að skilja, að við viljum losa um öll bönd, svo menn geti lifað og látið eins og þeim sýnist og skotið sjer undan að inna af hendi skyldur sínar við þjóðfjelagið og sveitar- eða bæjarfjelagið. Og við teljum, að ekki megi gera minni kröfur í þessu efni en þær, að hver maður verði að eiga lögheimili og þar með hafa ákveðnar skyldur gagnvert sínu sveitar- eða bæjarfjelagi. Einnig þurfa að vera til ákvæði um, hvar hægt sje að ganga að mönnum til uppfyllingar slíkum skyldum. í núgildandi lögum, vinnuhjúatilskipuninni og lögunum frá 1907, er að vísu svo ákveðið, að hver maður sje skyldur til þess að eiga lögheimili, en það er svo ótryggilega um þessi ákvæði búið, að hægt er að skjóta sjer undan þeim. Okkur flm. er beinlínis kunnugt um það, að til eru menn, sem fara landshornanna á milli og eiga hvergi neitt fast heimili. Slíkir menn sleppa oft algerlega við að greiða gjöld til sveitarsjóða. Þetta er að fara í vöxt og mun enn aukast vegna útsvarslaganna, sem sett voru í fyrra, þar sem svo er ákveðið, að útsvar skuli lagt á mann þar, sem hann á heima. Það er að vísu heimilt eftir þeim lögum að leggja útsvar á mann þar, sem hann er staddur þegar niðurjöfnun fer fram, ef ekki er kunnugt um heimili hans. En það mun vera til, að slíkir menn segjast eiga heimili í annari sveit og það sje tekið trúanlegt. Er mjer beint kunnugt um, að menn hafa af þessum ástæðum skotið sjer undan að greiða útsvar. Þá eru og önnur vandræði, sem stafa af því, að menn eru heimilislausir, en það eru mál út af sveitfesti þurfalinga. Jeg hefi heyrt, að það hafi komið fyrir, að þurfalingur, sem var búinn að dvelja 20 ár í Reykjavík, var dæmdur á sveit í Mýrasýslu, af því að það varð ekki sannað, að hann hefði haft heimili hjer, þó hann hefði dvalist hjer. Við flm. teljum nauðsynlegt að lögbjóða, að menn skuli eiga lögheimili, og jafnframt ákveðna skilgreiningu á því, hvað sje að eiga heimili. Þó margt sje auðvitað úrelt orðið í þeim lögum, sem í till. er stungið upp á að endurskoða, þá leggjum við flm. hennar þó höfuðáhersluna á það, að ákvæði laganna um skyldu manna til að eiga lögheimili verði gerð ákveðnari og gleggri, og er það höfuðtilgangur okkar með tveim fyrri liðum till.

Þá er jeg kominn að þriðja lið till., sem fer fram á það að skora á landsstjórnina að taka til athugunar, hvort ekki sje tiltækilegt að setja lagaákvæði, er gefi sveitar- eða bæjarfjelögum rjett til að takmarka innflutning fólks, sem hætta er á að verði þeim til byrði. Hjer er farið fram á, að hugmynd, sem jeg hefi áður komið fram með, verði tekin til athugunar. Jeg flutti hana fram á þinginu 1924 og aftur 1925, þá ásamt hv. þm. Borgf. (PO) og hv. 2. þm. Skagf. (JS). Á þeim þingum gerði jeg grein fyrir því, hvað fyrir mjer vekti, og þarf jeg því ekki að fara langt út í það nú. Jeg gat um það áðan, að jeg teldi tíma til kominn að afnema vistarbandið með öllu, en hjer legg jeg til, að athugað verði, hvort ekki sje tiltækilegt að taka upp bygðarleyfi í einhverri mynd. Einhverjum kynni nú kannske að finnast ósamræmi í þessu, en svo er þó ekki. Vistarbandið var þvingunarráðstöfun gagnvart einstaklingnum, en bygðarleyfið er það ekki, heldur er það varnaðarráðstöfun fyrir sveitirnar og bæjarfjelögin til þess að verjast hættu. Jeg veit það vel, að frv. um bygðarleyfi, sem jeg hefi áður flutt, hefir mætt mikilli mótspyrnu, bæði hjer á þingi og annarsstaðar. Einkum hafa menn fært þau rök gegn því, að í því væri fólgið ófrelsi, það væri þvingunarráðstöfun. En sömu menn hafa þó viljað takmarka rjett útlendinga til þess að njóta rjettinda hjer. En jeg vil nú halda því fram, að það sje stigmunur, en ekki eðlismunur, að þjóðirnar takmarka innflutning útlendinga og að sveitirnar hefðu rjett til að takmarka innflutning til sín. Þetta er að vísu stór stigmunur, en samt ekki eðlismunur. Hvorttveggja getur verið nauðsynleg varnarráðstöfun. Jeg skal nú ganga inn á það, að lög um bygðarleyfi sje neyðarúrræði, en það er þó nauðsynlegt, nema ef fyrirkomulagi fátækraframfærslunnar yrði gerbreytt. Í stjórnarskránni er það tekið fram, að hver sá, sem ekki getur sjeð fyrir sjer sjálfur, skuli eiga rjett á styrk úr almennum sjóði. En þjóðfjelagið leggur svo þessa byrði á hin einstöku sveitar- og bæjarfjelög, og kemur hún mjög misjafnlega niður. Jeg hefi ekki nein gögn í höndunum til þess að sýna þetta greinilega, en jeg vænti þess, að jeg geti það síðar í sambandi við annað mál. Meðan ríkið varpar þessari byrði á sveitar- og bæjarfjelögin, þá finst mjer þau eiga að hafa íhlutunarrjett um það, hve mikla ábyrð þau vilja taka á innflutningi aðkomufólks. Sama er að segja meðan atvinnuvegum þjóðarinnar er hagað eins skipulagslaust og nú. Það kemur oft fyrir, að á einstöku stöðum safnast fleira fólk saman en svo, að fyrir það sje næg atvinna. Þá finst mjer eðlilegt, að íbúar slíkra staða geti sett takmörk fyrir því, að aðrir komi og taki atvinnuna frá þeim. Jeg gæti hugsað mjer þá leið í bygðarleyfismálinu, að lög um þetta efni væru gefin sem heimildarlög, að sveitarfjelögunum væri heimilað að samþykkja að taka upp bygðarleyfi, ef sjerstaklega stæði á, og þyrfti leyfi stjórnarinnar í hvert sinn til slíkra samþykta.

Í hittifyrra lágu fyrir þinginu mörg frv. viðvíkjandi sveitarstjórnar- og fátækramálum. Meðal þeirra var frv. um bygðarleyfi. Hjer í þessari hv. deild var samþykt till. um að skipa milliþinganefnd til þess að undirbúa öll þessi mál undir næsta þing. En í Ed. var þessu breytt á þann veg, að málunum var vísað til stjórnarinnar. Stjórnin hefir orðið við ósk Ed. bæði í fyrra og nú og lagt fyrir þingið frv. viðvíkjandi sveitarstjórnar- og fátækramálum. En í þessum frv., sem komu frá stjórninni, er ekkert frv. eða ákvæði um bygðarleyfi. Jeg vildi nú gjarna, áður en þessi till. kemur til atkvæða, fá að heyra frá stjórninni, hvort hún hafi tekið afstöðu til þessa máls og þá hverja. Ef svo væri, að stjórnin vildi ekkert sinna þessu máli, þá er ekki ástæða til þess að afgreiða þessa till. Þá væri rjettara að flytja þetta mál í frv.-formi. En jeg hefi nokkra ástæðu til að ætla, að það sje af eðlilegum ástæðum, að ekkert hefir enn verið gert í málinu frá stjórnarinnar hendi, og að í því liggi engin yfirlýsing um það, að hún vilji ekki sinna því. Vona jeg að fá að heyra svar hæstv. atvrh. (MG) um það og yfirleitt um það, hvort stjórnin vill taka á móti þessari þáltill. Hjer er ekki farið fram á annað en að stjórnin taki málið til íhugunar, og vil jeg gjarna heyra af munni hæstv. ráðh. (MG), hvort hann sjer sjer ekki fært að verða við þeim tilmælum.