24.03.1927
Sameinað þing: 4. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (3191)

41. mál, síldarverksmiðja á Norðurlandi

Björn Líndal:

Það er að vísu satt, sem hæstv. atvrh. (MG) sagði, að lóðirnar á Siglufirði muni vera, að nafninu til, eign ríkissjóðs, en svo er líka hitt, eins og hv. flm. till. (MK) sagði, að allar þær lóðir, sem nokkurs virði eru, munu vera í annara manna höndum, og einnig þær tvær lóðir, sem hjer gætu komið til greina. Þær eru meðal þeirra lóða, er lengst er síðan að leigðar voru út á Siglufirði. Jeg man ekki betur en að ársleigan fyrir hvora þeirra fyrir sig sje 50 krónur, og leigutíminn er langur. Þessar lóðir hefir nú danskt firma til umráða, og jeg hygg, að það yrði ekkert smáræði, sem heimtað yrði fyrir þessar lóðir, ef Alþingi færi að einskorða sig við það, að hlynna að byggingu síldarolíuverksmiðju á þessum stað, og þá ætti hv. þm. að vera það ljóst, hve vanhugsað það er að einskorða sig alveg við einn stað. Líka hefi jeg heyrt, að þessi lóð muni þegar vera seld undir verksmiðju, og ætlaði jeg að útvega mjer upplýsingar um það áður en þingfundur byrjaði, en það mistókst, svo að jeg get ekkert sagt um það fyrir víst.

Hv. flm. till. (MK) hefir víst skilið orð mín svo, sem jeg liti einhverjum vonleysisaugum á framtíð þessa atvinnuvegar, en það er misskilningur. Jeg lít einmitt mjög vonbjörtum augum á síldveiðamar hjer við land. En hitt er annað mál, að við megum hvorki reyna að telja sjálfum okkur nje öðrum trú um það, að síldarbræðsluverksmiðjur sjeu alveg öruggar gróðalindir, sem ekki geta brugðist. Þeir, sem mesta reynslu hafa í þessari atvinnugrein, telja að minstu kosti hyggilegast að fara mjög varlega, því að auk þess sem veiðarnar geta brugðist, eru oft stórfeldar og ófyrirsjáanlegar verðsveiflur á afurðunum, einkum olíunni. Sú síldarverksmiðjan, sem talið er, að einna best hafi verið stjórnað og mesta reynslu mun hafa fengið í þessari atvinnugrein, hefir gert sjer það að reglu að selja afurðir sínar fyrirfram. Hafi hún svo nokkurn veginn fengið þá síld, sem hún hefir reiknað með að fá og fyrir það verð, sem hún hefir líka reiknað með, þá hefir alt gengið vel. En þetta vill oft bregðast, og ef mikil brögð eru að því, verður tap á atvinnurekstrinum. Mjer er kunnugt um það, að nú er hægt að fá þessa síldarverksmiðju keypta með tiltölulega vægu verði. Sá maður, sem hefir umráð yfir henni, hefir hvað eftir annað boðið okkur hana til kaups. Það lítur út fyrir, að hann hafi ekki trú á framtíð þessarar atvinnugreinar hjer, og þó er verðið á afurðum hennar ótrúlega hátt að sumu leyti. Jeg vil leyfa mjer að benda á það, að við verðum oft að borga sama verð hjer á Íslandi fyrir tunnu af síldarmjöli og hægt er að fá rúgmjölstunnu. En sakir þess, að verðið á síldarolíu og síldarmjöli er oft tiltölulega hátt, samanborið við aðrar líkar vörutegundir, hættir mönnum til þess að komast á þá trú, að hjer sje altaf um mjög arðvænlegan atvinnuveg að ræða. — Þeir, sem versla með þessar afurðir, munu hafa nokkuð svipaða reynslu og við, sem verslum með síld. Þegar verðið lækkar eftir að selt hefir verið fyrirfram, eru kaupendurnir furðu lagnir á að setja eitt og annað út á vöruna, ýmist til þess að reyna að þrýsta verðinu niður eða til þess að losna við kaupin með öllu. Er þá oftast erfitt að ná rjetti sínum og stundum útilokað með öllu.

Jeg er ekki að halda því fram með þessu, að jeg sje neinn sjerfræðingur á þessu sviði, — enginn taki orð mín svo. En eftir þeirri litlu þekkingu, sem jeg hefi fengið á þessum málum, þá held jeg, að ekkert sje hægt að fullyrða um það fyrirfram, að hjer sje um stórgróðafyrirtæki að ræða.

Svo vil jeg benda hv. flm. (MK) á það, að jeg lít öðrum augum á söltun og kryddun síldar annarsvegar og síldarbræðslu hinsvegar en hann virðist gera. Þar er mjög ólíku saman að jafna, eftir minni skoðun. Þótt mikið sje kvartað yfir skorti á verkafólki í sveitum landsins, þá er þó nú komið svo landshögum, að þess er enginn kostur, að allir þeir, sem verða að lifa á handafla sínum, geti fengið atvinnu í sveitunum að sumrinu, sem vitanlega er aðalbjargræðistíminn, og þá kemur síldarvinnan að góðum notum, því að við hana geta flestir unnið, bæði þeir, sem hraustir eru, og þeir, sem hafa minni máttinn, gamalmenni, konur og börn. Því verður ekki neitað, að það er stórfje, sem kemur inn í landið fyrir þessa atvinnu, og því má aldrei gleyma, þegar talað er um, að einhver hafi tapað svo og svo mörgum hundruðum eða þúsundum á síldarútgerð, hversu mikið hann hefir orðið að borga í vinnulaun og tolla til ríkisins.