29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í D-deild Alþingistíðinda. (3218)

100. mál, landsstjórn

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hið góða áform hv. þm. Str. (TrÞ), að segja ekki meira um þessa till. en hann er búinn að gera, er allrar virðingar vert. En jeg er bara hræddur um, að sá góði ásetningur hans lifi ekki nema nóttina yfir. Mjer er ekki grunlaust um, að hann muni gera till. að umtalsefni aftur áður en langt líður. Auðvitað heldur hann með till., úr því hann er einn af flm. hennar. En mjer finst hann hafa slíðrað sverðið ákaflega vel, þessi hv. forustumaður í fjölmennasta andstöðuflokki stjórnarinnar, þegar hann nú kaupir flokk sinn undan því að þurfa að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um vantrauststillögu, með því að gerast sjálfur flm.till., sem veitir stjórninni hlutleysi frá hálfu hans flokks.