09.03.1927
Efri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (3173)

70. mál, rannsókn á akvegarstæði

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er rjett hjá hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), sem hann sagði um rannsókn á vegarstæði yfir Fjarðarheiði, að það hefir verið lagt fyrir vegamálastjóra 1925 að rannsaka vegarstæði þarna, en af þeirri rannsókn hefir ekki orðið enn. Jeg hefi átt tal við hann um þetta mál. Segist hann hafa farið þarna um tvisvar og athugað vegarstæðið, en ekki álitið ástæðu til að leggja vinnu í það, þar eð hæpið væri, að vegurinn yfir þessa heiði myndi nokkum tíma verða ofan snævar nema lítinn hluta ársins. Jeg hefi sagt honum, að það væri ekki næg afsökun, og beðið hann um að gera alvöru úr því í sumar að rannsaka vegarstæði þarna, og hefir hann lofað því. En jeg vil jafnframt geta þess, að þótt vegamálastjóri hafi tvo menn sjer við hlið, þá hafa þeir mjög mikið að gera, svo að jeg dreg það mjög í efa, að komist verði yfir að rannsaka vegarstæði á báðum heiðunum. Það er alls ekki svo lítið verk að gera kostnaðaráætlun um vegarlagningu á svona erfiðu svæði. Það er ekki nóg að fara þar um sem ferðamaður, heldur verður að athuga alt sem vandlegast, gera mælingar og afla athugana og upplýsinga kunnugra manna austur þar um snjóalög o. fl. Jeg vildi aðeins sýna fram á, að það er ekkert áhlaupaverk að gera svona rannsókn, og því er ekki vert að fara að samþykkja meira af ályktunum en komist verður yfir að framkvæma.