28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í D-deild Alþingistíðinda. (3318)

101. mál, styrkur handa stúdentaefnum frá gagnfræðaskólanum á Akureyri

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Mjer þykir leitt, að jeg heyrði ekki, hvað hv. 1. landsk. (JJ) sagði síðast. En eitthvað var hann víst að tala um hvítvoðung. Jeg býst ekki við, að það hafi verið svo merkilegt, að svaravert sje. (JJ: Hvítvoðungurinn svarar kannske sjálfur). Þeir eru nú venjulega sagnafáir. Hv. 1. landsk. (JJ) væri víst best að tala altaf við hvítvoðunga. Þá þyrfti hann ekki að óttast að fá svör. (JJ: Jeg talaði við hænuna, en ekki eggið).

Hv. þm. (JJ) sagði till. betri, ef hún gilti lengur. Jeg veit ekki betur en það sje föst regla að borga ekki út eftir þál. nema einu sinni. Þær eru yfirleitt ekki löglegur grundvöllur til að borga út eftir. Það getur rjettlæst nú, af því að ekki eru til fjáraukalög fyrir árið 1927. En það er hægt að koma þessu í löglegu formi inn í fjárlög fyrir 1929.

Hv. þm. (JJ) hjelt, að betra væri að taka próf erlendis. Það er misskilningur, sem auðsær er, þegar þess er gætt, að jafnan verður að gera stóra ritgerð á því máli, er talað er í því landi, þar sem stúdentsprófið fer fram. Og þess er ekki að vænta, að stúdentaefni hafi þau tök á erlendu máli, bæði að tala og rita, að það hamli þeim ekki að ná jafngóðu prófi og ella. Jeg get sagt það um sjálfan mig, að hefði jeg átt að taka stúdentspróf á dönsku t. d., mundi það hafa háð mjer afskaplega mikið, og jeg hefði ekki treyst mjer til þess. Og út frá því dæmi jeg um þessa ungu námsmenn.

Fyrir 2. umr. skal jeg hafa aflað mjer upplýsinga. En jeg vil taka það fram, að jeg tel samtök í þá átt, er hv. þm. (JJ) vill vera láta, öldungis óverjandi, og jeg trúi ekki fyr en jeg tek á því, að þau sjeu til. Jeg skil ekki, að það sje samkepni, sem ræður áliti mentaskólans, því að aðsókn að honum er svo mikil, að hann rúmar ekki fleiri. Verður að leigja kenslustofur úti í bæ, svo er nemendafjöldinn mikill. Jeg býst ekki við, að rektor þyki á hann bætandi.

Um klofninguna í háskólaráðinu er það að segja, að jeg átti ekki hægt um vik að upplýsa um hana, þar eð jeg hafði enga hugmynd um, að ráðið hefði skifst um málið. Hv. 1. landsk. (JJ) hefir sjálfur lesið brjef þess og getur borið um, að það ber ekki neitt slíkt með sjer. Og brjefið barst í mínar hendur kvöldið áður en málið kom til umræðu í Nd., og því enginn tími til þess að kalla saman fund með háskólaráðinu, enda ekkert tilefni til þess.

Um ágreining lögfræðinganna er fátt að segja. Allar stjettir manna greinir á, lækna greinir á um sjúkdóma, kennara um kensluaðferðir o. s. frv. Fyrir fáum dögum átti jeg t. d. tal við tvo barnakennara um kenslubækur hv. 1. landsk. (JJ). Annar sagði þær vera ágætar; hinn sagði þær vera óbrúkandi. Hv. þm. (JJ) misskilur algerlega málfærslumenn fyrir rjetti. Þeir hafa tekið að sjer að færa fram alt, er verða má til málsbóta þeim aðilja, er þeir halda uppi vörn fyrir, en hvorki sverja þeir nje taka á sig ábyrgð, að þeir skilji lögin rjett. Þeir hafa leyfi til að skýra eingöngu frá þeirri hlið, er veit að skjólstæðing þeirra. Að þeir sverji fyrir rjettinum, er ekki annað en venjulegur misskilningur og fáviska hjá hv. 1. landsk. (JJ).