07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í D-deild Alþingistíðinda. (3304)

122. mál, öryggis- og heilbrigðiseftirlit

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Í nágrannalöndunum er nokkuð langt síðan komið hefir verið á eftirliti með verksmiðjum. Í Danmörku er um það víðtæk löggjöf, og var þar fyrst leitt í lög slíkt eftirlit árið 1873. Síðan hefir þeim verið breytt á ýmsan hátt og aukið við þau. Þessi lög eru á þá leið, að ákveðnir eftirlitsmenn koma á þá staði, sem taldir eru verksmiðjur, eða þar sem 5 menn eða fleiri vinna og unnið er með vjelum. Eiga þeir að gæta þess, að loftrás sje heilsusamleg og útbúnaður vjela þannig, að hann sje ekki hættulegur heilsu manna eða slys hljótist af o. fl.

Nú er hjer lögákveðið að hafa skoðun á skipum, en á landi er ekki haft slíkt eftirlit. Einn af starfsmönnum stjórnarinnar hefir kynt sjer þetta mál, og það ætti því að vera auðvelt fyrir stjórnina að undirbúa þetta mál með hans aðstoð til næsta þings.

Verksmiðjur hafa margar risið hjer upp á síðari árum, svo sem síldarverksmiðjur úti um land og margvíslegar verksmiðjur í Reykjavík, og eru þær mjög misjafnt útbúnar. Það þarf varla að eyða orðum að því, hversu nauðsynlegt sje að tryggja heilsu og líf þeirra manna, sem þar vinna, með því að sjá um, að allur útbúnaður verði sem heilsusamlegastur og tryggastur, enda er það jafnframt til hagsmuna fyrir atvinnurekendur, að slíkt eftirlit sje með öllum verksmiðjum.