09.03.1927
Efri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (3171)

70. mál, rannsókn á akvegarstæði

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það, sem þáltill. þessi ræðir um, er gamalt áhugamál Seyðfirðinga, alt frá þeim tíma, er ákveðið var, að akbrautin frá Reyðarfirði lægi um Fagradal upp á Fljótsdalshjerað. Stóð þá þegar reipdráttur um það, hvort akbrautin skyldi lögð þá leið eða frá Seyðisfirði um Fjarðarheiði. Að það varð ofan á, að leiðin um Fagradal var valin, var ekki af því, að hún væri styttri, þvert á móti, því hún er töluvert lengri, heldur mun það hafa mestu um ráðið, að talið var, að auðveldara myndi að byggja hana, og minni bratti á leiðinni um Fagradal.

Þó nú að því væri slegið föstu í vegalögunum 1893, að akbrautin skyldi lögð um Fagradal, fjell málið eigi niður á Seyðisfirði, því var altaf haldið lifandi, og nú er sjerstök hreyfing komin á þetta mál og sterkar kröfur um að hrinda málinu í framkvæmd.

Að vísu er til rannsókn á vegstæði yfir Fjarðarheiði, gerð af Sigurði Thoroddsen 1901. En þar sem nú er farið að byggja vegi töluvert öðruvísi en þá, sjerstaklega með tilliti til bílaumferðar, þá virðist óhjákvæmilegt að gera áætlun og rannsókn að nýju, og ætti það ekki að vera tilfinnanlegt, þar sem vegamálastjóri hefir verkfræðinga í þjónustu sinni, sem hann getur látið framkvæma rannsóknina, ef hann hefir eigi sjálfur tækifæri til þess.

Að nauðsyn sje á að leggja þennan veg, þarf ekki að fjölyrða um, því það er öllum vitanlegt, sem til þekkja. Á Seyðisfirði er ein besta höfn á Austfjörðum, og þar er einhver stærsti verslunarstaður Austurlands. Þangað koma öll skip, sem fara til Norður- og Austurlandsins. Liggur því í augum uppi, að jafnstór verslunarstaður sem Seyðisfjörður er þarf að hafa greiðar samgöngur við hið víðáttumikla Fljótsdalshjerað. Eins og jeg gat um áðan, er leiðin milli Fljótsdalshjeraðs um Fjarðarheiði styttri en um Fagradal til Reyðarfjarðar. Þannig er símalínan frá Seyðisfirði að Egilsstöðum ekki nema ca. 22 km., en vegalengdin milli Reyðarfjarðar og Egilsstaða er um 35 km. Að sjálfsögðu má búast við, að vegurinn yrði eitthvað lengri en símalínan, en fram úr 25 km. mun vegurinn þó tæpast fara.

Í till. okkar flm. er farið fram á, að rannsakaðar verði tvær leiðir, leiðin yfir Fjarðarheiði að Egilsstöðum, og um Vestdalsheiði að Eiðum. Að till. er borin fram í þessu formi nú, er fyrir þá sök, að það getur ekki liðið langur tími þangað til akvegur verður lagður á milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshjeraðs, og því sje rjettara að rannsaka strax báðar þessar leiðir, því vegna Seyðisfjarðar er sama, hvor leiðin er farin. Að vísu er leiðin um Vestdalsheiði dálítið lengri, en vel má vera, að þar sje betra vegstæði.

Jeg geng út frá því sem sjálfsögðu, að þegar vegur þessi verður bygður, þá verði bygging hans að öllu leyti kostuð af ríkissjóði, því hjer yrði um akveg að ræða, sem liggur frá fjölmennum verslunarstað að víðlendu sveitahjeraði. Vænti jeg svo, að háttv. deildarmenn taki þessari tillögu vel, því kostnaðurinn, sem af henni leiðir, getur aldrei orðið tilfinnanlega mikill. Að við viljum láta flýta þessari rannsókn, er til þess, að hægt verði að grípa tækifærið, þegar fje yrði fyrir hendi, og byrja á brautinni.