28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í D-deild Alþingistíðinda. (3313)

101. mál, styrkur handa stúdentaefnum frá gagnfræðaskólanum á Akureyri

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 1. landsk. (JJ) spurði um það, hvað stjórnin mundi vilja veita háan styrk, ef till. þessi væri samþ. Stjórnin hefir ekki ákveðið neitt um þetta. Mál þetta er nú til fyrri umr., og þess vegna er varla við því að búast, að hún hafi ákveðið neitt í þessa átt.

Þá spurði hann og, hvort orðin „á næstkomandi vori“ mættu ekki falla burtu, með tilliti til þess, að slíkur styrkur yrði oftar veittur. Jeg sje enga ástæðu til þess að fella niður þetta ákvæði, því að ef slíkur styrkur á að haldast, þá er hægt að koma ákvæði um það inn í næstu fjárlög.

Svo spurði hann líka um það, hvort ekki væri sama, þótt þessir nemendur tækju stúdentspróf erlendis. Í rauninni getur það verið sama fyrir ríkissjóð. en jeg er viss um, að það er verra fyrir piltana sjálfa að ganga undir próf á erlendu máli, og jeg býst ekki við því, að þeir sjeu færir um það, enda þótt þeir geti staðist próf hjer með lofi. Væri það því illa farið, ef þeir tækju það ráð.

Það sem hv. 1. landsk. (JJ) sagði um samtök meðal kennara hjer gegn norðanpiltum, þá er mjer ekkert um þau kunnugt. En ef slíkt skyldi eiga sjer stað, þá tel jeg það algerlega rangt, og jeg trúi því ekki fyr en jeg tek á, að nokkur flugufótur sje fyrir þessu. Jeg býst heldur ekki við því, að það sjeu margir af norðanpiltum, sem hefðu getað notið aðstoðar dr. Ólafs Dan. Daníelssonar, því að jeg veit ekki betur en að þeir ætli sjer allir að taka próf í máladeild, en enginn í stærðfræðideild.

Þá sagði hv. þm. (JJ), að stjórnin hefði gert það upp á „autoritet“ rektors mentaskólans að neita um, að piltar þessir tækju stúdentspróf á Akureyri. Þetta er ekki rjett. Neitunin er komin frá háskólaráðinu, því að það skilur háskólalögin svo, að einungis mentaskólinn hjer hafi heimild til að útskrifa stúdenta.

Jeg get ekki trúað, að kennarar hjer sjeu svo ranglátir menn sem hv. þm. (JJ) lýsti þeim, að þeir vilji níðast á þessum nemendum að norðan. Og jeg veit ekki, hvaða ástæðu þeir ættu að hafa til þess. Það hefir aldrei heyrst, að níðst hafi verið á utanskólanemendum, enda vita allir, að það er altítt, að utanskólanemendur taki próf, og hefir ekki þótt nein frágangssök.