29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (3212)

100. mál, landsstjórn

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg ætla fyrst að snúa mjer að hæstv. atvrh. (MG). Hann snýr alveg við orðum mínum, til þess að reyna að finna ástæður gegn þeim. Jeg veit ekki til, að jeg hafi kvartað yfir tollmerkingu hjá mjer sjerstaklega, enda er hægt að sjá það í ræðum skrifaranna. Jeg hefi aldrei sagt, að það væri sjerstaklega hjá Tóbaksverslun Íslands. Það er hreinn uppspuni hjá hæstv. atvrh. (MG). Hinsvegar hefi jeg sagt það, að öll tollmerkingin hjer væri hreinasta „humbug“, sem kostaði landið 40–50 þús. kr. á ári, en úti um land er tollgæslan sama sem engin. Þar fá kaupmenn tollmiðana senda og setja þá á sjálfir algerlega eftirlitslaust. Annars heyrir þetta undir hæstv. fjrh. (JÞ), og það var hreinn óþarfi fyrir hæstv. atvrh. (MG) að vera að sletta sjer fram í þetta. Jeg held það væri betra að verja einhverju af peningunum til þess að auka tollgæsluna úti um land og senda menn til eftirlits, meðan ekki eru ákveðnar sjerstakar tollgæsluhafnir. Jeg veit ekki betur en hæstv. fjrh. (JÞ) hafi viðurkent það, þó að hann hafi ekki gert það hjer á þingi, að öll þessi tollmerking sje bæði óþörf og kostnaðarsöm, enda sjer þetta hver maður, því að til þess að tollmerkja vörurnar þarf eins marga menn eins og til að afgreiða þær. T. d. voru um tíma sex menn uppi í Tóbaksverslun Íslands við þetta. En það fyrirtæki hefir aldrei skorast undan því að greiða tollinn og mun ekki gera það; enda mun það greiða meiri toll árlega til ríkissjóðs en nokkurt annað fyrirtæki hjer á landi.

Hæstv. atvrh. (MG) talaði um eftirlitið með byggingu Óðins og segir, að það hafi verið ágætt. Jeg segi bara: Verkin sýna merkin. Hann var tilknúður að senda skipið út aftur til gagngerðrar breytingar.

Hæstv. ráðh. (MG) sagði, að ekki væri hægt að saka stjórnina um ljelega landhelgisgæslu, en jeg spyr: Á hverju ber stjórnin þá ábyrgð, ef ekki á þeim málum, sem undir hana heyra? Hæstv. ráðh. (MG) kallaði þetta dylgjur um landhelgisgæsluna, en hið sama mætti þá segja um hæstv. forseta Ed., sem sagði, að lögin væru þverbrotin í því efni. Hæstv. stjórn hlýtur að vita þetta. Mörg hundruð sjómenn á togurunum vita það, og yfirleitt allur almenningur hjer í bænum veit, að þetta er ekki annað en skrípaleikur.

Hæstv. ráðh. (MG) vítti mig fyrir, að jeg hefði lagt fje í ákveðið hlutafjelag, sem væri gróðafyrirtæki, en hefði ekki lagt í h. f. Útvarp. En jeg vil aðeins segja það, að hann veit ekkert um fjárhag minn, og honum kemur það ekkert við, í hvaða fyrirtæki jeg legg.

Það mátti heyra, að hæstv. atvrh. (MG) reiddist, er jeg sýndi fram á, að hann hefði bæði brotið lög og sett reglugerð, sem hann hafði alls ekki heimild til samkv. lögum.

Það má vera, að þau frv., sem jeg hefi borið fram, hafi sætt verri meðferð en frv. hæstv. stjórnar, en um það er það að segja, að jeg ber mín frv. fram fyrir hönd þess flokks, sem jeg tilheyri, og það eru andstæðingarnir, sem snúast gegn þeim. En frv. hæstv. stjórnar eru slík pólitísk viðrini, að andstæðingum hennar þykir ekki taka því að vera á móti þeim, en jafnvel fylgismenn hæstv. stjórnar segja, að þau sjeu óþörf. Jeg veit ekki, hvort hæstv. atvrh. (MG) þykir það vera þingsigrar.

Jeg ætla aðeins að geta þess viðvíkjandi undanþágum vjelstjóranna, að það getur hæstv. stjórn látið rannsaka, og jeg hygg, að þá komi á daginn það, sem jeg hefi sagt, að menn hafi á stundum orðið að greiða fimmfalt verð fyrir leyfin við það, sem heimilt er. Og á þessu ber hæstv. ráðh. auðvitað ábyrgð.

Þá vildi jeg beina nokkrum orðum til hæstv. forsrh. (JÞ). Hann sagðist ekki hafa símað til útlanda beiðni um, að hann yrði skipaður. En það virðist svo, sem hann hafi pantað að nýju skipunina eftir að vantraustið kom fram. Skipunin mun hafa komið í símskeyti, dags. Í gær, sem hann mun nú hafa upp á vasann.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. forsrh. (JÞ) sagði um landskjörið, að Íhaldsflokkurinn hefði haft meiri hluta við síðasta landskjör, skal jeg að nýju geta þess, að við landskjör hafa þeir einir kosningarrjett, sem eru 35 ára að aldri, en það hafa fleiri kosningarrjett til Alþingis en þeir, og er því ekki víst, að útkoman verði sú sama við almennar kosningar, og ef fara má eftir tölu hinna landskjörnu þingmanna, þá hefir íhaldsflokkurinn ekki nema helming þeirra.

Þá vil jeg leiðrjetta það viðvíkjandi Ísafirði, sem sagt hefir verið, eftir að jeg hefi fengið nýjar upplýsingar. Tveir menn frá Ísafirði töluðu í dag við tvo bankastjóra Íslandsbanka, og sögðu þeir, að í ráði hefði verið, að bankinn gerði út eftir nýárið alla þá báta, sem voru á hans vegum hjer syðra, og hefðu þeir átt að leggja fiskinn upp í Viðey til verkunar, en þetta hefði strandað á því, að ekki hefði fengist samkomulag við sjómennina ísfirsku um kaupgjald eða hlutaskifti. Jeg hefi nú fengið upplýsingar frá verkalýðsfjelögunum á Ísafirði. Það er alger uppspuni, að nokkuð hafi staðið á sjómönnum á Ísafirði í þessu efni, því að engar málaleitanir hafa borist þeim um breytingu á kaupgjaldi eða hlutaskiftum. Hvort þessi uppspuni er runninn frá stjórn Íslandsbanka eða útibússtjóranum á Ísafirði læt jeg ósagt, en þessum orðrómi er nú algerlega hnekt. Um þetta hefði hæstv. ráðh. (JÞ) getað aflað sjer upplýsinga, hefði hann viljað, fyrir löngu síðan, og getur því ekki haft það til varnar. Það undrar mig, hve hæstv. ráðh. (JÞ) er ánægður með að vera ásakaður. Það virðist svo, sem hann sje ánægður, svo lengi sem hann er ekki sakaður um glæp. Jeg er nú ekki að saka hann um neitt slíkt, heldur aðeins um ljelega stjórn og ljelegt eftirlit með embættismönnum ríkisins og fjármálastofnunum þess, og að hann hafi látið sjer lítið ant um hag landsins. Öll fjármálastjórn hans hefir nú gert það að verkum, að alþýða manna er nú úttærð af álögum og tollum.

Þá vil jeg að lokum segja nokkur orð við hv. þm. Borgf. (PO), sem vjek að mjer nokkrum orðum. Hann skoraði á mig að segja til um heimildir mínar fyrir því, sem jeg sagði um landhelgisgæsluna, hverjir hefðu sagt mjer þær sögur. Jeg gæti vel sagt nöfn þeirra manna, ef jeg vildi. Það eru auðvitað sjómenn á skipunum, en jeg veit, hvað það mundi kosta, ef jeg nefndi nöfn þessara manna; það mundi kosta þá lífsuppeldi þeirra um óákveð- inn tíma. Hinsvegar getur hæstv. stjórn, ef hún vill, komist fyrir sannleikann í þessu máli með rjettarrannsókn.

Mig furðar ekki, þótt hv. þm. Borgf. (PO) vilji eitthvað láta til sín taka í þessum landhelgismálum, svo hreystilega sem hann hefir fyr talað um rannsókn landhelgisbrota. En á hinu furðar mig, að hann láti sem ekki hafi áður heyrst, að ísl. togararnir stæðu framarlega í landhelgisbrotunum, og þar sem jeg kom með slíkar ásakanir, þá hvíli á mjer sú skylda að sýna heimildir. Jeg vil benda á ræðuhöld þessa hv. þm. í landhelgismálinu 1924, í Alþingistíðindum C. Á bls. 502 skýrir hann í ræðu frá því, að af 5 togurum, sem staðnir hafi verið að landhelgisbrotum, hafi 4 verið íslenskir.

Þá segir hann á bls. 513–14: „Þá vildi hv. þm. (ÁF) færa skipstjórunum það til vorkunnar, að þeim væri það of mikil freisting að sjá útlendingana altaf mata krókinn í landhelginni. Jeg hygg nú, að það sjeu Íslendingarnir, sem oftast ganga þar á undan hinum með þetta fagra fordæmi, og það á þeim stöðvum, sem skaðlegast er, að veitt sje á með botnvörpu, einmitt á bátamiðunum, og þá einkum þar, sem þarf kunnugleik til botnvörpuveiða sökum þess, hvernig botnlagi er háttað. Útlendingarnir koma svo á eftir. Lögbrot þeirra eru að nokkru leyti því að kenna, að innlendu skipstjóramir ganga á undan með þessu ófagra eftirdæmi“. — Mér finst þetta mjög röggsamlega og sjálfsagt rjettilega mælt, en hv. þm. (PO) nefnir engin dæmi til stuðnings Ef það er skylda mín nú að nefna nöfn, þá var það engu síður skylda hans í þetta skifti. Jeg vil ráða honum til þess að kynna sjer fyrri afstöðu sína í þessum málum, áður en hann talar aftur, því að sjálfsögðu er ekki minna að koma með slíkar almennar yfirlýsingar um alla ísl. togarana heldur en að nefna ákveðinn stað. En vitanlega er hægt að fá þetta upplýst með rannsókn.

Þess má geta, að þáverandi þm. G.- K„ Ágúst Flygenring, hjelt mjög eftirtektarverða ræðu um sama efni. Hann segir: „Útgerðarmenn hafa rekið skipstjóra sína fyrir það eitt að fiska ekki. Þeir hafa meira að segja gert það margsinnis. Vesalings skipstjórarnir hafa því blátt áfram sverðið hangandi yfir höfði sjer. Og við skulum nú taka dæmi til skýringar þessu máli. 40–50 erlendir togarar eru að veiðum í landhelgi austur við Landeyjasand. Íslenskur togari kemur þar að, er að veiðum fyrir utan línuna og fær ekki fisk úr sjó. Hvað á þá skipstjórinn að gera? Hvað mundum við gera í hans sporum? Auðvitað fara inn fyrir línuna. Svo ber varðskipið að. Einmitt þessi togari er ef til vill tekinn — og kannske eingöngu vegna þess, að hann vantar t. d. loftskeytatæki, sem hinir hafa. Og svo á skipstjórinn að missa skipið, en hinir sleppa með alt saman! Þeir fá feng og frægð, en sá eini handtekni skömm og skaða.

Í greinargerð fyrir frv. er þess getið, að fá dæmi muni vera til þess, að útgerðarmaður hafi svift skipstjóra skipi fyrir að vera staðinn að ólöglegum veiðum. Jeg vil benda á hið gagnstæða. Að því munu vera mörg dæmi, að skipstjórar hafi óbeinlínis verið sviftir skipstjórn fyrir að stunda ekki veiðar í landhelgi — eða með öðrum orðum: fyrir að fiska ekki nógu vel, af því að þeir hafa hlífst við að fremja lögbrot“. — Þetta er nægilegt til að sýna skoðun þingmanna úr íhaldsflokknum um það, hvernig landhelgisbrotin eru framkvæmd og af hvaða ástæðum.

Þá skal jeg fara nokkrum orðum um brtt., sem hjer er komin fram. Í fyrsta lagi er í raun og veru gengið inn á efni till. minnar, þó forminu sje breytt, þar sem till. er brtt. við vantraustsályktun mína og það er skýrt tekið fram, að stjórnin hafi minni hl. í Nd. Ef brtt. verður samþ., fellur sá úrskurður á málið, sem jeg óskaði að fá, það er að segja, hvort stjórnin hefði meiri eða minni hluta fylgi í deildinni. Í öðru lagi er tekið fram, að deildin skoði stjórnina ekki öðruvísi en starfandi bráðabirgðastjórn, og valdsvið hennar er þá þeim takmörkunum háð, sem slíku hlýtur að fylgja. Jeg get því fallist á efni þessarar brtt. að þessu leyti. Mjer hefði að vísu fundist hreinlegra að láta afhöfða stjórnina með öllu heldur en að láta hana verða fyrir þessari pólitísku limlestingu. En með þessu er þó stjórninni sett allmikil takmörkun og yfirlýsing gefin um það, hvernig deildin lítur á valdsvið hennar, og vil jeg því ekki greiða atkvæði á móti tillögunni.