01.03.1927
Neðri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (3160)

47. mál, lögheimili og byggðarleyfi

Björn Líndal:

Jeg gæti nú í raun rjettri fallið frá orðinu, því að það má heita, að hv. 1. þm. Rang. (KlJ) hafi sagt alt, sem jeg ætlaði að segja. En jeg vil þó nota tækifærið til að benda hv. 4. þm. Reykv. (HjV) á, að ein öfgastefnan leiðir jafnan af annari, og er það alveg undantekningarlaus regla. Verður þá síðari villan venjulegast argari hinni fyrri. — Jeg hefi altaf verið á móti frv. þeim um bygðarleyfi, sem fram hafa komið hjer í þinginu, síðan jeg eignaðist hjer sæti, af því að mjer hafa þótt þau ganga í þveröfuga átt við þá, er jeg tel rjetta vera. En það dugir ekki að líta á þetta mál aðeins frá einni hlið, eins og hv. 4. þm. Reykv. (HjV) virðist gera. Þá er helst von um, að rjett leið verði fundin í hverju máli, ef það er skoðað hlutdrægnislaust frá öllum hliðum. En hitt leiðir aldrei til viðurkenningar sannleikans, að einblína á mál frá einni hlið, en loka augunum fyrir öllu öðru.

En þetta gerir einmitt hv. 4. þm. Reykv. (HjV) í þessu máli. Vilji maður finna sannleikann í einhverju máli, er ekki nóg að skoða það frá einni hlið, því að þá er áreiðanlegt, að andstæðingarnir líta ekki heldur á það nema frá einni hlið, hinni gagnstæðu.

Það er alveg rjett, sem virðist vaka fyrir fylgismönnum þessarar till., að af því getur leitt hin megnustu vandræði, að menn þyrpist saman á einn stað og geti síðan heimtað að fá þar undir eins atvinnu og það kaup, er þeim sjálfum sýnist, jafnvel þótt það nái engri sanngirni. En þessi er stefnan hjá jafnaðarmönnum hjer á landi. Einhversstaðar verður að draga takmarkalínuna. Því að varla er það ætlun hv. 4. þm. Reykv. (HjV) að veita mönnum ótakmarkaða heimild til að flykkjast til bæjarins, en reka þá síðan burtu, er þeir koma og heimta að fá atvinnu. — En það er einmitt hin gagnstæða óheillakenning hv. 4. þm. Reykv. (HjV) og annara fylgifiska hans í öfgunum. Og hún er sú, að menn eigi rjettmæta kröfu til góðrar atvinnu, fyrir almannafje, ef ekki er annars kostur, hvar sem þeim þóknast að setjast að. Það hefir komið af stað þessum fáránlegu bygðarleyfisfrumvörpum, þessum margítrekuðu tilraunum til þess að svifta menn persónulegu ferðafrelsi, miklu átakanlegar en nokkurn tíma hefir áður þekst á þessu landi.

Sama stefnan kemur fram í brtt. þessa hv. þm. (HjV) við fátækralögin, að ekki megi flytja þurfaling sveitarflutningi, nema leyfi hans sjálfs komi til. Jeg hefi bent á það áður hjer á Alþingi, út í hvílíkum öfgum þetta lendir. Get jeg nú tekið sama dæmið og áður, þegar um þetta mál hefir verið rætt. Hugsum oss tvo bræður í sveit; þeir eru báðir vel vinnandi menn, en fátækir, og standa að öllu jafnt að vígi. Annar þessara bræðra flyst til Reykjavíkur, en hinn stundar búskap heima. Og einn góðan veðurdag verður bróðirinn, sem til Reykjavíkur fór, styrkþurfi og þarf að segja sig til sveitar. Er þá sanngjarnt að íþyngja bróður hans og öðrum heima í sveitinni með því að þurfa að kosta margfalt dýrara uppihald hans hjer í bænum heldur en ef hann hefði flust heim til þeirra?

Ef hv. 4. þm. Reykv. (HjV) vill eigi gera ranglátan greinarmun á verkamönnum í kaupstöðum og verkamönnum í sveitum, verður hann að breyta þessari stefnu sinni, því að sjeu nokkrir sannkallaðir verkamenn til á þessu landi nú á tímum, þá eru það bændurnir. Engir verkamenn í kaupstöðum komast í námunda við það að leggja á sig eins látlausa erfiðisvinnu og þeir.