29.04.1927
Efri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í D-deild Alþingistíðinda. (3326)

101. mál, styrkur handa stúdentaefnum frá gagnfræðaskólanum á Akureyri

Frsm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Eins og nál. mentmn. á þskj. 443 ber með sjer, felst nefndin á þá tillögu, sem hjer er um að ræða á þskj. 248. Eftir að hafa athugað tillöguna eins og föng voru á, er nefndin því samþykk, að veita ríkisstjórninni heimild til að greiða ferðastyrk þessum nemendum, fram og aftur, og nokkum dvalarstyrk, sem þó fremur falli í skaut efnalitlum nemendum. Þetta telur nefndin sanngjarnt, í fyrsta lagi af því, að leyft hefir verið, að Akureyrarskóli veitti framhaldskenslu, að loknu gagnfræðaprófi, og leyft var að nota skólahúsið til kenslunnar. Okkur nefndarmönnum fanst þannig vera ýtt undir nemendur Akureyrarskólans að halda áfram námi, og því ilt að hefta för þeirra, er svo langt er komið.

Jeg skal svo ekki fara lengra út í þetta mál, en aðeins benda á það, að þessum stúdentaefnum væri lítill greiði gerður með því að leyfa þeim að taka próf nyrðra þvert ofan í 17. gr. háskólalaganna. Einnig hefi jeg fulla ástæðu til þess að mótmæla því, að þessir ungu menn hafi mætt nokkrum kala, hvorki af hálfu ríkisstjórnarinnar nje kennara mentaskólans, og jeg mótmæli því eindregið, að nokkur samtök hafi átt sjer stað gegn þeim hjer syðra. Eins og einn hv. flm. tók fram, þegar þetta mál var til umr. í Sþ., vakti aðeins fyrir honum að hjálpa þessum piltum til að standast kostnaðinn við prófið.

Leyfi jeg mjer svo að vænta þess, að hv. deild samþ. tillöguna á þskj. 248.