21.03.1927
Neðri deild: 35. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í D-deild Alþingistíðinda. (3230)

81. mál, ræktunarsjóður Íslands

Flm. (Halldór Stefánsson):

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 214 skal jeg taka það fram, að þar sem hún fer í sömu átt og við flm. höfum hugsað okkur, og þó lengra, þá höfum við ekki ástæðu til annars en taka henni vel og vera þakklátir fyrir hana, ef hún nær samþykki. Út af því, sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) fór fram á, að fresta umr. og vísa málinu til nefndar, þá skal jeg segja það, að auðvitað höfum við ekki á móti því, að mál þetta verði sem best athugað, þar á meðal þau atriði, sem hann nefndi. Jeg býst við því, að menn hafi fullan hug á því að haga virkjuninni þannig, að hún geti orðið sem ódýrust og hagnýtust, með því að reisa eina stöð fyrir fleiri heimili, þar sem þess er kostur. Þetta hygg jeg að ekki muni þurfa að benda mönnum á, og að því leyti sje óþarft, að málið fari í nefnd. En sem sagt, ef mönnum finst þörf á fresta umræðu um þetta mál og vísa því til nefndar, þá höfum við ekki á móti því. Hygg jeg, að þá sje rjettast að vísa málinu til landbn., og geri það að tillögu minni.