29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (3211)

100. mál, landsstjórn

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson)*):

Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) mun nú dauður vera og betra að fara varlega með hann. Jeg skal nú heldur ekki sauma mjög að honum, enda hefir það verið gert rækilega hjer í dag. Hann var að lýsa íhaldsflokknum og því, hversu alt væri þar á annan veg en í alþýðuflokknum, en jeg held það væri nú best fyrir hann að tala um sinn eigin flokk, en ekki um aðra, sem hann ekkert veit um. Hv. þm. (HjV) var eitthvað að tala um lítilfjörleg stjfrv., en jeg þori vel að leggja stjfrv. og móttöku þeirra hjer á móti hans frv.

Hann var að tala um útvarpsfjelagið og hve ljelegt efni það væri, sem það varpaði út, og fann að því, að stjórnin hefði eigi eftirlit með því. Annars er um þetta að segja, að hingað til hafa ekki heyrst neinar kvartanir um þetta, og þm. hefir sjálfur ekki kvartað fyr. Hinsvegar skal jeg viðurkenna það, að fjelagið er ekki nógu fjesterkt til þess að hafa altaf nógu gott efni til að varpa út, og stafar það af því, að landsmenn hafa ekki viljað leggja fje í þetta fyrirtæki. Hann hefir sjálfur upplýst, að hann hafi ekki lagt einn einasta eyri í fjelagið, og mjer skildist það vera af því, að fjelagið væri gróðafjelag. En jeg leyfi mjer að efast um, að ástæðan sje sú, því að jeg veit, að hann hefir ekki verið svo feiminn við slíkt, og enda jafnvel sjálfur stofnað gróðafjelag. Hinu gæti jeg betur trúað, að ástæðan hefði verið sú, að hann vissi, að það gæfi ekki eins mikið í aðra hönd eins og það stóra fjelag, sem hann stofnaði handa sjálfum sjer.

Dóma þm. um það, hvað löglegt sje í þessu efni, met jeg ekki að neinu. Jeg tel mig hafa miklu betri ástæður til að dæma um það en hann.

Þá hefir þm. verið að dylgja með það, að jeg væri hluthafi í útvarpsfjelaginu, en um það veit stjórn fjelagsins miklu betur en hann, og hún hefir borið það til baka. Enda gat jeg það ekki, vegna aðstöðu minnar, þar sem jeg átti að veita fjelaginu sjerleyfið.

Það var gott, að þm. (HjV) nefndi nöfn þessara tveggja manna, sem með röngu hafi tekið fje af mönnum fyrir leyfi til vjelstjóra. Jeg skal nú rannsaka, hvað rjett er í þessu.

Um byggingu „Óðins“ gat hann nú lítið sagt, en vildi halda því fram, að jeg hefði ekki valið góða menn til eftirlits í Kaupmannahöfn. En jeg get sagt hv. þm. það, að til þess valdi jeg það sama firma, sem framkvæmdastjóri Eimskipafjelags Íslands hefir jafnan skift við, og benti mjer á. Hv. þm. vildi láta líta svo út, að skipið hefði verið svo slæmt, að það hefði verið hætta að vera á því út. Jeg verð að líta svo á, að skipstjórinn á Óðni hafi haft betur vit á því en þm., og hann taldi það enga hættu, enda þurfti ekki annað en að setja kjölfestu í skipið til þess að það færi vel í sjó. Jeg veit heldur ekki til, að neinir af hásetunum á Óðni hafi verið hræddir við það að vera á honum til Kaupmannahafnar.

Það er vitanlega rjett, að stjórnin ákveður, hvar varðskipin halda sig, en það er algerlega rangt hjá þm. að halda, að hann geti gert stjórnina ábyrga fyrir því, ef yfirmenn skipanna rækja ekki skyldur sínar.

Það er algerlega óverjandi af þm. (HjV) að bera yfirmenn skipanna slíkum sökum, en þegar hann er krafinn sagna um það, hver hafi sagt honum þetta, þá neitar hann að svara. Jeg vil ekki nota það orð, sem hjer á við og er fullkomlega rjettmætt um slíkt athæfi, af því hvað það er óþinglegt, en jeg vona, að þm. sjái sjálfur, í hverjar ógöngur hann er kominn, og að sú brýning, sem hann fekk hjá hv. þm. Borgf. (PO), verki svo á hann, að hann sofi ekki fyr en hann hefir upplýst, hver hafi sagt honum þetta, eða játað, að hann hafi sjálfur búið það til. Það er sagt, að Gróa gamla á Leiti hafi verið vön að segja: „ólyginn sagði mjer“, en hv. þm. (HjV) vill ekki einu sinni segja þetta, heldur segir hann bara: Það er sagt.

Um lánið út á „Stefni“ vil jeg segja það, að það er ekki verra en þau lán, sem hann hefir sjálfur veitt í Landsversluninni í fjarveru framkvæmdarstjórans. Það skal jeg standa við. Um leið og þm. sýnir fram á, að það hafi verið óforsvaranlegt, skal jeg sýna fram á hitt.

Þá vildi þm. láta draga úr tóbakstollgæslu í Reykjavík, en auka hana úti um land. Hann er sjálfur „general“- tóbakskaupmaður hjer í bænum, og þegar hann ætlar að nota sjer þannig aðstöðu sína sem þingmaður, verður það ekki skilið öðruvísi en að hann sje að „agitera“ fyrir sinni eigin verslun. Hann er að kvarta um það, að menn sjeu sendir af stjórninni til þess að tollmerkja hjá honum vörur. Hann ætlast kannske til þess, að hann hafi einkarjett til þess að selja tóbak án þess að greiða toll af því?

*Óyfirlesin ræða.