29.04.1927
Efri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í D-deild Alþingistíðinda. (3329)

101. mál, styrkur handa stúdentaefnum frá gagnfræðaskólanum á Akureyri

Frsm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Það eru aðeins örfá orð, til þess að undirstrika þann skilning nefndarinnar á þessu atriði, sem hæstv. forsrh. (JÞ) tók fram, að fyrir okkur vakti ferðastyrkur, en ekki ferðakostnaður, því að það fanst okkur vera of rúmt, og sáum okkur ekki fært að samþykkja það. En eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni, viljum við, að þessi styrkur verði miðaður við efni og ástæður þeirra manna, sem styrksins eiga að njóta.

Hv. 1. landsk. (JJ) gaf mjer ástæðu til að svara því, sem fram kom undir umr. þessa máls í Sþ., þar sem talað var um óvild, sem þessir piltar gætu mætt, og hafa þeir hv. þm., sem því hafa haldið fram, þóst hafa fyrir sjer orð merks manns um það, að rektor mentaskólans hefði farið fram á það við sig að taka ekki þessa pilta til kenslu. Það má fullyrða, að ekki er nokkur fótur fyrir þessu, því að mjer er alveg eins vel kunnugt um þetta samtal eins og hv. 1. landsk. (JJ). Viðtal rektors og dr. Ólafs Daníelssonar, sem þm. vitnar í, mun hafa átt sjer stað fyrir meira en ári síðan. Það var af alt annari ástæðu, að dr. Ólafur Daníelsson gat ekki tekið að sjer að undirbúa utanskólanemendur undir stúdentspróf; var það bæði vegna annríkis hans og þess, hvernig málið þá horfði við. Nú er málið öðruvísi fram komið, og verður leitt til lykta á skynsamlegum grundvelli og þá geta þessi orð, sem misskilin voru og máske dálítið ýkt, gleymst, og má því slá striki yfir þau. Hitt er mjer kunnugt um, að piltar að norðan hafa ekki átt neinum andróðri að mæta, enda væri það ósæmilegt. Hefði svo verið, þá veit jeg, að íhlutun hæstv. mentamálaráðh. (MG) mundi hafa leiðrjett það, en slíkur andróður hefir aldrei átt sjer stað, svo að þessi ásökun er gripin úr lausu lofti.