29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (3205)

100. mál, landsstjórn

Þorleifur Jónsson:

Jeg skal byrja með að gleðja hv. deild á því, að jeg skal ekki lengja mjög þær umræður, sem hjer hafa farið fram. Jeg ætla ekki að gefa mig neitt í þær miklu deilur, sem hjer hafa átt sjer stað milli hæstv. stjórnar og hv. flm. (HjV). En jeg og nokkrir fleiri hv. þm. höfum borið fram brtt. á þskj. 273 við þáltill. hv. 4. þm. Reykv. (HjV), og fyrir henni ætla jeg að mæla nokkur orð. Þó að jeg og aðrir Framsóknarmenn berum nú fram þessa till., þá er það ekki af því, að okkur hafi aukist traust til hæstv. stjórnar í seinni tíð. Það er öllum kunnugt, að svo mikið skilur á milli flokkanna, að ekki er líklegt, að það falli strax niður, og það eru svo merk stefnumál, að okkur er ómögulegt að votta hæstv. stjórn fylgi okkar, meðan þau eru á dagskrá. En hinsvegar verður að taka tillit til ákaflega margs, jafnvel frá sjónarmiði stjórnarandstæðinga, þegar svona mál koma upp, hvort samþykkja eigi vantraustsyfirlýsingu eða ekki.

Það er fyrst og fremst helgasta skylda hvers þings og stjórar að gæta þess, að þingræðinu sje ekki traðkað, og það má ekki eiga sjer stað, að stjórn sitji við völd til langframa, án þess að hafa fylgi meiri hl. þings. Um núverandi landsstjórn er það kunnugt, að hún er í minni hl. í neðri deild, og í sameinuðu þingi hefir hún aðeins helming atkvæða, er því ekki meiri hluta stjórn. Aftur á móti er það fyrirfram vitanlegt, að þótt hæstv. núv. landsstjórn vildi beiðast lausnar, yrði ekki hægt að mynda nýja meiri hluta stjórn á þessu þingi. Þannig er alt komið í sjálfheldu, og slíkt má ekki lengi eiga sjer stað. Ef kosningar stæðu ekki fyrir dyrum, áliti jeg það því skyldu hæstv. stjórnar að rjúfa þing og sjá, hvort ekki rættist úr við nýjar kosningar. En þar sem nú á að kjósa í sumar hvort sem er, er það álit okkar Framsóknarmanna, að við þetta ástand verði að una um sinn, og þessi stjórn verði að halda áfram að gegna nauðsynlegum stjórnarstörfum þar til kosningar skera úr.

Vantrauststillagan er ekki fram komin frá Framsóknarmönnum, og enginn þeirra hefir svo að jeg viti til hvatt til þess, að hún kæmi fram. Flokknum er því enginn vandi á höndum um þessa till. hvað það snertir, enda þótt hann hefði að sjálfsögðu verið vantrausti fylgjandi, ef hann hefði álitið, að hægt væri að mynda aðra stjórn á þessu þingi.

Hæstv. forsrh. (JÞ) lýsti því á öndverðu þessu þingi, að íhaldsflokkurinn hefði tilnefnt hann sem forsætisráðh. og að hann mundi leggja það til við konung, að hann yrði skipaður í það embætti, ef ekki væri mótmælt á þinglegan hátt. Framsóknarflokkurinn hefir nú ekki látið þetta til sín taka og ekki þótt það skifta miklu máli. Nú hefir hæstv. forsrh. (JÞ) lýst yfir því, að honum hafi þótt rjett að leggja til við konung, að hann undirskrifaði skipunarbrjefið. Jeg vil nú ekki fara að mótmæla þessu, en þótt landskjörið í haust hafi sýnt nokkum meiri hluta hjá íhaldsmönnum, þá sýnir það engan veginn, að það sje þingræðisstjórn, sem nú situr við völd.

Till. sú, sem við 5 þm. flytjum, er ljós og greinileg, og þarf ekki að eyða mörgum orðum til að skýra hana. Við viljum með henni slá því föstu, að slíkri stjórn, sem nú situr og ekki er meiri hluta stjórn, sje fyrst og fremst ætlað að framkvæma þær stjórnarathafnir, sem þingið leggur henni á herðar, og hin daglegu störf, sem ekki verður hjá komist.

Í öllum löndum eru ýmsar stjórnarvenjur, sem smámsaman hafa myndast og fylgt er engu síður en skrifuðum lögum. Hjer er verið að mynda eina slíka stjórnarvenju, ef brtt. okkar verður samþ. Hún er bending um það, að standi svo á, sem hjer er nú, að ekki sje hægt að mynda meiri hluta stjórn, þá skuli sá síður hafður, sem hjer er gert ráð fyrir. Þetta er auðvitað altaf hálfgert neyðarúrræði og má aldrei standa nema sem allra stystan tíma. Auðvitað verður ekki hægt að ætlast til, að slík stjórn geti beitt sjer neitt að ráði fyrir nýjungum eða verulegum framkvæmdum, öðrum en hinum daglegu afgreiðslum. Þess vegna er svo til orða tekið í till., að stjórnin sje „starfandi til bráðabirgða“. Meiningin er sú, að úr þessu verði innan skamms að skera með nýjum kosningum.

Af því að við Framsóknarmenn lítum nú svo á, sem þessi stjórn verði að sitja fyrst um sinn, sjáum við ekki ástæðu til að fara að gera upp reikningana við hana frá okkar hálfu, án þess að hún gefi tilefni til þess að fyrra bragði. Það er altaf gert öðru hverju í öðrum málum hvort sem er. Við látum því sem sagt nægja þessa brtt. okkar, sem ætti að geta orðið til þess að skapa nýja stjórnarvenju. Ef hún verður samþykt, er vantrauststillagan úr sögunni og þessi stjórn situr áfram sem starfsstjórn.

Eins og hæstv. forsrh. (JÞ) sagði í sinni ræðu, er það Alþingis að segja til, hvort landsstjórnin eigi að sitja eða ekki. Ef þessi brtt. er samþ., þá er þar með látinn í ljós sá vilji, að hæstv. stjórn haldi áfram starfi sínu fyrst um sinn, enda þótt hún sje ekki meiri hluta stjórn, uns þjóðinni hefir gefist kostur á að skera úr.

Vona jeg, að þetta megi nægja til að sýna, hvað fyrir okkur flm. vakir, og liggi því málið nægilega skýrt fyrir frá okkar hálfu.