29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (3208)

100. mál, landsstjórn

Pjetur Ottesen:

Jeg hefi enga löngun til þess að blanda mjer í þær almennu umr., sem hjer hafa orðið um vantraustsyfirlýsinguna. En það var eitt atriði í ræðu hv. 4. þm. Reykv. (HjV), þar sem hann mintist á framkvæmd landhelgisgæslunnar, sem jeg verð að fara nokkrum orðum um, vegna þess, að jeg er hjer fulltrúi fyrir og fer með umboð fjölda manna, sem eiga mikið undir því, að landhelgisvarnirnar sjeu vel ræktar.

Á síðasta ári var stigið hjer hið stærsta spor, sem stigið hefir verið enn til þess að auka landhelgisgæslu, með því að láta byggja nýtt strandvarnaskip. Því að það er ekki að efa, að aukning á landhelgisgæslu er eitt hið mesta nauðsynjamál þjóðarinnar Og frá því jeg kom á þing hefir það verið eitt af mínum mestu áhugamálum að koma á auknum endurbótum um landhelgisvarnir. Þess vegna hnykti mjer stórkostlega við, er hv. 4. þm. Reykv. (HjV) upplýsti það um eitt varðskipið — jeg hygg, að hann hafi þar nafngreint varðskipið Óðin — hvernig það hagaði landhelgisgæslunni. Hann sagði það um landhelgisgæsluna, að hún væri mjög slæleg, og nefndi þar sem dæmi þetta, að Óðin hefði — fyrir skömmu, að mjer skildist — borið þar að, sem 20 togarar voru í landhelgi. Og hann sagði, að skipið hefði þá ekki aðhafst annað en það að skjóta einu skoti og látið svo alla togarasyrpuna sigla óáreitta út úr landhelgi. Og hv. þm. (HjV) sagðist geta staðhæft þetta.

Þetta er afskaplega hörð ásökun og sú harðasta, sem borin hefir verið á nokkurn mann á Alþingi í mín eyru, og það því fremur, þegar þess er gætt, að hjer er um að ræða formann á skipi, sem hefir mjög ábyrgðarmiklu starfi að gegna, þar sem honum er falið að vernda annan aðalatvinnuveg landsins. Í starfi hans liggur annað og meira en það að vernda fiskiveiðarnar frá degi til dags, heldur liggur starf hans engu síður í því að vernda framtíð fiskiveiðanna hjer við land, sem reynslan hefir sýnt og mun sýna enn betur, hve mikið á í hættunni vegna rányrkju á grunnmiðum.

Með þessu er lýst þýðingu landhelgisvarnanna fyrir okkur. En önnur hlið málsins snýr að útlendingum, og þar verðum við að gæta alls varhuga, eins og hæstv. forsrh. (JÞ) sagði í dag, þar sem hann lýsti því svo greinilega, hverja þýðingu það hefði fyrir okkur, að sá orðrómur kæmist ekki á, að varðskipin væru hlutdræg, hlífðu íslenskum lögbrjótum, en ofsæktu hina. Í þessu sambandi má líka geta þess, að hjá okkur eru hærri viðurlög fyrir landhelgisbrotum en hjá nokkurri af nágrannaþjóðum okkar. Okkur er þetta nauðsynlegt, að hafa viðurlögin mikil, sökum þess, að landhelgisgæslan er og verður að minsta kosti fyrst um sinn ónóg í samanburði við hið stóra landhelgissvæði umhverfis land alt. Það er nauðsynlegt, að sektir sjeu svo háar, að þær út af fyrir sig veiti nokkurt aðhald gegn ágengninni á landhelgina. Þetta hafa og þær útlendar þjóðir, er senda fiskiskip hingað, viðurkent. Að þessu leyti eru því viðskifti okkar við aðrar þjóðir örugg. En hjer ber fleira að gæta, og þess sem oss ríður lífið á að gæta, svo að vjer stefnum ekki hreint og beint sjálfstæði vora í voða, en það er, að fylsta rjettlætis sje gætt og hið sama látið ganga yfir alla togara, hvort sem þeir eru innlendir eða útlendir. Og það sem jeg veit best til, þá hefir þessarar skyldu verið gætt. En nú í dag hefir verið borin fram sú ásökun hjer á Alþingi á foringjann á „Óðni“, að hann hafi látið stóran hóp af togurum sigla út úr landhelgi, án þess að hafast neitt að, og jeg held, að jeg hafi ekki misskilið hv. 4. þm. Reykv. (HjV), að hann hafi haldið því fram, að flestir þeirra hafi verið íslenskir.

Jeg er ekki að fárast yfir því út af fyrir sig, þó slík ásökun sje borin fram í heyranda hljóði, því að það er gott að ganga hreint til verks, enda þótt gæta verði allrar varkárni, þar sem útlendingar eiga í hlut. En við þetta má ekki sitja. Hv. þm. (HjV) hlýtur að verða til þess knúður, að mjer finst, að verða við ósk hæstv. forsrh. (JÞ) um það að segja skýrt og skilmerkilega frá því, hvað hann hafi fyrir sjer í þessu, og hæstv. atvrh. (MG) verður að láta fara fram nákvæma rannsókn á málinu. Því að sannleikurinn verður að koma í ljós, annað er óforsvaranlegt. Þýðing og mikilvægi landhelgisgæslunnar, og það, að hún sje vel rækt, krefst þess, að hið sanna komi hjer í ljós. Og vegna þess orðróms, er ásökun þessi vekur, og berast mun til útlendinga, því að þeir hafa hjer, ef svo má segja, augu og eyru á hverjum fingri, þegar rætt er um þessi mál á Alþingi, er þetta líka nauðsynlegt. Og síðast en ekki síst á sakborningur, skipherrann á Óðni, fulla rjettlætiskröfu á því, að sannleikurinn komi í ljós.

Skyldi það reynast rjett, að hann hefði vanrækt skyldu sína, þá verður hann að taka afleiðingunum af því, en ef hann er saklaus, þá á hann heimtingu á að fá uppreist, og þeir, sem borið hafa hann röngum sökum, eiga þá að fá makleg málagjöld.

Af öllum þessum ástæðum, sem jeg þykist hafa sett nægilega skýrt fram, þá skora jeg á hv. 4. þm. Reykv. (HjV), í nafni allra þeirra, sem njóta eiga góðs af landhelgisgæslunni, og í nafni rjettlætisins og öryggisins út á við, að segja frómt frá um heimildir sínar fyrir þessum alvarlega áburði. Og jeg vona, að hann telji sjer skylt að gefa þessar upplýsingar.