28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (3311)

101. mál, styrkur handa stúdentaefnum frá gagnfræðaskólanum á Akureyri

Flm. (Jónas Kristjánsson):

Jeg skal með örfáum orðum svara spurningum hv. 1. þm. Eyf. (EÁ). Með ferðastyrk á jeg ekki aðeins við allan ferðakostnað fram og aftur, heldur og dvalarkostnað piltanna hjer um prófið og einhvern tíma á undan því, eftir því sem ætla mætti, að þeir þyrftu til undirbúnings. Það leiðir af sjálfu sjer, að úr því hjer er verið að hjálpa fátækum piltum, þá verður fjárstyrkur þessi að miðast við það, að greiða þann kostnað, sem af því leiðir að taka prófið hjer.

Um hitt, hvort þetta skuli vera standandi regla framvegis, þá er því að svara, að mjer er ekki kunnugt um, að piltar sjeu í undirbúningi um að taka stúdentspróf t. d. á næsta ári eða framvegis. En sje svo, tel jeg sjálfsagt, að þeir verði sömu hlunninda aðnjótandi, eða á meðan Akureyrarskólinn er ekki álitinn fær um að útskrifa stúdenta. Jeg mundi fyrir mitt leyti fylgja því eindregið, að fátækum, efnilegum piltum yrði veittur þessi styrkur áfram. En hinsvegar geri jeg ráð fyrir því, að þess sje ekki langt að bíða, að Norðlendingar leitist við að gera Akureyrarskólann að fullkomnum mentaskóla, og þá verður að líta á þennan ferðastyrk sem bráðabirgðaráðstöfun.

Jeg hefi engan dóm lagt á það, hvort till. okkar á dögunum hefði verið brot á háskólalögunum. Um það var jeg heldur ekki fær að dæma, enda benti jeg á, að þetta væri skoðun háskólaráðsins, og sömuleiðis sagðist jeg hafa spurt ýmsa löglærða menn um þetta og þeir fallist á skoðun háskólaráðsins í þessu efni. Og jeg get bætt því við, að einn háskólakennarinn, sem er prófessor í lögum, hefir sagt mjer, að það væri skýlaust brot á háskólalögunum að veita Akureyrarskólanum, eins og hann er nú, rjett til þess að útskrifa stúdenta.

Við þetta hefi jeg svo ekki fleiru að bæta, og getur verið útrætt um till. frá minni hendi.