29.04.1927
Efri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í D-deild Alþingistíðinda. (3280)

34. mál, kennaraskólinn

Frsm. (Jónas Jónsson):

Það er nokkuð langt síðan þessi till. var fyrst til umr., en hún hefir fengið allítarlega meðferð, fyrir það, að nefndin hefir fengið forstöðumann skólans, nokkra af hinum föstu kennurum skólans, fræðslumálastjóra og hæstv. fræðslumálaráðherra (MG) á sinn fund, og málið þannig skýrst mjög vel. Niðurstaðan hefir orðið sú, að nefndin leggur til, að samþyktir verði fyrstu tveir liðir till. Þar er í fyrsta lagi að ræða um að leita samkomulags við bæjarstjórn Reykjavíkur um ókeypis eða ódýra lóð handa skólanum við Skólavörðutorgið, og í öðru lagi að láta gera fyrir næsta þing frumdrætti að nauðsynlegum byggingum handa skólanum, miðað við þennan stað. Aftur á móti hefi jeg, til samkomulags við aðra hv. meðnefndarmenn mína, fallið frá að óska eftir, að gerðar verði teikningar af fyrirhuguðu heimavistahúsi, vegna þess, að það liggur mest á því fyrir skólann að fá sjer trygða lóð, þar sem það því miður að líkindum hlýtur að dragast, að hann fái viðbótarbyggingar. Jeg get verið stuttorður um þetta, þar sem jeg hefi prentað með nál. álit forstöðumanns skólans, tveggja kennara og fræðslumálastjóra um það, hvað þeir álitu að skólanum hentaði best í þessu efni, og vil jeg sjerstaklega taka eitt fram, af því að jeg held, að jeg sje þar í samræmi við báða meðnefndarmenn mína, nefnilega að við teljum vel við eiga, að núverandi forstöðumanni skólans, sem líklega starfar ekki við skólann, eftir að hann er kominn í þennan nýja stað, að það væri mjög æskilegt, að hann gæti verið með í ráðum um það, hvar skólinn fengi framtíðarstað í bænum, og hvernig húsum þar yrði hagað. Sjálfir hafa þessir aðstandendur skólans lýst því mjög greinilega, hvers hann þurfi með. Það skal að vísu játað, að landsspítalinn þarf ekki nákvæmlega þann stað, þar sem kennaraskólinn stendur, undir viðbótarbyggingar nú þegar. Þó er ekki hægt að byggja við hann, sökum spítalans. Þess vegna hefir forstöðumaður skólans snúið sjer til landsstjórnarinnar og beðið um, að skólanum væri útveguð lóð, þar sem núverandi lóð skólans á að leggja undir aðra byggingu, og er þessi till. fram komin til þess að ýta undir hæstv. stjórn til þess að vinna saman við bæinn, og jafnframt er hún bending um, hvar skólinn eigi að vera. Fræðslumálastjóri álítur, að það sje sjerstaklega valinn staður í nánd við Skólavörðutorgið, því að þá verði skólinn í nánd við væntanlega háskólabyggingu, sundhöll og barnaskólann nýja.

Jeg skal að vísu játa það, að það er ekki víst, að bærinn vilji láta lóð ókeypis undir skólann, þótt hann hafi gert það vegna stúdentagarðsins, og það er kannske meðfram vegna þess, eins og jeg tók fram áður, að bærinn hefir látið þessa litlu lóð ókeypis, sem nú er um að ræða, en þar sem landið tekur hana vegna landsspítalans og það sem búast má við, að hann óski að afgirða sína lóð, þá verður að líta svo á að landinu beri að borga þessa lóð undir landsspítalann, og þess vegna hefi jeg tekið það fram, að hin nýja lóð ætti að vera ókeypis, ef bærinn vildi svo vel gera, eða að minsta kosti mjög ódýr. Jeg vona, að bæjarstjórnin líti svo á, að gott sje að hafa þessa stofnun hjer, úr því að bærinn sóttist svo mjög eftir því upprunalega.