29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (3203)

100. mál, landsstjórn

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. flm. (HjV) hefir fundið, að það var lítið, sem hann gat tínt til af ásökunum á hendur stjórninni í fyrri ræðu sinni, og nú hefir hann því bætt við 2 atriðum, sem sjerstaklega snerta mig. Áður en jeg vík að þessum atriðum ætla jeg að svara hv. flm. (HjV) nokkrum orðum út af því, sem hann vjek að viðvíkjandi fyrri ræðu minni. Hv. þm. (HjV) spurði mig, hvort jeg neitaði því, að það væru ríku mennirnir, sem legðu fje í blöð íhaldsflokksins. Finst hv. þm. (HjV) sanngjarnara, að hinir fátæku geri það? Getur hann ekki reiknað það út, að það komi ljettara niður, ef efnaðri mennirnir gera það. En annars hjelt jeg, að efnamennirnir væru ekkert verri menn en hinir, og sá flokkur, sem við þá styðst, því ekkert verri en sá, sem styðst við hina efnaminni.

Hvað framkvæmdir stjórnarinnar snertir, þá viðurkendi hv. þm. (HjV), að þær væru miklar, en hann hafði þau orð um þær, að stjórnin færi þar með löndum fram, sem líklegast á að þýða það, að stjórnin fari varlega. Í munni stjórnarandstæðinga þýðir það hið sama og að stjórnin gefi lítinn höggstað á sjer. Jeg skal játa það, að hv. þm. (HjV) sýnir í þessu meiri hreinskilni en jeg hafði búist við úr þeirri átt.

Út af ummælum hans um útvarpsmálið, þá sje jeg ekki ástæðu til að segja margt. Hann getur ekki ásakað stjórnina, þó að honum líki ekki það, sem varpað er út. Stjórnin hefir ekki sjeð ástæðu til þess að taka fram fyrir hendur fjelagsstjórnarinnar í því efni. Þó að hv. þm. (HjV) vilji halda því fram, að fjelaginu sje illa stjórnað, þá skal jeg benda honum á það, að fyrir fyrirtækinu stendur sami maður, sem hv. þm. (HjV) fekk til þess að hjálpa sjer til að koma á stofn því stóra fyrirtæki, sem hann nú veitir forstöðu. Ef hann hefir verið góður þá, þá ætti hann alveg eins að vera góður nú. Jeg hjelt, að hv. þm. (HjV) gæti skilið það, að það er ekki hægt annað en að skattleggja varahluti til útvarpstækja, því annars væri hægt að fara í kringum lögin með því að fá hlutina sjerstaka og setja þá síðan saman. Annars er það um útvarpsfjelagið að segja, að það hefir verið mjög örðugt að koma því á stofn vegna þess, hve erfitt hefir verið að fá menn til þess að leggja fje í það, og hvað hv. 4. þm. Reykv. (HjV) snertir, þá hygg jeg, að hann hafi ekki lagt einn eyri í það.

Út af því, sem hv. þm. (HjV) sagði um undanþágu þá, er jeg veitti frá siglingalögunum, þá hefi jeg engu við að bæta.

Hv. þm. (HjV) mintist á 17. gr. háskólalaganna, sem rætt var um hjer fyrir nokkrum dögum. Jeg skal aðeins geta þess, að hv. þm. (HjV) var þá í því máli ekki hræddur við að ganga á móti skilningi lögfræðinga á þeim lögum. Þá vildi hann ótrauður brjóta lögin, þó að hann vilji það ekki nú, hvað undanþáguna snertir.

Þá beindi hv. þm. (HjV) þeirri spurningu til mín, hvort það væri satt, að tveir menn, sem hann nafngreindi, þeir Gísli Jónsson og Ólafur Sveinsson vjelfræðingar, tækju 50 kr. fyrir það að veita undanþáguleyfi fyrir vjelstjóra, en skiluðu ekki nema 10 kr. hinu opinbera. Mjer er alveg ókunnugt um það, en jeg skal spyrja mennina um hið sanna í þessu máli. En hv. þm. (HjV) getur ekki ætlast til þess, að jeg viti um allar peningagreiðslur manna á milli í þessum bæ.

Þá mintist hv. þm. (HjV) á smíðina á „Óðni“ og áleit þar illa að farið af hálfu stjórnarinnar. Jeg á hjer hlut að máli, þann, að jeg samdi um smíðina á þessu skipi. En hv. þm. (HjV) ætti að vita það, að samningarnir voru svo tryggir, að hægt var að láta skipasmíðastöðina bera ábyrgð á þeim göllum, sem fram komu á smíði skipsins. Mjer finst ósanngirnin vera komin á nokkuð hátt stig hjá hv. þm. (HjV), ef hann ætlast til þess, að ráðherra geti staðið yfir byggingu skips og athugað smíðagalla á því. Auk þess stóð smíðin á skipinu yfir um þingtímann, og jeg hygg, að mönnum hefði ekki þótt það viðeigandi, að jeg væri úti í Danmörku allan tímann. Mitt verk var að búa til samninginn. Ef skipið reyndist ekki samkvæmt samningnum, þá var að vita, hvort samningurinn var svo tryggur, að hægt væri að setja skipasmíðastöðinni stólinn fyrir dyrnar. Og það hefir nú sýnt sig, að þetta var hægt. Af ráðherranum var ekki hægt að heimta meira. Auk þess varð afleiðingin af smíðisgallanum sú, að við fengum skipið lengt svo án endurgjalds, að það mundi hafa kostað 50–70 þús. kr. meira, ef það hefði átt að vera svo í upphafi. Fyrir það, hve samningamir voru tryggir og vel gerðir, fengum við betra og ódýrara skip en við hefðum fengið, ef það hefði verið eins og ætlast var til í upphafi.

Jeg öfunda hv. þm. (HjV) ekki af því að hafa komið hjer fram með vantraust á stjórnina, en hafa ekki af meiru að taka en raun hefir orðið á.

Hv. þm. (HjV) sagði, að með því að taka skipið um langan tíma frá strandgæslunni, þá hefði eyðst mikið fje auk þess, sem mikið fje hefði farið í ferðir skipsins fram og aftur milli landa. En þessu er því til að svara, að skipið hefði þurft að fara til Danmerkur hvort eð var, því að svo var ákveðið, að skipið ætti að reyna í 6 mánuði, en að þeim liðnum ætti það að koma aftur til skipasmíðastöðvarinnar til þess að hún gæti litið á væntanlega galla. Er þetta fastur siður um kaup skipa. Það er nú einu sinni svo með skip, að það koma oft fram á þeim smíðagallar, er frá líður, og þess vegna var ákveðinn þessi 6 mánaða reynslutími. Hv. flm. (HjV) gerði meira úr göllum skipsins en rjett er, þar sem hann hjelt því fram, að það hefði verið að stofna lífi manna í hættu að senda það til Kaupmannahafnar. En hann getur ekki haft betra vit á því en skipstjórinn, sem verið hafði með skipið í 5½ mánuð. En hann áleit það hættulaust. Það, sem vantaði til þess að gera skipið stöðugt, var ekki annað en lítilsháttar kjölfesta. Það er nú svo, að við höfum ekki enn þá tekið endanlega við skipinu, þar eð það á eftir að reynast í 6 mánuði enn. Og enn þá hefir ekkert verið greitt fyrir skipið. Það verður ekki gert fyr en það hefir fyllilega sýnt sig, að skipið sje gott. Hv. þm. (HjV) segir, að skipið sje ekki gott, en skipstjórinn hefir sagt mjer, að enn þá hafi ekkert það komið í ljós, er beri vott um, að það sje ekki gott. Jeg vil því leyfa mjer að spyrja hv. flm. (HjV) um það, hver hafi sagt honum það, að skipið sje ekki gott? Jeg hefi fyrir mjer sögusögn skipstjórans. Hverra sögusögn hefir hann?

Hv. þm. ljet mikið yfir því, að togararnir væru í landhelgi, og sagði, að varðskipið, mjer skildist það eiga að vera Óðinn, skeytti ekki um að sekta þá, ljeti sjer nægja með að aðvara þá og ræki þá hópum saman út úr landhelginni. Hann sagði áðan: Það er sagt, að þetta sje svona. Jeg spurði hann þá: Hverjir segja þetta? En hann svaraði því ekki þá. Nú vil jeg spyrja hann í heyranda hljóði: Hverjir segja þetta? Ef hann ekki svarar þessu, þá verð jeg að álíta þetta eins og hverja aðra Gróusögu, sem hann ber hjer fram. Þetta er ljótur áburður á skipstjórann á Óðni. Þó hv. þm. sitji hjer í þinghelgi, þá má hann ekki misbrúka hana svona herfilega gagnvart manni, sem ekki getur borið hönd fyrir höfuð sjer. Jeg bíð eftir því, að hv. þm. sanni, að hann sje ekki hjer að bera slúðursögur inn í deildina. Þegar hann hefir nefnt heimildir sínar, þá verður gerð gangskör að því að fá að vita hið sanna í þessu efni. Jeg hjelt, að hv. þm. væri svo viti borinn, að hann vissi, að stjórnin getur ekki verið um borð í varðskipunum og sagt fyrir um það, hvaða togara þau eigi að taka. Hún getur aðeins gefið þeim fyrirskipanir um, hvar þau eigi að vera. Hér er því að ræða um áburð á skipstjórana, en ekki á stjórnina. Það eru skipstjórarnir, sem svíkja skyldu sína, ef þetta væri rjett.

Annað mál, sem hv. þm. mintist á, var lán úr fiskiveiðasjóði út á skipið „Stefni“. Það er rjett, að eitthvað mun tapast á því láni, jeg veit ekki, hve mikið, því að skipið er óselt enn. Það er vitleysa ein, að skrifstofustjórinn hafi neitað að skrifa undir þessa lánveitingu. Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem fiskiveiðasjóðurinn tapar á lánveitingum. Slíkt getur altaf komið fyrir, og það vil jeg segja hv. þm., að jeg þori óhikað að bera þessa lánveitingu saman við lán þau, sem hann hefir veitt sem opinber starfsmaður við Landsverslunina.

Jeg gleymdi áðan að taka það fram viðvíkjandi útvarpinu, að það er rjett, að stöðin dregur ekki um alt land. En þess er þá fyrst að geta, að það er vafasamt, hvort hægt er að fá slíka stöð, og í öðru lagi er þessi stöð aðeins til reynslu. Þá spurði hann, fyrir hvern útvarpið væri. Útvarpið er fyrir allan almenning. En getur hv. þm. heimtað það, að fáeinir menn hugsi svo mikið um almenning í þessu efni, að þeir leggi fram stórfje í þetta fyrirtæki. Því að það er fyrst þegar nægilegt fje er fyrir hendi, að hægt er að gera háar kröfur. Jeg hugsa, að hann sjálfur hafi ekki lagt svo mikið fje fram, að hann geti djarft úr flokki talað. Þá sagði hann, að landssímastjóri ætti að hafa eftirlit með því, hverjir fengju sjer tæki. Hvernig á hann að geta haft slíkt eftirlit? Það er ekki hægt að vita, hverjir fá sjer útvarpstæki, nema haft sje eftirlit með innflutningnum. Á annan hátt er ekki hægt að vita, hvort menn austur á Síðu eða norður á Melrakkasljettu fá sjer tæki. Þá sagði hv. þm., að jeg hefði ekki borið á móti því, að jeg hefði brotið lögin, og leiddi af því, að jeg hefði játað það. Jeg veit ekki, hvort aðrir hv. þdm. hafa skilið mig á þennan hátt, en hitt veit jeg, að hv. 4. þm. Reykv. (HjV) tók svo vel eftir orðum mínum, að hann hefir engan rjett til þess að leiða þetta út af þeim.

Þá mun það ekki vera fleira, sem jeg þarf að svara að svo stöddu.