29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í D-deild Alþingistíðinda. (3216)

100. mál, landsstjórn

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg veit ekki, hvort það er gustuk að mæða meir á hv. flm. (HjV). — Það var ofmælt, sem hann sagði, að kaupmenn úti um land fengju tollmiða eftirlitslaust. En það er heimtað af þeim, að þeir leggi sjálfir til starfskraftana til þess að líma miðana á umbúðirnar. Jeg mundi telja það góða breytingu, ef stjórninni væri heimilað að krefjast þess sama af tóbakskaupmönnum hjer, enda væru þeir best að því starfi komnir.

Út af skipun forsætisráðherrans skal jeg geta þess, að eftir henni var ekki kallað með símskeyti, enda engin furða, þó að svar kæmi eftir 12 daga.

Um aukakosningarnar skal jeg bæta því við, að í þremur kjördæmum af fjórum hafði Íhaldsflokkurinn hreinan meiri hluta og fekk 3 þingsæti af 5, en í 4. kjördæminu náði enginn einn flokkur meiri hl. við kosningarnar. Sömuleiðis má benda á, að Íhaldsflokknum hefir bæst einn þm. í viðbót, frá því að hann var stofnaður og stjórnin tók við. Því er ekki til neins að halda því fram, að núverandi stjórn sje ekki þingræðisstjórn. Nú býður stærsti andstöðuflokkur stjórnarinnar henni hlutleysi fyrst um sinn, og það er gefið í skyn, að það hlutleysi standi til næstu kosninga, ef ekkert sjerstakt kemur fyrir. Þetta er gert með brtt. þeirri, er hjer er komin fram, eins og frá var skýrt í ræðu aðalflm. (ÞorlJ). Jeg get ekki neitað því, að mjer fanst verða lítið úr kappanum, hv. 4. þm. Reykv.(HjV), þegar hann lýsti því yfir, að hann gæti snúið frá vantraustsyfirlýsingu sinni og gengið inn á þetta hlutleysisloforð, aðeins af því, að það er að formi til borið fram sem brtt. við hans till., þó að allir skilji, að hjer er ekki um brtt. að ræða, heldur nýja till., sem ekki lætur einu sinni fyrirsögnina við till. hv. 4. þm. Reykv. (HjV) standa. Jeg vil nú ekki móðga hv. þm. (HjV) með því að fara lengra út í þessa sálma, af því hann á ekki kost á að taka til máls. En jeg get sagt það við hv. þm. Str. (TrÞ), af því að hann var að vitna í húsdýrafræðina sína, að vegna þess, hvað hann er skörulegur og röggsamur stjórnarandstæðingur í orði, finst mjer hann nú helst minna á húsdýr, sem glamrar ákaflega hátt, en leggur síðan niður rófuna og skríður inn í holu sína.