18.03.1927
Neðri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

48. mál, notkun bifreiða

Jón Kjartansson:

Eins og hv. frsm. (HjV) tók fram, hefi jeg nokkra sjerstöðu í málinu. Sjerstaklega get jeg ekki fallist á, að rjett sje að hækka ábyrgðartrygginguna. Lögin frá síðasta þingi hafa ekki komið til framkvæmda enn. Hvað því veldur, veit jeg ekki, og þætti mjer vænt um að heyra skýrslu hæstv. atvrh. (MG) um það. Ef till. meiri hl. nefndarinnar nær fram að ganga, skilst mjer, að þetta verði allþungur skattur á bifreiðaeigendum.

Tala bifreiða í landinu mun nú vera um 500, og mundi þá koma hjer skattur, sem nema mundi 35–40 þús. krónum. Það verður ekki annað sagt en að þetta sje mikill skattur í viðbót við bifreiðaskattinn, sem nú er heimtaður. Jeg vil því leggja til, að 2. brtt. nefndarinnar verði feld. Mjer finst rjettast að láta ákvæði laganna frá í fyrra reyna sig áður en þeim er breytt, þó að jeg hinsvegar viðurkenni, að nokkrir gallar sjeu á þeim lögum. — Jeg skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en vænti, að hv. deild líti svo á, að það sje tæplega fært að skattleggja bifreiðar meira en orðið er. Jeg býst við, að tryggingarupphæð sú, er ákveðin var í fyrra, sje nægileg, því sem betur fer eru fátíð slys hjerna hjá okkur, þrátt fyrir slæma vegi.