28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (3309)

101. mál, styrkur handa stúdentaefnum frá gagnfræðaskólanum á Akureyri

Flm. (Jónas Kristjánsson):

Jeg var flm.till. til þál. um, að stúdentaefnum væri leyft að taka próf við Akureyrarskólann, en hún fjell, eins og kunnugt er. Afstaða mín var og er fyrst og fremst sú, að gera norðanpiltum skólalærdóm sinn sem ódýrastan. Þegar jeg gerðist meðflytjandi að fyrri þáltill., hafði jeg ekki fyrir mjer umsögn háskólaráðsins í málinu, en hinsvegar hafði skólameistarinn á Akureyri sagt mjer, að ekkert mundi því til fyrir stöðu, að stúdentaefni fengju að taka prófið norður frá. En þegar um þetta var rætt á fundi í Sþ. nú á dögunum, var lesið upp brjef háskólaráðsins, þar sem tekið var fram, að eftir 17. gr. háskólalaganna sæi háskólinn sjer ekki fært að taka við þeim stúdentum, sem útskrifaðir væru á Akureyri, og teldi það sem brot á reglugerð háskólans eða háskólalögunum. Þessi yfirlýsing háskólaráðsins breytti stefnu minni í málinu. Jeg ætlaði mjer aldrei að etja kappi um þetta við háskólaráðið og sá því þann kostinn vænni, að fara þá leiðina, sem hjer er um að ræða, að stúdentaefnum gagnfræðaskólans á Akureyri verði veittur ferðastyrkur til þess að standast kostnaðinn við að taka prófið hjer. Fyrir mjer vakti aldrei annað en það, að piltum þessum væri gert sem ódýrast fyrir að taka prófið, og það sama býst jeg við að hafi vakað fyrir meðflytjendum mínum. Hinsvegar lít jeg svo á, að full þörf sje á að upp rísi lærður skóli í Norðurlandi, að það sem fyrst. En það er ekki hægt sem stendur, eða svo að það nái til þeirra pilta, sem stúdentspróf ætla að taka í vor, heldur verður að keppa að þessu í framtíðinni. Hjer er því ekki um annað að ræða en að ljetta undir með piltum og gera þeim kleift að taka prófið hjer.

Jeg vildi ekki bera ábyrgð á því, að stúdentaefnin á Akureyri yrðu gintir til þess að taka próf fyrir norðan, próf sem ekkert gildi hefir, svo að þeim yrði neitað um inntöku í háskólann hjer, ef þeir óskuðu þess, og sömuleiðis neitað um aðgöngu að háskólum erlendis, ef þeir leituðu þangað. Hefði þetta alt í för með sjer mikið aukinn kostnað, tímatöf og vonbrigði fyrir piltana. Á þessu vildi jeg ekki bera ábyrgð, og þess vegna fjell jeg frá till. um daginn, og reyni svo þessa leið, sem jeg verð að álíta þá einu og heillavænlegustu, eins og málið horfir við. Vænti jeg því, að hv. þdm. geti fallist á till. mína og greiði henni atkv. Þegar málinu er bjargað í bili á þann hátt og stúdentaefnum gert fært að taka prófið, er næst fyrir hendi, að áhugamenn þessa máls snúi sjer að því að fá fullkominn mentaskóla í Norðurlandi, sem enginn vafi geti leikið á, að hafi rjett til þess að útskrifa stúdenta.