01.03.1927
Neðri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (3163)

47. mál, lögheimili og byggðarleyfi

Hjeðinn Valdimarsson:

Það er aðeins örlítil athugasemd, er jeg vildi gera.

Mjer finst satt að segja, að skörin fari að færast fullmikið upp í bekkinn, þegar á að auka svo vald bæjar- og sveitarfjelaga, að þau geti ráðið því, hvernig einstaklingar þjóðarinnar haga atvinnuleit sinni, og einnig ráðið því, hvort þurfalingur hafi kosningarrjett eða ekki, eins og kemur fram í fátækralagafrv. því, sem hæstv. stjórn leggur nú fyrir þingið. Hv. flm. (BSt) gat þess, að flokksbræður mínir á Akureyri mundu standa nærri þessari till. hans. Um það veit jeg ekkert, en get þó ímyndað mjer, að þeir muni fylgja sumum liðum hennar. En hinu trúi jeg ekki, að þeir sjeu fylgjandi ákvæðinu um bygðarleyfi. Það er vitanlega satt, að það er ekki mikið að gert, þótt einum manni sje synjað bygðarleyfis, en úr því að ekki á að beita ákvæðinu, þá er líka óþarft með öllu að hafa það í lögum.

Hjer í Reykjavík er ástandið svo, að altaf flyst fjöldi manna úr bænum og í hann, svo að segja alla tíma árs og skiftir mörgum hundruðum árlega.

Ef þetta bygðarleyfisákvæði kæmist í framkvæmd, þá mundi þetta falið einhverri undirnefnd bæjarstjórnar eða borgarstjóra, að hafa slíkt mál með höndum, og yrði þá algerlega komið undir geðþótta meiri hl. nefndarinnar eða borgarstjóra, hverjum synjað væri um bygðarleyfi eða ekki. Og þar sem pólitískar bylgjur rísa jafnhátt og í þessum bæ, efast jeg alls ekki um, að þess mundi gæta í framkvæmd laganna, þó að ákvæðið hljóði eitthvað á þá leið, að því skuli ekki beitt nema í ítrustu nauðsyn. Það er aðeins laglegt orðalag, sem enginn mun telja sjer skylt að fara eftir.

Þá komu þeir báðir, hæstv. atvrh. (MG) og hv. flm. (BSt), með það og töldu sem rök fyrir bygðarleyfisákvæðinu, að gefin hefði verið út auglýsing í Reykjavík og Vestmannaeyjum nú í vetur um það að vara menn við að sækja til þessara staða í atvinnuleit. Þeir hefðu nú getað bætt Hafnarfirði við, því að samskonar auglýsing kom frá bæjarstjórninni þar. En jeg get ekki skilið, hvernig þeir hugsa sjer, að þetta geti talist rök fyrir þeirra málstað. Þetta er óskylt með öllu. Það er alt annað að vara menn við að sækja þangað, sem um litla eða enga atvinnu er að ræða, heldur en að banna mönnum að vera sjálfráða um atvinnuleit sína.

Jeg get þakkað hv. 1. þm. Rang. (KlJ) fyrir stuðning hans við skoðun mína á þessu máli. Hann sagðist vita þess dæmi, að á meðan þessu ákvæði var beitt hefði mörgum verið synjað um bygðarleyfi, sem síðar hefðu orðið með allra merkustu mönnum landsins. Þetta sýnir best, hve ranglát slík aðflutningsbannslög mundu verða í höndum pólitískra klíku-nefnda.

Þá töluðu þeir um það báðir, hv. þm. Ak. (BL) og hv. 1. þm. Rang. (KU), að menn heimtuðu strax vinnu og þeir væru hingað komnir. En þetta er fjarstæða. Eftir gildandi lögum er því miður enginn rjettur til fyrir menn að fá að vinna.

Annars lýsir það best þekkingu hv. þm. Ak. (BL) á Reykjavík og atvinnu manna hjer, er hann heldur því fram, að hingað geti allir safnast, og hjer sje sú gullnáma, sem aldrei tæmist. Á hann þar víst við atvinnubætur þær, er bæjarstjórn beitti sjer fyrir í vetur. En um þær er það að segja, að þær eru aðeins notaðar handa nokkrum mönnum, sem hjer eru sveitlægir, og skiftast þeir á um vinnuna. Mun láta nærri, að einstakir menn hafi upp úr þeim sem næst 100–200 krónur yfir mestallan veturinn. Er það ekki trúlegt, að allir Íslendingar mundu safnast til Reykjavíkur til að ná sjer í slíka atvinnu!

Að lokum voru það örfá orð til hæstv. atvrh. Hann gat þess í ræðu sinni, að hann mundi skoða þessa hv. deild sem einskonar æðsta dómstól í meðferð fátækramálanna. En úr því svo er, vildi jeg ráða honum til að skoða hv. deild hæstarjett í fleiri málum og leita þá einnig til hennar um traust handa sjer og stjórn sinni, því jeg veit ekki betur en að hann eða stjórnin sje í minni hluta í þessari hv. deild.