29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í D-deild Alþingistíðinda. (3214)

100. mál, landsstjórn

Pjetur Ottesen:

Mig undrar stórkostlega á því, hve hv. 4. þm. Reykv. (HjV) getur tekið sjer það ljett, þegar brýnt er fyrir honum, hvaða ábyrgð hvílir á honum í þessum áburði hans á foringjann á Óðni, og hvernig hann reynir að smeygja sjer undan henni. Sú tilraun hans, að lesa upp úr Alþt. ummæli mín og fyrverandi 1. þm. G.-K. (ÁF), er algerlega mishepnuð. Eða skilur hv. þm. ekki muninn á því, að því leyti til, að það veitir honum enga stoð í þessu máli, að í þessum ræðukafla, sem hann las upp eftir mig, eru aðeins almenn rök fyrir nauðsyninni á því að auka og bæta landhelgisgæsluna, en hv. þm. ber fram staðhæfingu um það, að foringinn á varðskipinu Óðni hafi vanrækt skyldu sína við ákveðið tækifæri. Jeg er alveg hissa á því, ef hv. þm. skilur ekki, hvílíkt regindjúp hjer er á milli. Jeg veit að vísu, að hann er búinn að reyna mikið á sig í dag út af þessu vantraustsvafstri sínu, og líklegast er, að hann hafi ofreynt sig. Það væri helsta afsökun hans. Jeg þarf raunar ekki að svara þessu frekar. En jeg get sagt hv. þm. (HjV) það, að hann ljettir ekki hót á samvisku sinni með svona lestri eða yfirleitt á annan hátt en þann að segja frómt frá þeim heimildum, sem hann hefir fyrir þessum áburði.

Loks skal jeg taka það fram, að þrátt fyrir þetta ber jeg þó enn það traust til hv. þm. (HjV), að hann hafi þá ábyrgðar- og rjettlætistilfinningu, að hann segi frómt frá atriðum þessa máls, svo að hægt sje að byggja rannsókn á frásögn hans og leiða sannleikann í ljós. En geri hann það ekki, sýnir það bara sorglegan skort á þessu hvorttveggja hjá honum.