25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í D-deild Alþingistíðinda. (3253)

107. mál, smíði brúa og vita

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg ætlaði að svara þessu sama, sem hæstv. atvrh. (MG) hefir nú tekið fram.

Mjer finst það í mesta máta ómaklegt að segja það um vegamálastjóra, að hann hafi verið slæmur ráðunautur stjórnarinnar, þó að hann kæmi ekki í veg fyrir það sumarið 1923, þegar skipað var að loka áhaldasmiðju ríkisins, að það yrði gert. Með lokun smiðjunnar var hann ekkert annað að gera en að framfylgja fyrirskipun húsbænda sinna.

Það stendur nú svo á, að jeg get dálítið um þetta borið af eigin reynslu. Jeg veitti þetta sumar forstöðu stóru fyrirtæki, er ríkið kostaði, sem sje Flóaáveitunni. Jeg fekk líka skipun frá þáverandi stjórn um að stöðva verkið, og mjer kom ekki annað til hugar en að hlýða því. Og jeg verð að segja eins og mjer finst, að jeg tel mig ekki hafa verið slæman ráðunaut Flóaáveitunnar, þó að jeg gæti ekki komið í veg fyrir það, að verkið stöðvaðist, þegar engir peningar voru í kassanum til þess að láta vinna fyrir. Því verð jeg að endurtaka það, sem jeg sagði í upphafi, að það er mjög ómaklegt að kasta rýrð á vegamálastjóra, þó að hann fengi því ekki breytt sumarið 1923, að áhaldasmiðju ríkisins væri lokað.