07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í D-deild Alþingistíðinda. (3340)

101. mál, styrkur handa stúdentaefnum frá gagnfræðaskólanum á Akureyri

Björn Líndal:

Jeg vil eindregið mæla með því, að till. verði samþ., enda er hún í samræmi við það, sem jeg lagði til á þinginu í vetur, í formi rökstuddrar dagskrár, sem þá náði ekki samþykki deildarinnar, af ástæðum, sem rjettast er að tala sem minst um. — Jeg vil jafnframt taka það fram, að þessi styrkveiting til stúdentaefna frá Akureyri til þess að sækja próf hingað til Reykjavíkur getur hæglega gefið tilefni til þess, að stúdentaefni annars staðar frá á landinu sæki um samskonar styrk, og virðist mjer, að þeir eigi til þess jafnmikla sanngirniskröfu. Jeg vil því ekki láta skoða þessa styrkveitingu sem fordæmi fyrir slíku framvegis, heldur aðeins sem hjálp í þetta eina sinn, af því að nokkuð sjerstakar ástæður eru fyrir hendi.