29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (3201)

100. mál, landsstjórn

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Þá fregn sagði hæstv. fjrh. (JÞ), að hann væri skipaður forsætisráðherra, og þykir mjer það mjög undarlegt, að svo sje, þegar hæstv. ráðh. (JÞ) hefir haldið því öllu leyndu fyrir þinginu. Vildi jeg þá beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh. (JÞ), hvenær þetta hafi skeð, hvort hann hafi ef til vill fengið þá skipun nú í morgun. Annars er það mjög gleðilegt, að þingið fær að vita um það, þegar spurt er að því. En það kemur ekki í bág við hitt, sem jeg hefi sagt, að stjórnin eigi ekki að geta látið skipa sig af konungi án þess að hafa yfirlýstan þingvilja á bak við sig. Þessa trausts þingsins hefir stjórnin ekki leitað og heldur ekki fengið. Ef um þessa vantraustsyfirlýsingu mína fer svo, að hún verði feld, eða ef traustsyfirlýsing til stjórnarinnar verður samþykt, þá er öðru máli að gegna, en hjer leggur stjórnin út í það að láta skipa sig, þótt hún viti það, að hún hefir ekki fengið neina traustsyfirlýsingu eða yfirlýstan þingvilja til þess, og megi telja víst, að meiri hl. hv. Nd. sje á móti henni. Finst mjer hæstv. stjórn því hafa farið út á mjög hála braut, og að hæstv. ráðherrar leggi ofurkapp á að komast í þessi sæti, með því að láta konung skipa sig án þess að hann viti um afstöðu flokkanna á þinginu. Jeg vil nú ekki öfunda hæstv. stjórn, ef endalokin á máli þessu yrðu þau, að stjórnin yrði valdskert og yrði að starfa áfram sem bráðabirgðastjórn, þrátt fyrir hina leynilegu skipun.

Jeg verð að taka því sem glensi, að jeg mundi þurfa að taka við störfum stjórnarforseta hjer, ef þessi vantraustsyfirlýsing verður samþykt, því að hæstv. ráðh. (JÞ) veit það, að á meðan hann og hans flokkur sjer um að halda við þeirri kjördæmaskipun hjer á landi, sem nú er, þá eru ekki líkindi til, að Alþýðuflokkurinn ráði stjórn landsins fyrst um sinn, hvað þá heldur jeg einn, enda þótt Alþýðuflokkurinn telji sjer skylt, þegar hæstv. stjórn ætlar að gera slíkar breytingar á ráðuneytinu, sem nú áttu fram að

fara, að láta fram koma þingúrskurð um það. Jeg get ekki verið sammála hæstv. forsrh. (JÞ) um það, að nægilegt sje fyrir stjórnina að hafa meiri hl. þings að baki sjer, þótt hún sje í minni hl. í Nd. Finst mjer mjög óeðlilegt af hæstv. fjrh. (JÞ) að halda því fram, að hann geti setið í trássi við hv. deild, og þrátt fyrir það haft fjármálastjórnina á hendi með aðalfjárveitingavaldið á móti sjer. En hjer er nokkru öðru máli að gegna, því ef atkvæðagreiðslan fer hjer eins og við er búist, þá sannast það, að hæstv. stjórn hafi ekki einu sinni meiri hl. Sþ. og sje í minni hl. hjer í deildinni. Er það sannarlega ekki glæsileg aðstaða, og mundi engin stjórn í heimi geta eftir það talið sig þingræðisstjórn.

Bæði hæstv. forsrh. (JÞ) og hæstv. atvrh. (MG) voru að fetta fingur út í það, sem jeg sagði, að mergur Íhaldsflokksins væri stóratvinnurekendumir. Mergur flokksins og tala kjósenda hans er sitt hvað, en þeim kjósendum, sem Íhaldsflokkurinn safnar að sjer, safnar hann fyrir atfylgi stóratvinnurekenda í landinu. Þeir leggja fram fje til blaða flokksins, kosta almennar kosningar og landskjör og annað þess háttar. Þeir, sem leggja til fjeð úr pyngju sinni, hljóta mestu að ráða um stefnu flokks þess, sem alt metur eftir peningum. Þetta sýnir best það, sem hæstv. ráðh. (JÞ) vildi ekki viðurkenna, að Íhaldsflokkurinn er í raun og veru stjettarflokkur, enda má þar benda á helstu áhugamál hans, svo sem ríkislögregluna, sem var ætluð til að halda niðri verkamönnum í kaupdeilum þeirra við atvinnurekendurna. Væru atvinnurekendur ekki öllu ráðandi um stefnu Íhaldsflokksins, mundi slíkt mál aldrei hafa getað orðið flokksmál hans. Hygg jeg, að hæstv. ráðh. (JÞ) geti ekki talið mörgum verkamönnum trú um það, að ríkislögreglan hafi verið ætluð til verndar þeim, enda hafa undirtektir verkalýðsins alstaðar á landinu um það mál verið nægilega ákveðnar.

Þá hlýtur það að hafa verið glens, sem hæstv. forsrh. (JÞ) sagði, að Íhaldsflokkurinn hefði meira af sjómönnum og verkamönnum meðal sinna kjósenda heldur en Alþýðuflokkurinn. Bæjarstjórnarkosningamar víða úti um land hafa nú um síðustu áramót sýnt fylgisleysi Íhaldsflokksins í kaupstöðum landsins.

Hæstv. forsrh. (JÞ) ætlaði svo að skjóta núverandi stjórn hjá þeirri ábyrgð, er leiðir af því, að forsætisráðherra er sjálfkjörinn formaður bankaráðs Íslandsbanka, og honum hefði því verið skylt að sjá um, að bankinn dreifði meira fjármagni sínu og áhættunni við útlánin heldur en gert hefir verið, eins og miljónatöp bankans á Vestfjörðum sýna. Jeg hygg samt, að fáir verði hrifnir af þeirri vörn hæstv. forsrh. (JÞ), því enda þótt hann hafi aðeins verið formaður bankaráðsins hálft ár, þá var á undan honum formaður bankaráðsins samherji hans og stjórnarbróðir, fyrv. forsætisráðherra. Öll stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á svo greinilegu stefnumáli, hvernig bankinn, sem er undir eftirliti stjórnarinnar, dreifir fjármagni sínu meðal landsmanna.

Hæstv. fjrh. (JÞ) vildi síðan kenna verkamönnum um það, að atvinnufyrirtækin á Vestfjörðum hefðu farið eins illa og raun er á orðin, með því að þeir hefðu gert of miklar kaupkröfur. Jeg veit ekki, hvernig verkalýðssamtök hafa felt fjelagið Andvara á Flateyri um koll, með þeirri miljón króna, sem þar fór í súginn. Þar á staðnum var ekkert verkamannafjelag. Sama er að segja um gjaldþrot verslananna á Bíldudal og Þingeyri, þar voru heldur engin verkalýðssamtök þá. Verkalýðsforkólfar voru heldur ekki þá á neinum þessara staða, því að hvernig geta verið verkalýðsforkólfar, þar sem engin verkalýðssamtök þekkjast og engir. verkalýðshreyfing er til. Það sýnir rökþrot hæstv. ráðh. (JÞ) að segja þetta. Á Ísafirði, þar sem verkalýðssamtök eru, er ekki hægt að segja, að tapið sje þeim að kenna, af þeirri ástæðu, að kaupgjald hefir ekki verið hærra þar en t. d. á Akureyri, þar sem ekkert slíkt hefir fyrir komið.

Þá kom hæstv. ráðh. (JÞ) að stöðvun útgerðarinnar á Ísafirði. Það er rjett, að nauðsyn hafi borið til að stöðva útgerðina að því leyti, að bátarnir skiftu um eigendur. Hæstv. ráðh. (JÞ) kom hjer með greinilega vantraustsyfirlýsingu á þá menn, sem höfðu stýrt þeim fyrirtækjum áður og verið aðalstuðningsmenn hans þar, og skal jeg síst bera blak af þeim. En slík eigendaskifti eru alt annað en að láta bátana liggja gersamlega kyrra og alt fólkið atvinnulaust. Það þurfti ekki mikla heilbrigða skynsemi til að sjá, að það væri atvinnubót að láta bátana ganga í þá 3–4 mánuði, sem vertíðin stendur yfir hjer syðra, til bráðabirgða, en nota þann tíma til þess að koma útgerðinni á fastan fót aftur. Mjer er ekki kunnugt annað en að Landsbankinn hafi sjálfur látið gera bátana út, og það hefði Íslandsbanki líka getað, í stað þess að spilla algerlega atvinnu fjölda manns, með því að láta bátana liggja kyrra. Hygg jeg, að hæstv. ráðh. (JÞ) hefði ekki þurft að láta benda sjer á þetta atriði, því að hann mun hafa vitað, að bankinn gat gert bátana út sjálfur. En þar kemur það til, að bankastjórinn var látinn ráða, og hann vildi ekki láta Ísfirðinga hafa atvinnu á bátunum, nje heldur við þann fisk, sem bátarnir öfluðu, og ekkert af þessu reyndi hæstv. ráðh. (JÞ) að hindra, svo að það lítur helst út fyrir, að hann sje mjög ánægður með að láta Ísfirðinga kenna á því, hvernig það er að vera í andstöðu við ráðandi stjett í landinu. Þótt hæstv. forsrh. og fjrh. (JÞ) geti gert útibússtjórann á Ísafirði ómerkan orða sinna, þar sem eru umsagnir hans um fjárhag bæjarins, þá getur þó hæstv. ráðh. (JÞ) aldrei gert hann ómerkan gerða sinna, að láta bátana liggja kyrra yfir hábjargræðistímann.

Þá finst mjer það mjög vesallegt hjá hæstv. ráðh. (JÞ), þegar hann er að kenna stjórn Landsbankans um alt pukrið við lántökuna, því að bankastjórnin mun ekki hafa tekið fram nema 1–2 atriði, sem hún óskaði að stæðu í lögunum, án þess að óska þess, að öðru væri leyndu haldið, enda hefði slík ósk ekki verið verjandi, þegar þjóðin átti að taka á sig ábyrgð vegna bankans. Þetta er sama aðferðin og miðlungi vandaðir menn nota stundum til þess að láta auðtrúa menn skrifa upp á óútfylta víxla fyrir sig. Þingið og þjóðin á að samþykja lánið, án þess að fá að vita nokkuð um kjörin fyrir því nje upphæðina.

Það sje fjarri mjer að segja það, enda hefi jeg líka tekið það fram áður, að jeg sje á móti því, að Íslandsbanki fái aukið rekstrarfje, en jeg er á móti því að láta mikinn hluta af lánstrausti landsins ganga yfir til Íslandsbanka, án þess að landið fái frekari ráð yfir honum en verið hefir og rannsakaður sje hagur hans, og því síður ef stjórnin ætlar að nota bankann til þess að hefna sín á pólitískum andstæðingum sínum í sumum landshlutum.

Það er með öllu rangt hjá hæstv. fjrh. (JÞ), að jeg hafi sagt, að mikið væri selt af ótolluðu tóbaki í Reykjavík. Mjer er ókunnugt um það og tel tollgæsluna hjer að ýmsu leyti góða. En jeg sagði, að það ætti sjer stað víða úti um land, enda hafa ferðamenn orðið þess varir. Jeg vænti þess að geta gefið honum nánari upplýsingar um þetta, en álít samt, að hann ætti frekar að snúa sjer til lögreglustjóranna heldur en til mín. Og jeg kalla það ekki að hylma yfir lögbrot að skýra frá þessu hjer á þingi. Hinu gat jeg ekki trúað, að hann vissi ekki um þetta, en það sýnir ekki annað en það, að hann fylgist ekkert með því, sem gerist í landinu, þó að það heyri undir verksvið hans.

Þá gat hæstv. fjrh. (JÞ) þess, að jeg hefði vítt það eftirlit, sem væri falið í tollmerkingu tóbaksins. Jeg sagði, að jeg áliti betra að verja öllu þessu fje, sem jeg geng út frá, að sje milli 40 og 50 þús. kr., til þess að senda menn kringum landið til eftirlits, heldur en að láta menn og stúlkur sitja við að líma þessa miða á pakkana. Þar sem tollgæsla á að vera í skipunum hjer í Reykjavík, þá er þessum peningum fleygt í sjóinn. Hitt varð hæstv. fjrh. að viðurkenna, að þessari tollmerkingu væri ábótavant, og það sýnir, hve mikið „humbug“ hún er, þegar kaupmenn fá tollmerkinguna sjálfir í sínar hendur alveg eftirlitslaust.

Þá var heldur barnaleg skýring hæstv. ráðh. á tollinum á vindlum og vindlingum. Vindlar eru tollaðir eftir nettóþunga þeirra, en vindlingar eftir þunga, að meðtöldum umbúðum þeim, sem þeir seljast í.

Hann gat þess, að skýrslur vantaði erlendis frá um þungann. En það er ekkert auðveldara en að fá þær, og raunar eru engar skýrslur á reikningum verksmiðjanna til um tollþunga eins og hann er reiknaður hjer á vindlingum. Þótt slíkar skýrslur kæmu, væru þær varla öruggar, en einföld leið er þá að vega tóbakið, eins og gert er hjer í bæ, fá smámsaman reynslu og reikna svo sömu tegund eins alstaðar. En að fara að tolla það með vörutolli kæmi vitanlega ekki til mála.

Hæstv. atvrh. (MG) gat þess, að jeg hefði lent í deilu við bæjarfógetann í Vestmannaeyjum út af tollmerkingunni. En sú deila sýnir, hve mikið handahóf er hjá umboðsmönnum stjórnarinnar og hjá henni sjálfri í þessum málum.

Í Vestmannaeyjum hefir bæjarfógetinn tekið vigt af vindlingum eftir þyngd á innkaupsreikningunum, en á þeim er reiknuð nettóþyngd. Þannig mun hann ekki hafa innheimt nema 2/3 af því, sem honum bar að innheimta. Þetta munar mörgum þús. kr. þar á staðnum. Jeg hringdi bæjarfógetann upp, en hann gat engar upplýsingar gefið. Þá fór hann að athuga lögin og fór að vega tóbakið og tók þá meiri þyngd. En jeg lenti í deilu við hann út af því, að mjer þótti undarlegt, að það skyldi vera önnur þyngd en löng reynsla hefir sýnt hjer í Reykjavík. En þarna frelsaði jeg mikla peninga handa ríkissjóði.

Í sambandi við þetta vil jeg svo geta þess, að bæjarfógeti hefir gefið 2–3 mánaða gjaldfrest á tolli, sem verslanir hafa átt að greiða í ríkissjóð. Og jeg held, að svo sje víðar. Þetta getur verið áhætta fyrir ríkissjóð og vaxtatap, auk þess misrjettis, sem verður á milli þeirra, sem flytja inn tollvörur úti um land, og þeirra, sem flytja inn hjer í Reykjavík.

En ókunnugleiki hæstv. ráðh. á þessu máli öllu sýnir, hve lítið ant honum er um störf sín og hve lítið skynbragð hann ber á þessi tollmál.

Það er gleðilegt að heyra, ef eftirstöðvarnar á Bíldudal koma inn. En eftir landsreikningi virðast þær hafa verið tapaðar. Annars hefir hæstv. ráðh. viðurkent, að þetta fyrirkomulag geti haft stórtap fyrir ríkissjóð í för með sjer, og mun áður hafa haft það.

Það má þá benda á aths. endurskoðenda landsreikninganna viðvíkjandi eftirstöðvum af ógreiddum ríkissjóðstekjum í Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem nema á annað hundrað þús. kr. Það virðist svo, sem að minsta kosti töluverður hluti þessara ógreiddu og ófáanlegu eftirstöðva stafi af slælegri innheimtu og eftirlitsleysi hæstv. stjórnar.

Þá kom hæstv. ráðh. að því, að sýslumennirnir hafi skipað umboðsmenn stjórnarinnar á hinum ýmsu stöðum úti um land. Jeg fann ekki að því, að þess gæti ekki verið þörf, heldur að því, að skipaðir hafa verið umboðsmenn yfirleitt stærstu verslanirnar á stöðunum, en þær eru ekki vel til fallnir umboðsmenn, ekki síst þar, sem samkepni er milli þeirra og annara verslana. Jeg sje ekki, að stjórnin hafi ráðið nokkra bót á þessu máli, enda þótt oft hafi verið yfir því kvartað.

Það er gleðilegt, ef stjórnin hefir gert sitt til þess að flýta málum meir en áður, með því að senda eftirlitsmenn út til sýslumannanna. En þeir, sem eiga kröfur í búum, verða lítið varir við það, enda liggja þær tugum saman, sumar margra ára gamlar. Og þar sem hæstv. ráðh. gat þess, að erfitt væri að koma búunum í verð, þá er það ekki þess vegna, að menn fá ekki kröfur sínar, því að meiri hluti þeirra innheimtist án dráttar, þar sem lítið er um fasteignir. Það er ekki nema ca. 10% af kröfunum, sem þarf að draga að greiða, til að koma eignunum í verð, og gætu skuldheimtumenn þó fengið nokkuð upp í kröfur sínar smámsaman.

Þótt eftirlitsmennirnir hafi sent skýrslur til stjórnarinnar, þá hefir ekki sýnt sig, að þær skýrslur rjeðu bót á þessu sleifarlagi.

Þá ætla jeg að snúa mjer að hæstv. atvrh. (MG). Það er misskilningur hjá honum, að ástæðan til vantraustsins sje sú, að hann hafi óskað eftir því. En jeg vildi láta þessa getið til að sýna, að hann þyrfti ekki að undrast, þótt það kæmi fram. Hann áleit, að mergur Íhaldsflokksins, stórútgerðarmennirnir, gætu skift jafnvel tugum þúsunda. Jeg efa, að íhaldsmenn skifti tugum þúsunda í landinu, hvað þá heldur ráðandi stjettin innan þess flokks, stórútgerðarmennirnir. Hæstv. ráðh. fór áreiðanlega út fyrir landssteinana, því að menn hafa ekki orðið varir við allan þann fjölda íhaldsmanna hjer á landi.

Mig undrar ekkert, þótt stjórnin hafi framkvæmt það, sem samþ. hefir verið hjer í þinginu, en jeg get hugsað, að hæstv. ráðh. hefði kannske viljað brjóta lögin um þau atriði sem önnur. En það er ekki nema eðlilegt, að hún gerði það ekki.

Fyrir utan löggjafarsviðið hefir stjórnin reynt að fara með löndum fram. Jeg ávíta hana ekki fyrir það að láta opinberar framkvæmdir verða eftir fjárlögunum, heldur fyrir þau atriði, þar sem vilji sjálfrar stjórnarinnar ræður gerðum hennar, úlfurinn kemur fram úr sauðargærunni.

Það er líka rangt, að jeg geti aðeins fundið tvö atriði vítaverð hjá hæstv. atvrh. (MG). Jeg get rakið þannig allan feril hans og skal bæta við öðrum tveimur málum.

Jeg sný mjer þá fyrst að þeim málum, sem stjórninni eiga að vera kærust, hermálunum, og þá fyrst og fremst sjóhernum.

Það er kunnugt, að hæstv. ráðh. ljet sjá um byggingu strandvarnaskipsins „Óðins“, og það var eytt svo miklum peningum í það skip, að þess hefði mátt vænta, að verulega vandað skip fengist fyrir það. Hæstv. ráðh. hafði svo marga ráðunauta og eftirlitsmenn sjer við hlið, að átt hefði að duga. Samið var við Flydedokken, enda þótt hennar tilboð væri ekki það lægsta — og það hefir engin skýring fengist á því, hvers vegna ekki var tekið lægsta tilboði. Þegar svo skipið kemur, verður reynslan sú, að það er talið ósjófært af dómbærum mönnum, og það jafnvel svo, að háskalegt sje fyrir skipverjana að sigla á því. Norður fyrir Siglufirði kemur það eitt sinn fyrir s. l. sumar, að skipið legst alveg á hliðina og getur ekki rjett sig, öðruvísi en hásetamir velti kolunum úr einni hlið skipsins í aðra. Það var hreinasta mildi, að skipið fórst ekki með allri áhöfn, og hefði skipið lent í vondu veðri og hrept brotsjói, má telja öldungis víst, að það hefði farist. Þessi dugnaður hæstv. atvrh. endar svo með því, að taka verður skipið frá þeirri ónógu strandgæslu, sem fyrir var, og senda það til Kaupmannahafnar til aðgerðar. Það er nú fyrst og fremst undarlegt, að ekki skyldi vera hægt að sjá um, að skipið væri sæmilega bygt, og í öðru lagi er undarlegt, að það skyldi vera látið fara leiðsögulaust til Khafnar, þegar kunnugt var orðið, hvernig það var. Hæstv. ráðh. gat búist við því, að það færist á leiðinni, ef það hrepti vont veður. Hvernig hefði þá farið með samvisku hæstv. ráðh.?

Svo liggur Óðinn þrjá mánuði í Khöfn. Það er svo gert við hann. Þótt Flydedokken verði að borga mikið af viðgerðarkostnaðinum, verður stjórnin samt að borga 8 þús. kr. Skipið er frá strandgæslunni allan þennan tíma, svo bætist þar við tímatöfin, mannakaup, fæði, vextir o. fl., og alt þetta er fyrir eftirlitsleysi hæstv. ráðh. við skipssmíðina. Hann ber fyllilega ábyrgð á því, hvernig þetta tókst til.

Þegar skipið loksins kemur heim aftur, er sagt, að það sje alls ekki gott, enda ekki við því að búast, þegar farið er að umsmíða skip, að þau verði góð sjóskip. Þá má tala um það, hvernig Óðinn hefir starfað síðan hann kom heim. Í janúar–mars hefir verið fult af togurum í landhelgi við Öndverðarnes. Þeir hafa verið á nýjum togaramiðum, sem liggja á takmörkum landhelgislínunnar, og togað bæði fyrir innan hana og utan.

Þótt landsstjórnin hafi hlotið að vita um alt þetta, sem öll Reykjavík veit um, hefir hún ekkert aðhafst. Þess má geta, að þessi mið eru afarmikilsverð vegna þess, að þau eru hrygningarsvæði, að áliti skipstjóranna. Ef togurum er leyft að vera á þessum miðum í landhelgi, þá eyðileggur það ekki aðeins fiskiveiðar þar, heldur líka fiskigöngurnar til miða við Breiðafjörð og Faxaflóa, þar sem bátar veiða. Smáútgerðin er því í veði á þessum slóðum. Strandvarnarskipið virðist ekki hafa gert mikið til að hindra þessi tíðu landhelgisbrot, og enginn íslenski togarinn hefir verið tekinn þarna. Svo hefir strandvarnarskipið farið mjög vægilega að við innlenda togara. En sagt er jafnvel, að Óðinn hafi í marsmánuði komið hjá Lónsdröngum þar vestra, og er hann sást þar, hafi verið að veiðum í landhelgi á miðunum hjá Öndverðanesi um 20 togarar, aðallega íslenskir, sem hafi flýtt sjer út úr landhelginni, en Óðinn engan tekið. Hið einasta, er strandvarnarskipið hafi aðhafst, hafi verið að hleypa af viðvörunarskoti án þess að sekta þá. (Atvrh. MG: Vill ekki hv. þm. segja, hvaðan hann hefir þetta). Jeg tel, að hæstv. atvrh. (MG) hljóti að vita þetta sem sjómálaráðh. Þetta eftirlitsleysi við Snæfellsnes er vítavert. Hæstv. forseti Ed. (HSteins) hefir borið hið sama og jeg nú hefi gert um landhelgisbrot íslensku togaranna þar vestra.

Þá vil jeg benda á skipið „Stefni“. Hæstv. atvrh. (MG) hefir lánað 15 þús. kr. úr fiskiveiðasjóði út á það skip, þótt skrifstofustjóri hans neitaði að undirskrifa lánið. En síðan hefir komið á daginn, að sjóðurinn hefir látið leggja sjer út skipið, eftir að á það voru fallin svo mikil sjóveð, að víst er, að alt þetta fje sje farið forgörðum. Jeg vil benda á það, að lánið út á þetta skip fekst fyrir milligöngu flokksmanns hæstv. ráðh., og því er óviðkunnanlegt, hversu farið hefir með það.

Þá vil jeg aðeins með nokkrum orðum svara svörum hæstv. atvrh. (MG) um útvarpið. Hann gat þess, að sjerleyfið hefði ekki verið veitt fyr en 100 þús. kr. hlutafje hafi verið trygt. En með lögunum er ætlast til, að innborgað hlutafje hefði átt að vera 100 þús. kr. áður en leyfið hefði verið veitt, og því hefir hæstv. ráðh. farið þarna á snið við lögin. Eins getur hæstv. ráðh. ekki komist fram hjá því, að stöðin átti samkvæmt lögunum að draga um land alt. En hæstv. ráðh. hefir veitt sjerleyfið fjelagi, er ekki gat uppfylt þá skyldu. Hann hlýtur því sjálfur að viðurkenna, að hann hafi farið þarna á snið við lögin. Þá gat hæstv. ráðh. þess, að ekki hefði verið hægt að hafa lægra stofngjald vegna þess, hve fjelagið væri fátækt. En fyrir hverja er nú útvarpsfjelagið? Er það fyrir hluthafana í útvarpsfjelaginu eða notendurna, almenning? Þingið ætlaðist auðvitað til, að það væri fyrir notendurna, og þá átti stofngjaldið ekki að vera svo hátt, að almenningur gæti ekki notað útvarpið. Þingið lagði áherslu á, að fjelagið hefði ekki einkasölu á tækjum, en þá einkasölu hefir fjelagið í raun og veru. þegar stofngjaldið er svona hátt, en fjelagið borgar ekkert stofngjald af tækjum, er það selur. Þá spurði hæstv. ráðh., hvernig ætti að hafa eftirlit með uppsetningu tækjanna. En hvers vegna spyr hann mig? Hann hefir hingað til ekki spurt mig viðvíkjandi stjórnarathöfnum. Mjer fyndust engir erfiðleikar á því að láta landssímastjóra hafa þetta eftirlit á hendi og hafa gjaldið á tækjunum uppsettum eins og lög mæla fyrir. En það er engin heimild í lögunum til þess að banna einstökum mönnum að flytja inn tæki nema með leyfi landssímastjóra og selja þau án þess að leyfi hans komi til. Þegar fjelagið tekur hátt stofngjald, þá má því síður banna viðskifti í þessu efni með hömlum á versluninni með tækin. Hæstv. ráðh. kemst ekki fram hjá því, að hann hafi hvergi lagaheimild til að gefa út slíka reglugerð. Og þótt honum persónulega hafi þótt, að eitt og annað hefði öðruvísi átt að vera í heimildarlögunum, þá bar honum skylda til að fylgja lögunum. Hjer á að vera þingræðisstjórn, en ekki Mussolinisstjórn Fascista.

Hæstv. ráðh. segir, að lagt hafi verið gjald á varahluti til að ljetta undir samsetningu nýrra útvarpstækja. En þetta gjald hefir líka verið sett á þá varahluti, sem fara eiga í gömul tæki, og greiða notendur því oft sama stofngjald. Hæstv. ráðh. gat þess, að þetta hafi verið gert til þess að ljetta undir með fjelaginu. En nú voru ákveðin skilyrði sett fjelaginu, og frá þeim mátti ekki víkja. Gæti nú fjelagið ekki uppfylt þessi skilyrði, hefði átt að koma með málið fyrir þingið og þá veita öðru fjelagi þetta sjerleyfi, ef hitt gat ekki uppfylt sett skilyrði, eða ríkið að taka útvarpið í sínar hendur.

Þá gat hæstv. ráðh. þess, að Ólafur Friðriksson hefði talað í útvarpið, og hefi jeg ekkert út á það að setja. En hitt er víst, að það hefir ekki verið pólitísk ræða, og hefir enginn andstæðingur íhaldsstjórnarinnar enn fengið leyfi til að halda pólitíska ræðu, er varpað væri út, en það er leyft hæstv. fjrh. (JÞ), og pólitískum slettum úr dagbók Morgunblaðsins er útvarpað.

Þótt hæstv. atvrh. (MG) finnist lítið til um það að ganga á móti lögum landsins, þá finst öðrum, að sjálfur dómsmálaráðherrann eigi ekki að ganga á undan með slíkt.

Þá gat hæstv. atvrh. þess, að vantraust mitt væri bygt m. a. á frv. um siglingalögin. Jeg hefi auðvitað meðfram fylsta vantraust á stjórninni þess vegna, en lýsti ekki vantraustinu í þetta sinn vegna frumvarpsins, heldur forsögu þess máls, lagabrota hæstv. atvrh. (MG). Jeg vítti það að vísu, að stjórnin vildi láta menn, sem ekki hafa. næga þekkingu og sjóferðatíma til að stjórna skipi, fá undanþágu til þess, þar sem til eru á 5. hundrað manns sem hafa fullkomin rjettindi til þess. En aðalatriðið er, að stjórnin hefir brotið lög með þessum undanþágum, sem hún hefir veitt, þar sem engin lög heimila þær, og hefir hann hjer enn að nýju sett sig yfir lögin og brotið þingræðið.

Það má í þessu sambandi benda á það, hvernig hæstv. ráðh. tók í það, að stúdentaefni frá Akureyrarskóla fengju að taka próf fyrir norðan og síðan að innritast hjer við háskólann. Þar mátti ekki víkja frá venjum, jafnvel þótt hægt væri að gera það löglega með reglugerð fyrir Akureyrarskóla. Það virðist því ekki sitja á hæstv. ráðh. að vilja veita þessa undanþágu, þar sem þó er miklu meira í húfi, jafnvel mannslíf.

Þá gat hæstv. ráðh. þess, að líka væru veittar undanþágur fyrir vjelstjóra á mótorskipum. En hvernig eru þær í framkvæmdinni? Það er rjett að geta þess, að þær eru hreinasta hneyksli. Samkvæmt lögum á að greiða 10 kr. fyrir undanþágu, en Gísli Jónsson og Ólafur Sveinsson taka 50 kr. af hverjum manni. Hvert rennur mismunurinn? Þetta er líka gert undir handarjaðri hæstv. ráðh. (MG). Svona mundi fara um aðrar undanþágur, sem hæstv. ráðh. veitti. Gæðingar stjórnarinnar mundu væntanlega fá þær til meðferðar og ekki tapa á því, frekar en þeir Gísli Jónsson og Ólafur Sveinsson.

Hæstv. atvrh. (MG) gat þess, að jeg vildi draga útgerðina niður í skítinn. En jeg veit ekki til, að hann kæmi fram með nein rök fyrir því. Mjer finst það ekki vera að draga útgerðina niður í skítinn, eins og hann komst svo fagurlega að orði, þó að maður vilji fá sem hæfasta menn til þess að fara með skipin. Hæstv. atvrh. (MG) gerir sjálfur sitt til í því efni með því að leyfa þekkingarlausum mönnum að fara með stór skip, fylgismönnum hans. Fullfærir menn í þessum efnum voru fyrir hendi og gátu tekið að sjer þessi störf fyrirvaralaust eða fyrirvaralítið, þar sem þeir voru ýmist hásetar á skipum hjer, er gátu farið í land hvenær sem var, eða með öllu atvinnulausir. Hæstv. atvrh. (MG) hefir nú líka viðurkent að hafa farið á fremsta hlunn með þessar undanþágur. En hann bætti því við, að hann hefði gert það vegna atvinnuveganna. Hann hefði þó átt að vita það, að jafnvel þótt einhver útgerðarmaðurinn hafi haft gagn af því, þá mátti hann samt ekki gerast svo djarfur að breyta gegn landsins eigin lögum. Jeg veit auðvitað, að hæstv. atvrh. (MG) verður ekki dreginn fyrir landsdóm, hvað svo sem undanþágunum líður, þó að ætti að gera það, en hann er sekur þrátt fyrir það.

Jeg hygg, að jeg hafi nú svarað flestu af því, sem hæstv. ráðh. (JÞ og MG) hafa komið fram með til andsvara. Þeir hafa viðurkent, að flest af því, sem jeg sagði, væri rjett, og hæstv. atvrh. (MG) hefir jafnvel ekki borið á móti því að hafa framið lagabrot í embættisrekstri sínum. Öfunda jeg ekki þann stjórnmálaflokk nje þá þingmenn, sem vilja verja gerðir slíkrar stjórnar.