18.02.1927
Neðri deild: 9. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í D-deild Alþingistíðinda. (3259)

27. mál, milliþinganefnd í landbúnaðarlöggjöf

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Hv. deild kannast við mál þetta frá síðasta þingi. Jeg flutti þá til. sama efnis, en hún kom of seint fram til þess, að tími ynnist til að ræða málið og ráða því til lykta.

Jeg get skírskotað til þess, sem jeg sagði um þetta efni þá, og finn ekki ástæðu til þess að endurtaka það nú eða fjölyrða neitt um málið, og því síður sem hæstv. atvrh. (MG) er veikur og getur ekki tekið þátt í umræðum. Jeg vona, að hann geti verið hjer viðstaddur, þegar málið kemur til síðari umræðu, því að jeg vildi gjarnan heyra álit hans. Jeg geri ráð fyrir, að flestir þdm. sjeu mjer sammála um það, að nauðsyn beri til að endurskoða þessa löggjöf og bæta nýjum lögum við. Því var skotið að mjer núna á fundinum, að Búnaðarþingið hefði samþ. að skora á Alþingi að kjósa nefnd til að athuga landbúnaðarlöggjöfina. Mjer þykir þetta vel farið og kemur heldur ekki á óvart, þó að þeir, sem kynt hafa sjer þetta mál, telji þörf á endurskoðun þessara laga og nýjum ákvæðum um ýmislegt, sem miklu varðar fyrir landbúnaðinn. Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta nú, en legg til, að málinu verði vísað til landbn.