29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (3209)

100. mál, landsstjórn

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg þarf aðeins að láta örfá orð falla þess tilefnis, að hæstv. forsrh. (JÞ) hefir reynt að vefengja rökstuðning hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), formanns Framsóknarflokksins, fyrir brtt. okkar á þskj. 273.

Mjer þykir rjett, úr því að hæstv. ráðh. (JÞ) vildi vefengja orð hans, að við Framsóknarmenn og meðflm. að brtt. látum einnig heyra hljóð úr horni, til þess að fram komi, að við stöndum fast að baki honum. Fyrir hönd Framsóknarflokksins hefir hann lagt áherslu á ályktarorð till., að líta beri á landsstjórnina sem starfandi til bráðabirgða, með öllum þeim afleiðingum, er það hefir í för með sjer.

Hæstv. ráðh. (JÞ) mótmælti þeim tveim ástæðum, sem færðar eru fyrir þessari niðurstöðu. Hæstv. forsrh.(JÞ) neitaði því, að rjett væri sem í till. segir, 1) að stjórnin sje í minni hluta í Nd. og 2) án meiri hluta stuðnings í Sþ, og því væru niðurlagsorðin röng. Með öðrum orðum: alt veltur á því, hvor hefir rjett fyrir sjer, hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) eða hæstv. forsrh. (JÞ). Og það er ekki erfitt að benda á ráðið til þess að fá að vita með vissu, hvor hefir á rjettu að standa. Öruggur úrskurður um það fæst við atkvgr. um till. Setjum svo, að till. yrði samþykt. Þá verður af þeirri samþykt og afstöðu þingmanna í Ed. hiklaust ráðið, að þetta hvorttveggja er rjett, að stjórnin er í minni hluta í Nd. og án meiri hluta í Sþ. Þá er þar með fallinn dómur um þessar deilur hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) og hæstv. forsrh. (JÞ). Og þessa dóms við atkvgr. bíð jeg rólegur.

Úr því jeg stóð upp, vil jeg bæta við nokkrum orðum. Jeg vil benda á og undirstrika, að svo beri að líta á stjórnina „að svo stöddu“, eins og tillögunni segir. Hvað sú stund stendur lengi, verður ekki um sagt. Þar eru allar leiðir opnar og allar hendur frjálsar.

Mjer þykir rjett að benda á annað atriði þessu náskylt.

Hæstv. forsrh. (JÞ) upplýsti, að skipun hans sem forsrh. hafi farið fram í gær, með öðrum orðum 5 dögum eftir að till. um vantraustsyfirlýsing á stjórnina er komin fram, og undir þeim kringumstæðum, að hæstv. ráðh. hlýtur að vera kunnugt um, að á völtu stendur um fylgi hans.

Jeg vil undirstrika, að það er vitanlega hæstv. forsrh. (JÞ), sem ber ábyrgð á því að hafa ekki látið H. H. konunginn vita, hvernig ástatt var. Og jeg álít það óforsvaranlegt af honum gagnvart H. H. Og jeg vil bæta því við, að ef atkvgr. sýnir þau hlutföll, er jeg geri ráð fyrir og vona, að komi glögt í ljós, þá hefir hæstv. forsrh. (JÞ) gert sig sekan um mjög alvarlegan hlut, mjög alvarlegan í landi, þar sem á að vera þingræðisstjórn.

Í samræmi við það, að jeg er meðflm. að þessari till., þar sem gert er ráð fyrir að líta á stjórnina sem starfandi aðeins til bráðabirgða, ætla jeg mjer ekki nú, frekar en á eldhúsdeginum, að fara að rifja upp syndir hæstv. stjórnar. Jeg slepti eldhúsverkunum þá og ætla að gera það líka nú í trausti þess, að fram fari það, er kalla mætti pólitíska „castration“ stjórnarinnar.