07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í D-deild Alþingistíðinda. (3344)

126. mál, eignar- og notkunarrétt hveraorku

Flm. (Jakob Möller):

Jeg bjóst ekki við því, að svo fljótt kæmi að þessu máli, vegna þess, að miklar umr. mundu verða um málið, sem var næst á undan á dagskránni.

En það gerir ekkert til, því að jeg hafði ekki ætlað mjer að flytja neinn fræðifyrirlestur um þetta mál. Jeg hygg, að um þessa till. geti tæplega verið mjög skiftar skoðanir. Það er kunnugt, að á seinni árum er farið að nota hveri, bæði orkuna og svo ýms efni í gufunni, og það er augljóst, að hverir hafa í sjer fólginn mikinn auð, sem gæti orðið til mikilla nota fyrir landið, ef þeir lenda ekki í braski.

Jeg hygg því, að hv. þdm. geti fallist á það, að það sje ekki síður ástæða til að setja lög um eignar- og hagnýtingarrjett hveraorku heldur en vatnsorku. Þetta er að því leyti svipað, að það má nota orku hveranna til að framleiða rafmagn, auk þess sem nota má gufuna til hitunar. Annars er það svo margt, sem farið er nú að hagnýta hveri til, og vitanlega er það enn mjög rannsóknarefni, sem jeg tel naumast rjett að blanda inn í þetta mál.

Hjer er aðeins um það að ræða að skora á stjórnina að láta undirbúa löggjöf um þetta, á sama hátt og lög hafa verið sett um vatnsrjettindi. Mjer þykir leitt, að enginn úr hæstv. stjórn skuli vera hjer viðstaddur. Hæstv. atvrh. (MG) hvarf í skyndi af fundi, þegar jeg var að standa upp. En jeg vona, að stjórnin taki þetta eigi að síður til athugunar, ef samþ. verður, með því að jeg veit, að hún hefir fengið mjög einróma áskorun um þetta frá Verkfræðingafjelagi Íslands. Mjer þótti það rjett, að deildin styddi þessa ályktun fjelagsins, sem vitanlega styðst við sjerþekkingu á málinu.

Jeg geri ráð fyrir, að mál þetta heyri undir hæstv. atvrh. (MG), og vænti, að hann taki till. vel.