21.03.1927
Neðri deild: 35. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í D-deild Alþingistíðinda. (3228)

81. mál, ræktunarsjóður Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Við háttv. þm. Borgf. (PO) komum hjer fram með brtt. við till., sem fer fram á að færa lánstímann úr 20 árum upp í 25 ár. Það er ekkert efamál, bæði að mínu áliti og margra annara, að rafstöðvarnar verða drýgsta ráðið til þess að halda fólkinu í sveitunum. Því að þegar búið er að koma upp rafstöðvunum, verða sveita býlin miklu þægilegri og meira aðlaðandi en þau eru nú. Jeg hefi átt tal við mann á Vesturlandi, sem bygði rafstöð síðastliðið sumar. Hann sagði, að breytingin við það hefði orðið miklu meiri en hann nokkum tíma hefði búist við eða vonast eftir. Hann ætlaði í fyrstu að byggja íbúðarhús og fjós, en hann tók rafstöðina framyfir og sjer víst ekki eftir því. „Er jeg hefi nú fengið rafstöðina“, segir hann, „get jeg betur búið í hinum ljelegu húsakynnum heldur en þótt jeg hefði farið að byggja steinhús. Einnig er gamla fjósið nú gott, því að jeg hefi nóg rafmagn til þess að lýsa það upp og hita“. Þá taldi hann þann kost ekki hvað sístan af rafstöðinni, að alt heimilisfólkið, og sjerstaklega krakkarnir, vendist á umhyggjusemi og þrifnað. Þessir eru kostir rafmagnsins og fjölmargir aðrir. Hjer við bætist svo bæði peninga- og vinnuspamaður. Það er óhætt að fullyrða, að á meðalheimili er vinnusparnaðurinn einn mörg hundruð króna virði árlega. Þar sem erfitt er mótak, er sá sparnaður — eldiviðarsparnaðurinn — fleiri hundruð kr. árlega.

Þá er að athuga, hvort forsvaranlegt sje að lána úr Ræktunarsjóðnum til svo langs tíma, sem brtt. okkar fer fram á. Það er vitanlegt, að rafstöðvar endast ekki umbótalaust í 25 ár. Við bárum þó fram þessa brtt. vegna þess, að allir, sem til þekkja, eru þess fullvissir, að þar sem rafmagnsstöð er einu sinni komin, þar verði henni haldið við. Er því fylsta ástæða til þess að ætla, að rafstöðvunum verði haldið í góðu standi miklu lengra árabil en hjer um ræðir.

Þá er, eins og hv. aðalflm. (HStef) drap á, nauðsynlegt í þessu sambandi, að fengnir sjeu menn með sjerþekkingu hjer til að leiðbeina um byggingu rafstöðva. Er annars mjög hætt við mistökum. En sem betur fer, eru hjer allmargir menn, sem hafa fullkomna þekkingu og talsverða reynslu í þessum efnum.

Við vonum svo, að brtt. okkar verði vel tekið af hv. deild, því að jeg sje ekki, að nokkur hætta sje á því að lengja lánstímann upp í 25 ár og gera þannig þeim mönnum sem ljettast fyrir, er byggja vilja hjá sjer rafstöðvar.