25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í D-deild Alþingistíðinda. (3248)

107. mál, smíði brúa og vita

Hjeðinn Valdimarsson:

Mjer finst ekki nema eðlilegt, að talað sje um opinbera starfsmenn, þó að þeir sjeu fjarverandi. Það er ekki hægt að múlbinda þingmenn svo, að þeir megi ekki minnast á verk opinberra starfsmanna. Hæstv. stjórn ber ábyrgð á þeim gagnvart þinginu, og er því hjer rjettur vettvangur að finna að gerðum þeirra.

Jeg sje, að hæstv. atvrh. getur ekki svarað fyrirspurnum mínum. Það kann að vera, að sumar af þeim sjeu þess eðlis, að ekki sje hægt að svara þeim undirbúningslaust. En þá ætti að vera innan handar að svara þeim, þegar fjárlögin koma hjer aftur til umræðu. Aftur á móti eru sum atriðin þess eðlis, að hæstv. atvrh. ætti sem slíkur að vita um þau. Hann getur ekki varið það að vita ekki, í stórum dráttum, hvaða kaupgjald undirmenn hans greiða, og það er helsti illur vani, ef vegamálastjóri getur algerlega ráðið kaupgjaldi verkamanna við vegagerð, án þess að stjórnin hafi neitt þar um að segja.

Hæstv. ráðh. gat þess, að áhaldasmiðja ríkisins væri notuð eins og hægt væri. Jeg heyrði útdrátt úr brjefi vegamálastjóra, en jeg skil ekki hvernig maðurinn hefir getað skrifað þetta, því að minsta kosti þangað til í fyrra voru ýms helstu áhöld í láni hjá „Hamri“, og nú vinnur þar enginn járnsmiður. Svörin eru því röng og ófullnægjandi. Þetta eru hlutir, sem hæstv. atvrh. á að vita um. Ef hann ekki veit þetta, er það af því, að hann fylgist ekki með eins og hann ætti að gera.

Jeg vil bæta því við, að jeg veit ekki betur en að nú sje verið að vinna að nýrri brú á Ferjukotssíki í Hamri. Það mætti eflaust gera í áhaldasmiðju ríkisins, og mundi hafa verið gert, er Jón Þorláksson var landsverkfræðingur.