07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í D-deild Alþingistíðinda. (3305)

122. mál, öryggis- og heilbrigðiseftirlit

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er rjett til getið hjá hv. flm., að engin ástæða sje til annars en taka þessari till. vel, einkum þegar þess er gætt, að einn af starfsmönnum ríkisins, Ólafur Sveinsson vjelfræðingur, hefir talsvert athugað þetta mál. Var það í samráði við mig, að hann gerði það í utanför sinni í fyrra.

Eru til talsverð drög að frv. um þetta mál, þótt það þætti ekki nægilega undirbúið til þess að leggja það fyrir þetta þing.

Það er fyrirsjáanlegt, að þessu eftirliti fylgir nokkur kostnaður, ef það á að ná til allra verksmiðja á landinu. Mun kostnaður við eftirlitsferðir vera það tilfinnanlegasta, en það er bót í máli, að þær má sameina við aðrar ferðir þessa manns, þar eð hann hefir eftirlit með skipum og bátum á hverju sumri. Væri eflaust heppilegt, ef hægt væri að sameina þetta tvent. Stjórnin hefir ekkert á móti að athuga þetta mál fyrir næsta þing, og mun þá sennilega koma með frv.