29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (3200)

100. mál, landsstjórn

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson*):

Jeg ætla fyrst að segja nokkur orð út af innganginum að vantraustsræðu hv. 4. þm. Reykv. (HjV).

Hann færði fram sem ástæðu fyrir till. sinni, að jeg hefði óskað þess hjer í deildinni, að hann kæmi fram með hana. Þetta er ekki rjett. Hv. þm. var einu sinni nokkru eftir þingbyrjun að minna mig á, að jeg hefði ekki traust þessarar hv. deildar. Benti jeg honum þá á, að eftir þingræðisreglum gæti hann gengið úr skugga um traust mitt með því að koma fram með vantraustsyfirlýsingu. Af þessu gladdist hann mjög, og eftir að hafa melt þetta með sjer í fullan mánuð kemur hann fram með till. þessa. Verður því ekki annað sagt en hann sje duglegur.

Hv. þm. sagði, að aðalkjarni Íhaldsflokksins væru stórútgerðarmennirnir við sjávarsíðuna. Jeg býst nú við, að enda þótt þeir sjeu margir, þá hafi hann þó sjeð þá í stækkunargleri, og ekki aðeins 10-falda eða 100-falda, heldur þúsundfalda, því hann þarf ekki annað en kynna sjer kosningarnar síðastliðið sumar og haust, til þess að sjá, að Íhaldsflokkurinn hefir víðar fylgi en við sjávarsíðuna.

Þá sagði hv. þm., að svo virtist sem stjórnin hugsaði um það eitt að aðhafast sem minst. Þetta verð jeg að segja að komi undarlega við, þegar það er alkunna, að aldrei síðan landið bygðist hefir verið unnið þvílíkt að verklegum framkvæmdum sem í tíð núverandi stjórnar, og nú er í uppsiglingu það stórkostlegasta mannvirki, sem enn þá hefir verið hugsað hjer á landi, og eigi að síður leyfir hv. 4. þm. Reykv. sjer að halda því fram, að stjórnin hafi ekkert gert. Það er svo sem ekki verið að líta á rökin.

Hann mintist líka á embættisfærslu sýslumanna og gerði sjerstaklega að umtalsefni skifti á búum. Það er rjett, að oft getur dregist töluvert með skifti á þeim, en það stafar af því, að oft verður að sæta lagi með sölu á eignum, til þess að sæmil. verð fáist fyrir eignir búanna. Er þetta ekkert einsdæmi hjer, það er líka svo í öðrum löndum.

Þá mintist hann á drengsmálið í Skagafirði og sagði, að það hefði dregist í 1½ ár. Þetta er rjett, það drógst þennan tíma, en það verður ekki kallað að hafa dregist lengi. Og er síst hægt að ásaka stjórnina fyrir meðferð þess, því að hún gerði það sem hægt var, þar sem hún ljet æðsta dómstól landsins prófa það.

Aðallega voru það tvö atriði sem hv. 4. þm. Reykv. (HjV) gerði að umtalsefni. Hv. þm.(HjV)var reyndar að tala um, að það mætti til tína ýmislegt fleira, en jeg þekki svo snarpan stjórnarandstæðing, að jeg veit, að hann velur ekki það besta, hann velur æfinlega það, sem honum þykir verst, og þá gefur þar á að líta, hvað hv. 4. þm. Reykv. (HjV) álítur að jeg hafi gert verst á þessum árum í þeim málum, sem hann nefndi. Þessi tvö helstu atriði vora útvarpsmálið og lögin um atvinnu við siglingar. Um útvarpsmálið er það að segja, að fjelagið fekk ekki einkaleyfi fyr en trygt var, að það hafði það hlutafje, sem til er tekið í lögunum um útvarp, og þó svo væri, að sú stöð, sem notuð er, sje ekki 1½ kw. í loftnetið, þá er það svo, að í lögunum stendur, að stöðin eigi að vera alt að 1½ kw., en svo er bætt við, að hún eigi að ná um alt land, en þessi viðbót getur ekki staðist, samanborið við stærð stöðvarinnar, vegna þess að fyrst og fremst er það óvíst, að til sje sú verksmiðja, sem búið geti til þá stöð, sem nái um alt land; það er nefnilega svo, að í öllum löndum eru svonefndir dauðir punktar, sem ekkert heyrist á, og svo er nú hitt, sem mjer dettur ekki í hug að neita, að stöðin er of lítil. En það er fyrir efnaskort, að útvarpsfjelagið hefir ekki fengið sjer stærri stöð, og sömuleiðis að það hefir aðeins leigt þá stöð, sem hjer er. En það er svo um ýms mál, þótt góð mál og menningarmál sjeu, að ekki er hægt að fá menn til að leggja fram fje til þeirra, og það er ósköp hægt að ávíta fjelagið fyrir það, að það hafi ekki fengið nægilegt fje, en það er ekki sanngjarnt að heimta það, að fáeinir menn leggi til svo mikið fje úr eigin vasa, þegar svo er, að nær engir aðrir vildu leggja fje til fyrirtækisins. Því var einmitt spáð hjer, þegar útvarpsmálið var hjer til umræðu, að það mundi verða fjöldi manna, sem vildi leggja fje í þetta menningarfyrirtæki. En það hefir reynst á alt annan veg, og að stofngjaldið og árgjaldið var svo hátt eins og það varð, var einmitt af hræðslu við það, að fjelagið myndi ekki fá nægilegt fje til að starfa fyrir. Jeg gerði það, sem jeg gat, til þess að fá gjöldin lækkuð, en hluthafarnir svöruðu, að annaðhvort yrðu gjöldin að vera þetta eða þá að þeir hættu við alt saman, og þegar enginn annar hafði sótt um leyfið, var annaðhvort að láta málið stranda eða gefa þeim sjerleyfi, sem um það sóttu. Hv. flm. (HjV) áleit, að eftirlitið með innflutningi á tækjunum mundi vera ólöglegt, en jeg vil spyrja, hvernig á að hafa eftirlit með því, að þeir, sem setja upp móttökutæki og eiga að borga fyrir að hafa þau, geri það, ef ekkert eftirlit er með innflutningi á slíkum tækjum? Þá sagði hv. flm. (HjV), að óleyfilegt væri að leggja gjald á varahluta, en jeg hefi áður upplýst, að þetta er algerlega rangt. Það er einmitt lagður skattur á varahluta til þess að ljetta undir með þeim, sem fá sjer tækin í heild, því væri ekki neinn skattur á varahlutum, væri ekkert ljettara en að kaupa sjer eintóma varahluta og setja svo upp heil tæki úr þeim og komast þannig hjá öllu gjaldi. Þá kvartaði hv. flm. (HjV) yfir því, að útvarpið væri slæmt, og nefndi þar sjerstaklega til, að ræður prestanna í kirkjunni heyrðust illa. Það er nú alt annað mál heldur en ef hv. þm. (HjV) hefði ekki kvartað um nema það, að útvarpað hefði verið dagbók Morgunblaðsins. En jeg man nú samt eftir því, að hans góði flokksbróðir, Ólafur Friðriksson, hefir haldið fyrirlestur í útvarpið, og þó að jeg viti, að það muni vera heldur grunt á því góða á milli þeirra flokksbræðra, þá dettur mjer þó ekki í hug að halda, að hv. flm. (HjV) vilji væna flokksbróður sinn um það, að hann sje neinn þræll eða leiguþý hjá íhaldinu. En þetta kemur ekki heim við það, sem hv. þm. (HjV) sagði, að stjórnin ljeti ekki útvarpa öðru en því, sem henni kæmi best. Annars er það vitaskuld svo um það, sem útvarpað er, að stjórnin hefir ekki neina hönd í bagga með um val á því, og þykir heldur ekki ástæða til að gera það, vegna þess að hún telur, að þetta mál sje enn þá á tilraunastigi, og má jafnvel búast við, að þetta mál komi að meira eða minna leyti til umræðu hjer síðar á þinginu.

Þá vil jeg nefna hitt málið, sem hv. 4. þm. Reykv. (HjV) mintist á, en það eru lögin um atvinnu við siglingar og það frv., sem stjórnin hefir borið fram um það mál hjer á þingi. Það er nú reyndar nokkuð snemt, finst mjer, að bera fram vantraustsyfirlýsingu á þeim grundvelli, þegar þess er gætt, að það frv. er enn þá til meðferðar í nefnd. (HjV: Þetta er misskilningur). Það er enginn misskilningur, því að hv. þm. (HjV) var að tala um, hve óhæfilegt þetta frv. væri, enda er mjer kunnugt um, að hv. þm. (HjV) hefir barist á móti þessu frv. það sem hann hefir getað, en hitt er rjett, að stjórnin áleit rjett að fá undanþágur frá þessum lögum, eins og flestum öðrum lögum. Það er að minsta kosti svo, að ólærðir menn geta fengið leyfi til að fást við lækningar, og ólöglærðir menn fást oft við lögfræðisstörf, og undanþáguheimildir eru til um flest atriði, sem stjórnin hefir eftirlit með, og get jeg því ekki sjeð annað en að hjer sje algerlega það sama á ferðinni og það, sem þingið í fyrra samþykti nær einróma, nefnilega undanþága um vjelstjóra á skipum, og get jeg ekki sjeð, að neinn verulegur munur sje á því, hvort hægt er að veita vjelstjórum undanþágu eða skipstjórum, og jeg skal gjarnan viðurkenna það, að það hefir verið farið á flestar slóðir með að veita undanþágur, — jeg bið hv. þm. (HjV) að taka vel eftir, — þegar svo hefir staðið á, að sjávarútvegurinn mundi bíða hnekki við það, ef því hefði verið neitað, og jeg get ekki sjeð, að neinn skaði sje að því, þó að á skipi væri lærður maður, sem ekkert vald hefði, og svo annar ólærður maður, sem væri fiskiskipstjóri og hefði öll ráð á skipinu. Jeg veit, að hv. 4. þm. Reykv. (HjV), sem vill alla útgerð niður í sorpið, vill ekki leyfa þetta henni til ljettis, en þeim, sem vilja þessum atvinnuvegi vel, mun sýnast, að það sje ekki rjett að vera að herða á honum með óþörfum byrðum, og það var heldur alls ekki svo eftir þessu frv. stjórnarinnar, að það ætti að veita þessar undanþágur án þess að sjerfróður maður segði álit sitt um það, því það er ætíð svo, að forstöðumaður stýrimannaskólans er spurður um þessi mál, og leggi hann á móti þeim, þá eru slíkar undanþágur mjög sjaldan eða aldrei veittar, og það er ósköp hægt að binda stjórnina við það að veita aldrei slíkar undanþágur nema eftir meðmælum þessa manns. Það er maður, sem öll sjómannastjettin ber fult traust til.

Þá sagði hv. flm. (HjV), að það væru nægilega margir menn til, sem tekið gætu að sjer slíkar skipstjórastöður, en hann verður að athuga það, að það er stundum ekki svo ljett að ná í þá menn. Þeir eru kannske komnir í atvinnu hingað og þangað, eða þeir eru einhversstaðar úti á sjó, og það kemur oft fyrir, þegar menn fatlast frá starfinu á einhvern hátt, að þá er ekki hægt að ná í þessa menn, en það verður að vera hægt.

Hótun hv. þm. (HjV) um landsdóm tek jeg mjer ekki nærri. Hv. þm. (HjV) er svo gjarn á að fara í mál, að það er ekki undarlegt, þó að málaferli verði á milli hans og landsstjórnarinnar, þegar hv. þm. (HjV) liggur í málaferlum við sína eigin flokksbræður, og jeg get alls ekki búist við, að hv. þm. (HjV) vilji gera mjer hærra undir höfði en sínum bestu flokksbræðrum, því að jeg verð að skoða þetta svo sem hv. þm. (HjV) vilji sýna sanngirni.

Hv. flm. (HjV) var eitthvað að minnast á það, að tollheimtan úti um land væri of slæleg, en jeg hefi það fyrir satt, að hv. þm. (HjV) hafi þó ávítað einn bæjarfógeta úti á landi fyrir það, að hann væri of harður í kröfum um toll frá þeirri heildverslun sem hv. þm. (HjV) er framkvæmdarstjóri fyrir. En þessar aðfinslur hv. 4. þm. Reykv. (HjV) eru svo magrar og veigalitlar og lítils virði, að það er ekki hægt að halda verulega svarræðu við þeim, og vil jeg því aðeins benda hv. þm. (HjV) á það, að hvað sem verður um þessa vantraustsyfirlýsingu, getur landsstjórnin og flokkur hennar verið ánægð með þá traustsyfirlýsingu, sem hún fekk við það landskjör, sem fram fór á síðastliðnu hausti, því að það er meira virði að fá traustsyfirlýsingu frá kjósendum landsins heldur en þótt hv. þm. (HjV) tali 1–2 tíma máttlaust í þessari hv. deild.

*) Ræðuhandrit óyfirlesið